Skip to main content

Skógræktarfélag Íslands veitir sveitarfélaginu Norðurþing viðurkenningu: Yfir 2 milljónir trjáplantna gróðursettar

Með 30. mars, 2012febrúar 13th, 2019Skógargöngur

Skógræktarfélag Íslands veitti sveitarfélaginu Norðurþingi sérstaka viðurkenningu á Fagráðstefnu skógræktar sem fram fór á Húsavík dagana 27.-29. mars. Sveitarfélagið fær viðurkenninguna fyrir öfluga og þrautseiga þátttöku í Landgræðsluskógaverkefninu og viðamikið gróðurbótastarf í bæjarlandi Húsavíkur.

Frá árinu 1990 hefur sveitarfélagið Norðurþing, áður Húsavíkurbær, í samstarfi við Skógræktarfélag Íslands, Skógræktarfélag Suður-Þingeyinga og Húsgull, gróðursett yfir 2 milljónir trjáplantna á vegum Landgræðsluskógaverkefnisins. Af þeim 19.236.064 plöntum sem hafa verið gróðursettar alls frá því að Landgræðsluskógaverkefnið hófst árið 1990, hafa 2.061.906 verið gróðursettar í landi Húsavíkur eða 10,7%.

Það þýðir að Norðurþing er það sveitarfélag sem gróðursett hefur flestar plöntur allra sveitarfélaga á landinu.
Auk þessa  öfluga skógræktarstarfs hefur uppgræðsla örfoka lands með lúpínu verið umfangsmikil og þannig hafa skapast  lífsskilyrði fyrir tré og runna á landi sem vegna ofnýtingar var orðin eyðimörk.

Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri Norðurþings, Gaukur Hjartarson skipulagsfulltrúi og Jan Klitgaard, garðyrkjustjóri Norðurþings, tóku við viðurkenningunni úr hendi Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands.

husavik

Frá vinstri: Jan Klitgaard garðyrkjustjóri Norðurþings, Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri Norðurþings og Gaukur Hjartarson, skipulagsfulltrúi (Mynd: BJ).