Skip to main content

Tré ársins 2022: Hæsta tréð frá því fyrir ísöld

Með 13. september, 2022Fréttir

Tré ársins 2022 var formlega útnefnt við hátíðlega athöfn mánudaginn 12. september og er það sitkagreni (Picea sitchensis) á Kirkjubæjarklaustri. Er Tré ársins fyrsta tré frá því fyrir síðustu ísöld til að ná 30 m hæð, en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sló máli á tréð með aðstoð Björns Traustasonar frá Skógræktinni og reyndist það vera 30,15 m á hæð.

Í ávarpi sínu við athöfnina kom Katrín Jakobsdóttir inn á mikilvægi skóga og skógræktar og nefndi sérstaklega nýja landsáætlun um landgræðslu og skógrækt og mikilvægi hennar fyrir loftslagsmarkmið Íslands. Að auki skipaði skógurinn sem tréð stendur í sérstakan sess í huga hennar, en hún sýndi á sínum tíma tilvonandi manni sínum skóginn sem einn af sínum uppáhaldsstöðum.

Fjöldi fólks mætti á athöfnina – heimafólk og fulltrúar eigenda skógarins, Skógræktarinnar og Skógræktarfélags Íslands. Auk forsætisráðherra fluttu ávarp Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri og Hafberg Þórisson í Lambhaga, sem er bakhjarl viðburðarins. Einnig afhenti Hafberg viðurkenningaskjöl og tók Fanney Ólöf Lárusdóttir við því fyrir hönd landeiganda og Þröstur Eysteinsson fyrir hönd Skógræktarinnar, en Skógræktin hefur farið með umsjón skógarins.

Fanney Ólöf Lárusdóttir, Katrín Jakobsdóttir og Þröstur Eysteinsson glaðbeitt við Tré ársins 2022.

Í tilefni útnefningar Trés ársins fékk Skógræktarfélag Íslands einnig senda skemmtilega ferskeytlu frá Philip Vogler:

Heim við bjóðum góðu geni,
getur vaxið hátt.
Við Systrafoss nú sitkagreni
sannar vaxtarmátt.