Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

október 2012

Jólaskógurinn í Brynjudal 2012– byrjað að bóka!

Með Skógargöngur

Eins og undanfarin ár tekur Skógræktarfélag Íslands á móti skipulögðum hópum sem efna til fjölskylduferða í jólatrjáaskóginn í Brynjudal. Í flestum tilvikum er um að ræða fyrirtæki eða starfsmannafélög þeirra, sem mörg hver koma á hverju ári og er heimsókn í jólaskóginn orðinn ómissandi þáttur í jólahaldinu hjá mörgum.

Byrjað er að taka niður bókanir fyrir jólin í ár, en tekið verður á móti hópum helgarnar 1.-2., 8.-9. og 15.-16. desember og laugardaginn 22. desember. Athugið að hér gildir fyrstur kemur – fyrstur fær.  Nú þegar eru nokkrir tímar fullbókaðir, þannig að það er betra að bóka dag og tíma fyrr frekar en síðar til að vera viss um að fá tíma sem hentar.

Til að bóka heimsókn eða fá nánari upplýsingar hafið samband við Skógræktarfélag Íslands  í síma 551-8150 eða á netfangið skog (hjá) skog.is. Einnig má lesa um skóginn á heimasíðunni (hér).

Opið hús skógræktarfélaganna: Fræðsluferð til Skotlands

Með Fræðsla

Opið hús skógræktarfélaganna að hausti verður fimmtudagskvöldið 18. október  og hefst kl. 20:00, í fundarsal á jarðhæð Arion-banka, Borgartúni 19. Gengið er inn um aðaldyr að austanverðu og er salurinn svo á vinstri hönd.   Sagt verður í máli og myndum frá skógarferð til Skotlands, sem Skógræktarfélag Íslands stóð fyrir haustið 2011.  Ferðasagan verður rakin og fjallað um skóg- og trjárækt í Skotlandi. Aðal skipuleggjandi ferðarinnar, skógfræðingurinn og Íslandsvinurinn Alexander Robertson, kemur til landsins deginum áður og eigum við von á því að hann mæti.

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

Skógræktarfélag Kópavogs: Fræðslufundur um ræktun trjáa og runna

Með Skógargöngur

Skógræktarfélag Kópavogs efnir til fræðsluerindis í Menntaskólanum í Kópavogi þriðjudaginn 16. október kl. 19:30.

Kristinn H. Þorsteinsson garðyrkjufræðingur flytur erindi um ræktun trjáa og runna.  Erindið nefnir hann “Rót vandans”.

Í erindi sínu mun Kristinn meðal annars fjalla um nokkra lykilþætti í ræktun, til að mynda jarðveg og jarðvegsgerð og þær kröfur sem plöntur gera til jarðvegs. Þá verður kennt hvernig á að bera sig að við upptöku trjágróðurs til flutnings, gróðursetningar og áburðargjöf.

Gengið er inn í Menntaskóla Kópavogs frá Digranesvegi um súlnainngang í vesturenda. Salurinn er á 3. hæð og er lyfta við inngang.

Kaffiveitingar, inngangseyrir 500 kr.

Allir velkomnir.

Kvöldganga með Krabbameinsfélagi Hafnarfjarðar og Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar

Með Skógargöngur

Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar standa fyrir skógargöngu þriðjudaginn 16. október og hefst hún kl. 20. Safnast verður saman við Gróðrarstöðina Þöll við Kaldársselsveg og þaðan verður gengið um skógarsvæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.

Við upphaf göngunnar flytur formaður Krabbameinsfélags Hafnarfjarðar, Anna Borg, stutt ávarp. Að því loknu mun Steinar Björgvinsson, skógfræðingur, leiða hópinn um skógarstíga með tilheyrandi fróðleik ásamt Jóhanni Guðna Reynissyni sem á völdum stöðum mun lesa viðeigandi ljóðamál þar til komið er í minningarlund hjónanna Else og Hjálmars R. Bárðarsonar. Þar mun Jónatan Garðarsson flytja stutt erindi um ævi og störf Hjálmars.

Gert er ráð fyrir að skógargangan taki um eina klukkustund og að henni lokinni verður boðið upp á súkkulaði og meðlæti í húsakynnum Þallar.

Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar, hvetja sem flesta til að taka þátt í kvöldgöngu um skóginn. Göngufólk er beðið að taka með sér ljósfæri þar sem skuggsýnt er orðið.

Haustganga um Hafnarfjörð

Með Skógargöngur

Laugardaginn 6. október stendur Skógræktarfélag Hafnarfjarðar fyrir göngu um bæinn.  Hist verður í Hellisgerði  kl. 10:00 og skoðuð trén í Gerðinu, en síðan rölt um bæinn og hugað að gróðri í nærliggjandi hverfum. Nokkur hávaxin tré verða hæðarmæld.

Leiðsögumenn verða starfsmenn Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Gangan tekur um tvær klukkustundir.

Allir velkomnir!

Nánari upplýsingar fást í síma félagsins: 555-6455.