Skip to main content

Tré ársins 2015

Með 29. september, 2015febrúar 13th, 2019Skógræktarverkefni

Tré ársins 2015 var útnefnt við hátíðlega athöfn laugardaginn 26. september síðast liðinn. Að þessu sinni varð reynitré (Sorbus aucuparia) sem stendur í Sandfelli í Öræfum fyrir valinu.

Reynirinn vekur jafnan athygli, þar sem hann stendur einn og óstuddur, með gráar skriður í bakgrunni og sést hann vel frá þjóðveginum. Tréð var gróðursett árið 1923 af Þorbjörgu Guðdísi Oddbergsdóttur, mágkonu séra Eiríks Helgasonar, sem var prestur í Sandfelli frá 1918 til 1931. Þorbjörg fékk tréð sent frá vinkonu sinni á Egilsstöðum sem hafði fengið það í gróðrarstöðinni hjá Guttormi Pálssyni, skógarverðinum á Hallormsstað, en uppruni þess er ekki þekktur.

Hófst athöfnin á því að Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, bauð gesti velkomna. Að ávarpi hans loknu færði Magnús afkomendum séra Eiríks viðurkenningarskjal og tók Eiríkur Helgason við því fyrir þeirra hönd. Einnig tók Örn Bergsson við viðurkenningarskjali fyrir hönd Öræfinga. Eiríkur Helgason færði svo Skógræktarfélagi Íslands fallega ljósmynd af trénu og tók Magnús Gunnarsson við henni fyrir hönd félagsins. Anna Sigríður Helgadóttir tók því næst lagið fyrir gesti. Að lokum var tréð hæðarmælt og sá Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor í skógfræði, um mælingu. Reyndist hæsti stofn trésins vera 11,98 m á hæð, en tréð greinist í sjö stofna. Að lokum var svo gestum boðið upp á hressingu á Hótel Skaftafelli í Freysnesi.

Skógræktarfélag Íslands útnefnir árlega Tré ársins, nú í samstarfi við Arion banka. Er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land.

Sjá má myndir frá útnefningunni á Facebook síðu Skógræktarfélags Íslands.

trearsins2015

Tré ársins 2015 (Mynd: RF).