Skip to main content

Sveppabókin – Handbók um íslenska sveppi og sveppafræði

Með september 17, 2010febrúar 13th, 2019Ýmislegt

Helgi Hallgrímsson, náttúrufræðingur á Egilsstöðum, hefur síðan um 1990 hefur unnið að bók um sveppi og kemur hún út núna í haust. Í bókinni er farið yfir það helsta tengt sveppum hérlendis, meðal annars er fjallað um mat- og eitursveppi, ræktun matsveppa, sögu svepparannsókna hérlendis og fjölmörgum íslenskum tegundum lýst í máli og myndum, með áherslu á nytjasveppi og sveppi er geta skaðað fólk, dýr, ræktaðar plöntur eða matvæli.

Sveppabókin er ekki flóra í venjulegri merkingu þess orðs, þar sem í henni er ekki að finna lýsingar á nema um fjórðungi þeirra um 2000 sveppategunda sem skráðar hafa verið hér á landi. Áherslan er á stærri sveppi, en meginhluti skráðra sveppa hérlendis eru smásveppir á mörkum þess að sjást með berum augum og eiga því minna erindi við almenning. Sveppabókin er byggð á könnun og söfnun höfundar á íslenskum sveppum í 50 ár, auk rannsókna fjölmargra annarra fræðimanna í yfir eina öld.

Sveppir eru einn af grundvallarþáttum lífríkisins, en þá er næstum alls staðar að finna þar sem eitthvert líf þrífst. Þeir mynda svepprætur með blómplöntum og trjám og án þeirra væri skógrækt á Íslandi ekki möguleg. Þeir eru stofninn í fléttum og skófum, sem vaxið geta á beru grjóti. Þrátt fyrir það hafa sveppir lengst af verið í litlu áliti hjá okkur Íslendingum – við höfum nefnt þá gorkúlur eða myglu – en það viðhorf er sem betur fer óðum að breytast.

Sveppabókin er ætluð almenningi jafnt sem fræðimönnum og flestir ættu að geta fundið sér þar eitthvað áhugavert. Hún er um 600 blaðsíður að stærð og inniheldur mörg hundruð skýringarmynda og litmyndir af íslenskum sveppum. Bókin kemur út í október og hægt er að tryggja sér hana í forsölu til 1. október á afsláttarkjörum (2000 kr. afsláttur) hjá Skruddu.

sveppabokin

X