Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

ágúst 2013

Nýtt gönguleiðakort um skógræktarsvæði í Garðabæ

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Nýlega gaf Skógræktarfélag Garðabæjar út kort í handhægu vasabroti með upplýsingum um gönguleiðir og annan fróðleik um útivistarsvæðin ofan byggðar í Garðabæ.
Í nágrenni við friðland Vífilsstaðavatns, á hæðunum í Smalaholti og Sandahlíð, sjást nú myndarlegir skógarlundir sem skógræktarfélagið hefur ræktað og byggt upp á undanförnum 25 árum. Margir nýta sér svæðin til útivistar og afþreyingar. Félagið hefur látið skipuleggja göngustíga og áningastaði á þessum svæðum og hlykkjast stígakerfið þar um alveg efst upp á hæðir þaðan sem víðsýnt er.

Kortið nær yfir næsta nágrenni Vífilsstaðavatns en á annarri hlið þess eru sérkort yfir gönguleiðir, áningastaði o.fl. í Smalaholti, Sandahlíð og Vífilsstaðahlíð.

Nánar má lesa um kortið á heimasíðu Skógræktarfélags Garðabæjar – www.skoggb.is

sk gbr-kort

Aðalfundur 2013

Með Aðalfundir

Skógræktarfélag Íslands hélt 78. aðalfund sinn í safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli í Garðabæ dagana 23. – 25. ágúst 2013. Skógræktarfélag Garðabæjar var gestgjafi fundarins. Á annað hundrað fulltrúar, alls staðar af landinu, sóttu fundinn, og tókst hann vel.

Fundurinn hófst á föstudagsmorgun með ávörpum Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, Erlu Biljar Bjarnardóttur, formanns Skógræktarfélags Garðabæjar, Gunnars Einarssonar, bæjarstjóra Garðabæjar og Jóns Loftssonar skógræktarstjóra. Einnig hélt Hulda Hauksdóttir, upplýsingafulltrúi Garðabæjar, stutt erindi um bæinn.

Ávarp Magnúsar Gunnarssonar (pdf)

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf fram að hádegi. Eftir hádegisverð var farið í nefndastörf og svo í vettvangsferð er þeim var lokið. Var byrjað á að heimsækja Náttúrufræðistofnun Íslands, þar sem Jón Gunnar Ottósson forstjóri, hélt stutta kynningu á stofnuninni, en því næst var ekið sem leið lá að Grænagarði í Garðaholti, sem er fallegur skógarreitur sem hjónin Sigurður Þorkelsson og Kristín Gestsdóttir ræktuðu upp. Sagði Hólmfríður Sigurðardóttir, dóttir þeirra hjóna, frá reitnum. Því næst var haldið í Vífilsstaðahlíð, þar sem Skógræktarfélag Reykjavíkur bauð upp á hressingu og undirritaður var þjónustusamningur milli Garðabæjar og Skógræktarfélags Reykjavíkur um umsjón með Garðabæjarhluta Heiðmerkur. Voru það Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Þröstur Ólafsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur, sem gerðu það.

Á laugardagsmorgun hófst dagskrá á fræðsluerindum. Björn Jónsson, framkvæmdastjóri Suðurlandsskóga, fjallaði um eldvarnir á skógræktarsvæðum, Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands, sagði frá hugmyndum um skipulag skógræktar á Úlfljótsvatni, Þráinn Hauksson fjallaði um útivistar-og skógræktarhluta svæðisskiplags höfuðborgarsvæðisins og Gústaf Jarl Viðarsson sagði frá skógrækt í aðalskipulagi. Einnig sagði Erla Bil Bjarnardóttir stuttlega frá skógræktar- og útivistarsvæðum í Garðabæ. Því næst var sýnd ný stuttmynd eftir Gísla Gestsson kvikmyndagerðarmann um upphaf Landgræðsluskóga.

Erindi Björn B. Jónsson (pdf)
Erindi Brynjólfur Jónsson (pdf)
Erindi Gústaf Jarl Viðarsson (pdf)
Erindi Þráinn Hauksson (pdf) 

Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð. Fyrst var ekið að Smalaholti, þar sem frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, gróðursetti 20 milljónustu Landgræðsluskógaplöntuna, en fyrsta plantan í verkefninu var einmitt gróðursett í Smalaholti, af Vigdísi, árið 1990. Frá Smalaholti var svo gengið yfir í Sandahlíð, þar sem Skógræktarfélag Garðabæjar bauð upp á hressingu og ljúfa tóna hornleikara í skóginum.

Síðast á dagskránni á laugardaginn var hátíðarkvöldverður og kvöldvaka í umsjón gestgjafanna, undir styrkri stjórn Guðna Ágústssonar. Flutti Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, þar ávarp. Einnig voru fjórir aðilar heiðraðir fyrir störf sín í þágu skógræktar og voru það Barbara Stanzeit, Erla Bil Bjarnardóttir, Sigurður Björnsson og Sigurður Þorkelsson. Að auki voru þeim félögum sem áttu tugaafmæli á árinu færðar árnaðaróskir Skógræktarfélags Íslands, en það voru Skógræktarfélag Skagfirðinga (80 ára), Skógræktarfélag Bolungarvíkur (50 ára), Skógræktarfélagið Landbót (20 ára), Skógræktarfélag Rangæinga (70 ára), Skógræktarfélag Skagfirðinga (80 ára) og Skógræktarfélag S-Þingeyinga (70 ára). Tóku Dagur Jóhannesson, Skógræktarfélagi S-Þingeyinga og Jón Ragnar Örlygsson, formaður Skógræktarfélags Rangæinga, við skjali og myndarlegri elriplöntu af því tilefni fyrir hönd síns félags, en fulltrúar frá öðrum afmælisfélögum áttu ekki heimangengt. Deginum lauk svo með balli.

Á sunnudeginum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikninga, tillagna og kosning stjórnar.


Umfjöllun um aðalfundinn í Skógræktarritinu, 2. tbl. 2013 (pdf)

Fundargögn:

DAGSKRÁ (pdf)

STARFSSKÝRSLA SKÓGRÆKTARFÉLAGS ÍSLANDS 2012-2013 (pdf)

SKÝRSLA LANDGRÆÐSLUSJÓÐS (pdf)

Trén í Laugardal – fræðsluganga

Með Skógargöngur

Fimmtudaginn 22. ágúst kl. 20 standa Grasagarðurinn, Skógræktarfélag Reykjavíkur og Borgargarðar í Laugardal fyrir göngu þar sem ræktunarsaga Laugardalsins verður kynnt og trén og annar gróður skoðaður.

Um leiðsögn sjá þeir Gústaf Jarl Viðarsson, skógfræðingur hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur, og Hannes Þór Hafsteinsson, náttúrufræðingur og starfsmaður Borgargarða.

Gangan hefst við aðalinnganginn. Verið velkomin.

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2013

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands verður haldinn í safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli við Kirkjulund í Garðabæ helgina 23.-25. ágúst. Skógræktarfélag Garðabæjar er gestgjafi fundarins en félagið fagnar 25 ára afmæli sínu á þessu ári.

Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa verða flutt fjölbreytt fræðsluerindi og farið í vettvangsferðir um Garðabæ og útmörk bæjarins þar sem gestum gefst tækifæri á að sjá með eigin augum þann árangur sem þar hefur náðst við uppgræðslu og skógrækt. Hápunktur fundarins er hátíðarkvöldverður í safnaðarheimilinu á laugardagskvöld þar sem valinkunnir menn verða heiðraðir fyrir framlag sitt til skógræktar og dans stiginn fram á nótt.

Í fræðsluerindum á fundinum verður sjónum meðal annars beint að endurskoðun svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins með tilliti til útivistar og skógræktar, eldvörnum á skógræktarsvæðum og hugmyndum um skipulag á jörð Skógræktarfélags Íslands og skátahreyfingarinnar að Úlfljótsvatni.

Dagskrá aðalfundar, starfsskýrslur Skógræktarfélags Íslands og Landgræðslusjóðs og aðrar gagnlegar upplýsingar má nálgast á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands (hér).

Hægt verður að fylgjast með gangi fundarins á Facebook-síðu Skógræktarfélagsins (hér).

Ólag á tölvupósti hjá Skógræktarfélagi Íslands

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Ólag hefur verið á tölvupóstþjónustu Skógræktarfélagsins frá því seinni part fimmtudags og kemst enginn tölvupóstur sem sendur er á netföng félagsins til skila. Verið er að vinna í málinu, en í millitíðinni er þeim sem hafa sent tölvupóst á þessum tíma bent á að hafa samband í síma 551-8150 eða senda tölvupóst á netfangið skogfelag@gmail.com.

Skógar- og útivistardagur fjölskyldunnar hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Sunnudaginn 18. ágúst verður hinn árlegi Skógar- og útivistardagur fjölskyldunnar haldinn hátíðlegur í Höfðaskógi. Dagskráin stendur á milli kl. 14:00-17:00. 

Bænalundur – Höfðaskógi – kl. 14:00
Helgistund í umsjón séra Gunnþórs Ingasonar
Ganga með Jónatan Garðarssyni formanni Skógræktarfélags Hafnarfjarðar að lokinni helgistund. Gangan tekur um eina klukkustund.

Bækistöðvar Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Þallar við Kaldárselsveg – kl. 14:45-17:00.
Þórður Marteinsson leikur ljúf lög á harmonikku
Skógargetraun fyrir yngstu kynslóðina. Dregið úr réttum svörum og verðlaun veitt kl. 16:30.
Heitt í kolunum á hlaðinu. Komið með á grillið.
Heitt á könnunni í boði Skógræktarfélagsins.

Hestamiðstöð Íshesta, Sörlaskeiði 26 – kl. 15:00-16:00.
Börnin fá að fara á hestbak í gerðinu við Hestamiðstöð Íshesta.

Skátalundur, skátaskálinn við Hvaleyrarvatn – kl. 15:00-17:00.
Sýning á útskornum munum úr tré.
Hnútakennsla og galdrahnútar fyrir börnin.
Kanóar á Hvaleyrarvatni.
Heitt kakó á könnunni
Gömlu góðu leikirnir í boði ÍTH.

Nánari upplýsingar í síma Skógræktarfélagsins: 555-6455 eða 894-1268.

Skógardagur í Prestsbakkakoti

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógardagur Skógræktarfélagsins Merkur verður haldinn í Prestsbakkakoti sunnudaginn 18. ágúst kl. 13:30. Skógarbændurnir Jón og Sólveig munu sýna okkur ræktun sína.

Að skoðun lokinni býður Skógræktarfélagið upp á veitingar.

Allir áhugasamir hjartanlega velkomnir!

Tré ársins 2013

Með Skógargöngur

Skógræktarfélag Íslands útnefnir alaskaöspina (Populus balsamifera ssp. trichocarpa) í garðinum á Freyshólum á Völlum Fljótsdalshéraði Tré ársins 2013 við hátíðlega athöfn, sunnudaginn 18. ágúst kl. 14. Útnefningin er tileinkuð áttræðisafmæli bræðranna Baldurs og Braga Jónssona frá Freyshólum.

Baldur og Bragi hófu störf hjá Skógrækt ríkisins á Hallormsstað tvítugir að aldri þar sem þeir störfuðu alla sína starfsævi, samfellt í 50 ár, allt til ársins 2003. Fyrir fimmtíu árum gróðursettu þeir alaskaöspina í garðinn við Freyshólabæinn. Tréð sem er nú rúmlega 17 metra hátt og tæpir tveir metrar að ummáli ber ævistarfi þeirra og ástríðu þeirra bræðra fyrir skógrækt fagurt vitni. Þá er skógurinn ofan bæjarins á Freyshólum verk þeirra bræðra.

Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, flytur ávarp við athöfnina.

Boðið verður upp á tónlistaratriði og veitingar.

Allir velkomnir!

Skógræktarfélag Íslands útnefnir árlega Tré ársins. Er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land.