Skógræktarfélag Íslands hélt 78. aðalfund sinn í safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli í Garðabæ dagana 23. – 25. ágúst 2013. Skógræktarfélag Garðabæjar var gestgjafi fundarins. Á annað hundrað fulltrúar, alls staðar af landinu, sóttu fundinn, og tókst hann vel.
Fundurinn hófst á föstudagsmorgun með ávörpum Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, Erlu Biljar Bjarnardóttur, formanns Skógræktarfélags Garðabæjar, Gunnars Einarssonar, bæjarstjóra Garðabæjar og Jóns Loftssonar skógræktarstjóra. Einnig hélt Hulda Hauksdóttir, upplýsingafulltrúi Garðabæjar, stutt erindi um bæinn.
Ávarp Magnúsar Gunnarssonar (pdf)
Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf fram að hádegi. Eftir hádegisverð var farið í nefndastörf og svo í vettvangsferð er þeim var lokið. Var byrjað á að heimsækja Náttúrufræðistofnun Íslands, þar sem Jón Gunnar Ottósson forstjóri, hélt stutta kynningu á stofnuninni, en því næst var ekið sem leið lá að Grænagarði í Garðaholti, sem er fallegur skógarreitur sem hjónin Sigurður Þorkelsson og Kristín Gestsdóttir ræktuðu upp. Sagði Hólmfríður Sigurðardóttir, dóttir þeirra hjóna, frá reitnum. Því næst var haldið í Vífilsstaðahlíð, þar sem Skógræktarfélag Reykjavíkur bauð upp á hressingu og undirritaður var þjónustusamningur milli Garðabæjar og Skógræktarfélags Reykjavíkur um umsjón með Garðabæjarhluta Heiðmerkur. Voru það Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Þröstur Ólafsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur, sem gerðu það.
Á laugardagsmorgun hófst dagskrá á fræðsluerindum. Björn Jónsson, framkvæmdastjóri Suðurlandsskóga, fjallaði um eldvarnir á skógræktarsvæðum, Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands, sagði frá hugmyndum um skipulag skógræktar á Úlfljótsvatni, Þráinn Hauksson fjallaði um útivistar-og skógræktarhluta svæðisskiplags höfuðborgarsvæðisins og Gústaf Jarl Viðarsson sagði frá skógrækt í aðalskipulagi. Einnig sagði Erla Bil Bjarnardóttir stuttlega frá skógræktar- og útivistarsvæðum í Garðabæ. Því næst var sýnd ný stuttmynd eftir Gísla Gestsson kvikmyndagerðarmann um upphaf Landgræðsluskóga.
Erindi Björn B. Jónsson (pdf)
Erindi Brynjólfur Jónsson (pdf)
Erindi Gústaf Jarl Viðarsson (pdf)
Erindi Þráinn Hauksson (pdf)
Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð. Fyrst var ekið að Smalaholti, þar sem frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, gróðursetti 20 milljónustu Landgræðsluskógaplöntuna, en fyrsta plantan í verkefninu var einmitt gróðursett í Smalaholti, af Vigdísi, árið 1990. Frá Smalaholti var svo gengið yfir í Sandahlíð, þar sem Skógræktarfélag Garðabæjar bauð upp á hressingu og ljúfa tóna hornleikara í skóginum.
Síðast á dagskránni á laugardaginn var hátíðarkvöldverður og kvöldvaka í umsjón gestgjafanna, undir styrkri stjórn Guðna Ágústssonar. Flutti Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, þar ávarp. Einnig voru fjórir aðilar heiðraðir fyrir störf sín í þágu skógræktar og voru það Barbara Stanzeit, Erla Bil Bjarnardóttir, Sigurður Björnsson og Sigurður Þorkelsson. Að auki voru þeim félögum sem áttu tugaafmæli á árinu færðar árnaðaróskir Skógræktarfélags Íslands, en það voru Skógræktarfélag Skagfirðinga (80 ára), Skógræktarfélag Bolungarvíkur (50 ára), Skógræktarfélagið Landbót (20 ára), Skógræktarfélag Rangæinga (70 ára), Skógræktarfélag Skagfirðinga (80 ára) og Skógræktarfélag S-Þingeyinga (70 ára). Tóku Dagur Jóhannesson, Skógræktarfélagi S-Þingeyinga og Jón Ragnar Örlygsson, formaður Skógræktarfélags Rangæinga, við skjali og myndarlegri elriplöntu af því tilefni fyrir hönd síns félags, en fulltrúar frá öðrum afmælisfélögum áttu ekki heimangengt. Deginum lauk svo með balli.
Á sunnudeginum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikninga, tillagna og kosning stjórnar.
Umfjöllun um aðalfundinn í Skógræktarritinu, 2. tbl. 2013 (pdf)
Fundargögn:
DAGSKRÁ (pdf)
STARFSSKÝRSLA SKÓGRÆKTARFÉLAGS ÍSLANDS 2012-2013 (pdf)
SKÝRSLA LANDGRÆÐSLUSJÓÐS (pdf)
Nýlegar athugasemdir