Skip to main content

Gróðursetning í Vinaskógi

Með 2. júní, 2022Fréttir

Fimmtudaginn 2. júní gróðursettu nemendur í Kerhólsskóla í Grímsnes- og Grafningshreppi 55 trjáplöntur í Vinaskógi við Þingvelli, í samstarfi við umboðsmann barna, Skógræktarfélag Íslands og Yrkjusjóð.

Tilefni gróðursetningarinnar var barnaþing sem fyrst var haldið í nóvember 2019 og í annað sinn í mars á þessu ári. Umhverfismál eru börnum afar hugleikin og var mikil áhersla lögð á þau málefni í umræðum á báðum barnaþingum. Markmið gróðursetningarinnar er að binda kolefni á móti losun tengdri ferðum barnaþingmanna og sérstaklega þeirra sem komu lengst að, í samræmi við áherslur barnaþingmanna á umhverfis- og loftslagsmál og umhverfisvæna samgöngumáta.

Til Vinaskógar var stofnað í tilefni Landgræðsluskógaátaksins árið 1990 og átti frú Vigdís Finnbogadóttir hugmyndina að honum og er hún verndari hans. Hún er jafnframt verndari barnaþings og því vel við hæfi að velja Vinaskóg til gróðursetningarinnar nú. Allir nemendur Kerhólsskóla tóku þátt í gróðursetningunni ásamt starfsfólki umboðsmanns barna. Sævar Helgi Bragason flutti börnunum og öðrum viðstöddum hugvekju um umhverfis- og náttúruvernd og endaði gróðursetningin á hressingu í boði umboðsmanns barna. Skógræktarfélag Íslands hefur umsjón með gróðursetningu og umhirðu Vinaskógar.