Skip to main content

Vormarkaður á Elliðavatni

Með maí 13, 2011febrúar 13th, 2019Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Reykjavíkur heldur Vormarkað á Elliðavatni í annað sinn dagana 13.-15. maí næstkomandi. Föstudaginn 13. maí verður opið kl. 15-18, en kl. 10-18 laugardag og sunnudag.

Félag trérennismiða verður með stóra sölusýningu í Gamla salnum og rekur auk þess kaffistofu á staðnum. Þá verða þeir með sýnikennslu á Hlaðinu eins og í fyrra.

Á laugardag verður hestaleiga fyrirtækisins Íslenski hesturinn, þar sem teymt er undir börnum í gerði við bæinn kl. 11-13. Þá verður kynning á stafgöngu á vegum ÍSÍ eftir hádegi og síðdegis verður síðan Vorblót að Vatni á vegum Ásatrúarmanna, sem bjóða öllum að fagna gróandanum með sér.

Fuglavernd og Ferðafélag Íslands verða með kynningu á starfseminni og bjóða fólki í fræðslugöngur á meðan á Vormarkaðnum stendur. Á föstudag verður kennsla í fluguhnýtingum. Á laugardag býðst fólki að kasta flugu með leiðsögn og á sunnudeginum verður síðan kastkeppni á túninu neðan við bæinn.

Gámaþjónustan býður öllum upp á ókeypis moltu í garðinn -og ekki má gleyma Skógræktarfélaginu sem hefur til sölu eldivið, bolvið og kurl og einnig munu skógarmenn sýna nýjustu vélarnar að störfum á laugardeginum.