Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

nóvember 2014

Jólamarkaðurinn Elliðavatni

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Jólamarkaðurinn vinsæli við Elliðavatn opnar laugardaginn 29. nóvember og verður opinn allar helgar fram að jólum frá klukkan 11-16. Mikið úrval af íslensku handverki og hönnun.

Dagskráin hefst við hátíðlega athöfn þar sem Skólakór Norðlingaskóla ætlar að gleðja markaðsfólk og gesti með söng sínum kl.11.30 á hlaðinu og jólaljósin á trénu verða tendruð, en tréð í ár er skreytt af Gerði Jónsdóttur.

Á Hlaðinu verða til sölu nýhöggvin íslensk jólatré og þar að auki mikið úrval af tröpputrjánum vinsælu og eldiviður. Í Gamla salnum, Hlöðunni og í litlu Jólahúsunum á torginu verður fjölbreyttur hópur handverksfólks sem kynnir vörur sínar og selur. Kaffistofan verður niðri í Elliðavatnsbænum þar sem fjölskyldan getur fengið sér hressingu í anda jólanna, átt notalega stund, og hlustað á rithöfunda lesa og tónlistarfólk flytja falleg lög.

Rjóðrið er trjálundur rétt við Elliðavatnsbæinn þar sem hægt er að setjast á bekki kringum logandi varðeld. Barnastundin verður þar klukkan 14 og þá kemur barnabókahöfundur og les upp fyrir börnin. Jólasveinar koma í heimsókn á markaðinn, og kíkja líka á börnin í rjóðrinu eftir upplesturinn. Þeir syngja og tralla frá 13.30-15.30.

Hægt verður að fylgjast nánar með dagskrá jólamarkaðarins á fésbókarsíðu markaðarins þegar nær dregur. Einnig verða upplýsingar um verð og fleira tengt jólatrjáasölu og jólamarkaðnum á heimasíðu Skógræktarfélags Reykjavíkur.

jolamarkadur

Jóla- og tækifæriskort Skógræktarfélags Íslands árið 2014

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Jóla- og tækifæriskort Skógræktarfélags Íslands árið 2014 er komið út. Kortið prýðir mynd eftir Kristínu Arngrímsdóttur og prýðir sú mynd einnig forsíðu 2. heftis Skógræktarritsins 2014.

Sérstök hvatning er á kortinu, þar sem kemur fram að fyrir hvert selt kort gróðursetur félagið eitt tré. Ekkert er prentað inn í kortin, þannig að þau nýtast áfram eftir jól sem afmæliskort, boðsmiðar eða hvað sem fólki dettur í hug.

Kortin eru seld 10 saman í pakka með umslögum á kr. 2.000.

Hægt er að nálgast kortin á skrifstofu Skógræktarfélags Íslands, í Þórunnartúni 6, 2. hæð (næsti inngangur við antikbúðina). Einnig eru til nokkrar gerðir af eldri kortum (sjá hér), á kr. 1.000.

Þá er einnig hægt að panta kortin í síma 551-8150 eða með tölvupósti til skog (hjá) skog.is og fá þau póstsend en þá bætist við póstburðargjald.

tkort2014-max

Borgartréð í Reykjavík 2014

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Borgartréð 2014 er garðahlynur við Sturluhallir, Laufásvegi 49-51, þar sem Íslenska auglýsingastofan er til húsa. Tréð verður formlega útnefnt við hátíðlega athöfn föstudaginn 21. nóvember. Útnefningin er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Hlynurinn við Sturluhallir var gróðursettur árið 1922 og er 10,2 m.á hæð og 2,02 m í ummál þar sem bolurinn er sverastur, þetta er einhver krónumesti hlynur á landinu. Króna garðahlynsins er yfirleitt regnhlífalöguð hér á landi.
Hlynurinn hefur mikið gildi í ræktun í görðum og opnum svæðum. Viður hans er ljós og meðal annars notaður í parket, húsgögn og hljóðfærasmíð, eins og fiðlur, enda leiðir hann hljóð óvenju vel. Síróp er gert úr vökva hlynsins og er það töluverður iðnaður í Norður-Ameríku.

Börkurinn er grár og sléttur en verður hrufóttur með árunum og þykir mikið augnayndi. Blöðin eru handsepótt og frekar stór og með gulan haustlit. Blóm eru gulgræn í hangandi klösum og vinsæl meðal býflugna. Aldinið er tvær hnotur með samvöxnum vængjum sem minna á þyrluspaða þegar þær svífa til jarðar, í miklum vindi geta fræin ferðast nokkur hundruð metra frá móðurtrénu. Hlynur þolir mengun, salt og vind þegar hann eldist en er viðkvæmur í uppeldi.

Hvergi á landinu er garðahlynurinn jafn algengur og í Reykjavík og verður hann meira áberandi í borgarlandslaginu með hverju árinu sem líður. Flestir stóru hlynir borgarinnar eru rétt að slíta barnsskónum ef miðað er við þann 500 ára aldur sem hann nær.

Borgarstjóri Reykjavíkur, Dagur B. Eggertsson, mun útnefna tréð og tendra ljósin á trénu. Valgeir Guðjónsson flytur lag sitt Tré. Dr. Sturla Friðriksson, eigandi trésins, segir einnig nokkur orð við þetta tilefni, en Sturla ólst upp á Laufásvegi 49 og lék sér mikið í garðinum þar sem tréð stendur.


Opin dagskráin hefst kl. 17 í garði Laufásvegar 49-51.

borgartre

Námskeið: Efling berjaræktar á Íslandi

Með Fræðsla

Í haust eru liðin 75 ár frá því Garðyrkjuskóli ríkisins hóf starfsemi sína á Reykjum í Ölfusi og af því tilefni efnir Landbúnaðarháskóli Íslands (LbhÍ) til námskeiðs þar sem megin þemað er efling berjaræktar á Íslandi.

Norski garðyrkjuráðunauturinn Åge Jørgensen mun fjalla um eflingu berjaræktunar, bæði úti og inni, í Noregi síðustu ár, en hann hefur þróað nýjar aðferðir við ræktun berja í gróðurhúsum og köldum dúkhúsum.

Einnig verður farið yfir stöðu mála á Íslandi í dag. Sérfræðingar munu fjalla um rannsóknaverkefni undanfarinna ára og framleiðendur og ræktendum munu fjalla um ýmsar tegundir berja- og ávaxtaplantna, kosti þeirra og galla.

Námskeiðið er haldið föstudaginn 14. nóvember, kl. 9:00-16:00 hjá LbhÍ á Reykjum í Ölfusi.
Verð: 12.900 kr. (innifalið eru námsgögn, kaffiveitingar og léttur hádegisverður)

Nánari upplýsingar á heimasíðu LbhÍ: www.lbhi.is/namskeid.