Skip to main content

Skógræktarfélag Íslands undirritar samstarfsyfirlýsingu við Kötlu Jarðvang

Með 5. maí, 2022Fréttir

Skógræktarfélags Íslands og Katla Jarðvangur, undirrituðu samstarfsyfirlýsingu miðvikudaginn 4. maí er lýtur að því að efla og auka áhuga sveitarfélaga á Suðurlandi á skógi og skógrækt. Unnið verður með Skógræktarfélagi Mýrdælinga, Skógræktarfélaginu Mörk og Skógræktarfélagi Rangæinga að því að vekja athygli á mikilvægi gróðursetningar trjáplantna sem hluta af baráttunni við loftslagsbreytingar, að fræða og virkja yngri kynslóðir og stuðla að sjálfbærri náttúruferðamennsku á Suðurlandi. Er þetta hluti af Skógarfólk verkefninu hjá Skógræktarfélagi Íslands, sem snýst um að styrkja tengsl Skógræktarfélags Íslands við aðildarfélög sín og tengsl félaganna við nágrenni sitt og auka veg skógræktar í íslensku samfélagi. Undirrituðu fulltrúar allra aðila undir samstarfsyfirlýsinguna.

Fulltrúar samstarfsaðilanna að undirritun lokinni. F.v. Elisabeth Bernard, verkefnastjóri samvinnuverkefnisins hjá Skógræktarfélagi Íslands; Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands; Þorsteinn Jónsson, ritari Skógræktarfélags Rangæinga; Berglind Sigmundsdóttir, framkvæmdastjóri Kötlu Jarðvangs; Sigurgeir Már Jensson, formaður Skógræktarfélags Mýrdælinga og Jón Þorbergsson, formaður Skógræktarfélagsins Merkur.