Skip to main content

Skógræktarfélag Íslands kannast ekki við að samráð hafi verið haft við félagið við undirbúning frumvarps að breytingum á lögum um náttúruvernd.

Með janúar 13, 2011febrúar 13th, 2019Fréttir frá skógræktarfélögum

Umhverfisráðuneytið heldur því fram að samráð hafi verið haft við Skógræktarfélag  Íslands við undirbúning frumvarps að breytingum á lögum um náttúruvernd. Af því  tilefni vill Skógræktarfélag Íslands koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.

Þann 13. nóvember 2009 skipaði umhverfisráðherra nefnd til heildarendurskoðunar laga um náttúruvernd.  Fram kemur á heimasíðu Umhverfisráðuneytis þegar skipun nefndarinnar er tilkynnt  að „Nefndin skal skila umhverfisráðherra fullunnu frumvarpi fyrir 1. júní 2010 en skila stuttri áfangaskýrslu í lok mars 2010“. Þann 20. maí 2010 sendir þáverandi formaður nefndarinnar tölvupóst til framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Íslands. Bréfið er stutt og almenns eðlis. Áfangaskýrslan fylgir ekki með bréfinu, né upplýsingar um störf nefndarinnar eða þá stefnubreytingu sem málið tók í meðförum hennar. Kallað er eftir ábendingum en eins og áður kemur fram fylgdu engin gögn eða upplýsingar bréfinu. Samkvæmt íslenskri orðabók merkir orðið samráð „sameiginleg ráðagerð“. Boð um að koma með almennar ábendingar á frumstigi í starfi lokaðrar nefndar flokkast ekki sem sameiginleg ráðagerð við hagsmunaaðila.  Það umsagnarferli sem nú er í gangi getur hins vegar flokkast sem samráð, háð því að nefndin taki fullt tillit til umsagnanna.

Þann 14. desember síðastliðinn tilkynnir Umhverfisráðuneytið að „drög að frumvarpi til laga um breytingar á náttúruverndarlögum“ sé opið til umsagnar til 7. janúar.  Þar er gert opinbert í fyrsta skipti að í stað heildarendurskoðunar náttúruverndarlaga er framkomið tilbúið frumvarp til breytinga á nokkrum greinum laga um náttúruvernd.

Ef raunverulegt samráð hefði verið haft við Skógræktarfélag Íslands, þá hefði félagið sannarlega verið búið að koma áhyggjum á framfæri á fyrri stigum málsins. Það verður að teljast afar sérkennilegt að nefndin, sem hélt fjölda funda,  skuli ekki á þeim tíma hafa haft fyrir því að óska eftir umsögnum og athugasemdum hagsmunaaðila.  Þrátt fyrir að stefnu- og áherslubreyting hafi orðið á störfum nefndarinnar kom ekkert opinberlega frá nefndinni fyrr en þann 14. desember, þá sem fullmótað frumvarp til breytinga á náttúruverndarlögum. 

Skógræktarfélag Íslands er langt frá því að vera eini fulltrúi hagsmunaaðila sem kemur af fjöllum um meint samráð;  hið sama á við um ráðuneyti, stofnanir, hagsmunasamtök, félagasamtök og flesta er málið varðar, svo ekki sé talað um almenna borgara þessa lands. Fögur fyrirheit í skipunarbréfi nefndarinnar, um „ víðtækt samráð við alla hagsmunaaðila“ og að nefndin skuli „skilgreina hagsmunaaðila við upphaf starfsins og kynna þeim ferli samráðsins“ og þá væntanlega halda þeim upplýstum um störf nefndarinnar og vinna tillögur í fullri sátt við hagsmunaaðila, teljast því miður ekki annað en innantómt orðagjálfur.

X