Skip to main content

Tré ársins 2010

Með 11. september, 2010febrúar 13th, 2019Ýmislegt

Skógræktarfélag Íslands hefur valið  „Tré ársins” árið 2010 en það er undraverður álmur (Ulmus glabra) er stendur við Heiðarveg 35 í Vestmannaeyjum.

Er tréð íturvaxið og  hefur að geyma all merkilega sögu. Útnefningu sem „Tré ársins“ fær álmurinn fyrst og fremst vegna sérstöðu sinnar þegar haft er í huga hvar á landinu tréð vex. Vestmannaeyjar hafa lengst af ekki verið taldar með heppilegustu vaxtarsvæðum landsins og í raun er það með ólíkindum að tréð hafi lifað af Heimaeyjargosið.

Tréð mun hafa verið gróðursett árið 1945. Húsið sem nú stendur við Heiðarveg 35 er byggt af Ólafi Á. Kristjánssyni og það mun hafa verið kona hans, Marý Friðriksdóttir, sem gróðursetti álminn.

Álmurinn á Heiðarvegi 35 er sönnun þess að hægt er að umvefja bæinn gróðri og gera hann fegurri og skjólsælli með því að hvetja fleiri bæjarbúa til að gróðursetja álm, hlyn og ótalmargar tegundir af runnum og rósum sem þegar er vitað að þrífast í Vestmannaeyjum. Til þess að leggja þessu starfi lið geta allir lagt Skógræktarfélagi Vestmannaeyja lið og gengið í það og eflt þannig það starf sem félagið vinnur að á ári hverju. Skógræktarfélag Vestmannaeyja var endurvakið árið 2000, en áður hafði verið stofnað og starfað félag sem m.a. vann að ræktun í Herjólfsdal.

Tréð var formlega útnefnt við athöfn þann 10. september. Við athöfnina lék Lúðrasveit Vestmannaeyja nokkur lög og síðan tók Margrét Lilja Magnúsdóttir, varaformaður Skógræktarfélags  Vestmannaeyja við. Sagði hún að það gæfi starfinu í Eyjum byr undir báða vængi að slík viðurkenning væri veitt í Eyjum. Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands flutti stutt ávarp og veitti síðan eigendunum á Heiðarvegi 35 viðurkenningu af þessu tilefni, þeim Huldu Pétursdóttir og Sigurði Franz Þráinssyni. Þá flutti Páley Borgþórsdóttir, fulltrúi Vestmannaeyjabæjar, kveðju og sagðist fagna slíku framtaki og það væri mikil hvatning og fyrirmynd fyrir bæjarbúa að sjá að athygli væri beint á ræktunarstarf í Eyjum hún væri þess fullviss að bæjarbúar héldu áfram að fegra og bæta bæinn.

Tréð var síðan mælt hátt og lágt og reyndist vera  6,5 m að hæð. Meginstofnar voru sex og var þvermál og ummál þess stærsta mælt og var hann 17,5 cm í þvermál og 22,2 cm í ummál. Félagar úr lúðrasveitinni léku svo síðustu tóna þessarar athafnar.

Tréð er frískleg og heilbrigt og gefur vísbendingar um að í Vestmannaeyjum sé hægt að rækta marga fagra hrísluna.

trearsins-web-1

Sigurður Franz Þráinsson, Hulda Pétursdóttir og fjölskylda, eigendur Heiðarvegar 35 (Mynd: BJ).

trearsins-web-2

Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, flytur ávarp (Mynd: BJ).

trearsins-web-3

Margrét Lilja Magnúsdóttir, varaformaður Skógræktarfélags Vestmannaeyja, flytur ávarp (Mynd: BJ).

trearsins-web-4

Páley Borgþórsdóttir, fulltrúi Vestmannaeyjabæjar, flytur ávarp (Mynd: BJ).

trearsins-web-5

Tré ársins 2010 (Mynd: BJ).