Tré ársins 2018 var formlega útnefnt við hátíðlega athöfn sunnudaginn 2. september. Er Tré ársins að þessu sinni veglegur vesturbæjarvíðir (Salix smithiana ‘Vesturbæjarvíðir’) að Ytri-Skógum undir Eyjafjöllum.
Sverrir Magnússon stýrði athöfninni, sem hófst með ávarpi Jónatans Garðarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, sem afhenti eigenda trésins, Margréti Bárðardóttur, viðurkenningaskjal af þessu tilefni. Margrét flutti því næst stutta tölu og því næst var haldið til að mæla tréð. Reyndist það 11,1 m á hæð, ummál stofns rúmir 2,4 m og mjög krónumikið, en alls þekur króna þess rúma 225 fermetra.
Inn á milli atriða flutti svo hljómsveit Valborgar Ólafsdóttur frumsamin lög. Hana skipa Valborg Ólafsdóttir, söngur og gítar, Orri Guðmundsson á trommum, Baldvin Freyr Þorsteinsson á gítar og Árni Guðjónsson á bassa og hljómborð. Einnig var boðið upp á hressingu frá Skógakaffi.
Að athöfn lokinni var svo boðið upp á skógargöngu um Völvuskóg undir leiðsögn Einars Gunnarssonar og Sverris Magnússonar.
Er þetta í fyrsta sinn sem vesturbæjarvíðir er útnefndur sem Tré ársins, enda er þetta frekar fágæt tegund nú til dags. Uppruni tegundarinnar hér á landi er nokkuð áhugaverður. Upp úr aldamótunum 1900 flutti Jón Eyvindsson kaupmaður inn stofuplöntur frá Þýskalandi, sem komu í tágakörfum. Ísleifur sonur hans kom til teinungi úr slíkri körfu og gróðursetti í garði heimilisins að Stýrimannastíg 9. Þreifst þessi teinungur vel og fengu nágrannar með tíð og tíma græðlinga af honum til að setja í garðana hjá sér. Dreifðist víðirinn þannig um Vesturbæinn og varð nokkuð algengur þar og dróg nafn sitt af því. Ræktun hans lagðist að mestu af eftir 1940, með auknu framboði trjáplantna til sölu.
Skógræktarfélag Íslands hefur krýnt Tré ársins árlega síðan 1993. Er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land. IKEA á Íslandi er samstarfsaðili Skógræktarfélags Íslands við útnefningu á Tré ársins.
Tré ársins 2018 – glæsilegur vesturbæjarvíðir að Ytri-Skógum (Mynd: RF).
Margrét Bárðardóttir, eigandi trésins og Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, standa undir krónumiklu trénu (Mynd: RF).