Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

ágúst 2017

Aðalfundur 2017

Með Aðalfundir

82. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn í Stórutjarnaskóla dagana 25. – 27. ágúst 2017. Skógræktarfélag S-Þingeyinga var gestgjafi fundarins. Á annað hundrað fulltrúar, víðs vegar af landinu, sóttu fundinn, sem var vel heppnaður.

Fundurinn hófst á föstudagsmorgni með ávörpum Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, Agnesar Þórunnar Guðbergsdóttur, formanns Skógræktarfélags S-Þingeyinga, Þrastar Eysteinssonar skógræktarstjóra og Dagbjartar Jónsdóttur, sveitarstjóra Þingeyjarsveitar.

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf fram að hádegi – skýrslur stjórna Skógræktarfélags Íslands og Landgræðslusjóðs, kynning reikninga félagsins, fyrirspurnir og skipun í nefndir. Einnig hélt Dagbjört Jónsdóttir stutta kynningu á Þingeyjarsveit.

Eftir hádegi var svo haldið í vettvangsferð. Byrjað var á að aka upp Reykjadal og horft til skóga þar, en þaðan var haldið til Húsavíkur, þar sem Skrúðgarðurinn á Húsavík var heimsóttur og þegin hressing í boði Norðurþings. Þaðan var svo haldið í Fossselsskóg, þar sem Skógræktarfélag S-Þingeyinga stóð fyrir hátíðarsamkomu.

Dagskrá laugardagsins hófst á nefndastörfum. Að þeim loknum tóku við fræðsluerindi. Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri sagði frá sögu uppgræðslu á Hólasandi,Daði Lange Friðriksson, Landgræðslu ríkisins, sagði frá helstu framkvæmdum á Hólasandi, Gunnhildur Ingólfsdóttir sagði frá gróðursetningu með sérstakri gróðursetningavél og sýndi myndskeið af henni í notkun, Valgerður Jónsdóttir frá Skógræktinni sagði frá frærækt á Vöglum og að lokum fjallaði Arnór Snorrason, Skógræktinni, um ýmsar niðurstöður úr úttektum íslenskrar skógarúttektar á Mógilsá á útbreiðslu og vexti náttúrulegra birkiskóga.

Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð í Vaglaskóg. Þar tóku Rúnar Ísleifsson skógarvörður og Valgerður Jónsdóttir á móti fundargestum. Fengu gestirnir að skoða Fræhöllina áður en haldið í stutta gönguferð um skóginn og endað á veislu í skóginum, þar sem meðal annars var boðið upp á ketilkaffi og eldbakaðar lummur.

Dagskrá laugardags lauk svo á hátíðarkvöldverði og kvöldvöku í umsjón gestgjafanna, undir stjórn Arnórs Benonýssonar. Fimm félagar í Skógræktarfélagi S-Þingeyinga voru heiðraðir fyrir störf í þágu skógræktar, þau Atli Vigfússon, Álfhildur Jónsdóttir, Dagur Jóhannesson, Indriði Ketilsson og Ólafur Eggertsson.

Á sunnudeginum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikninga, ályktana og kosning stjórnar. Laufey B. Hannesdóttir, sem verið hafði varamaður, kom ný inn í stjórn félagsins, í stað Sigríðar Júlíu Brynleifsdóttur, sem ekki gaf kost á sér til áframhaldandi setu. Magnús Gunnarsson gekk úr stjórn og hætti sem formaður Skógræktarfélags Íslands. Í hans stað var Jónatan Garðarsson kosinn. Í varastjórn voru kosin Kristinn H. Þorsteinsson, Valgerður Auðunsdóttir og Jens B. Baldursson.

Samþykktar ályktanir aðalfundar 2017 (.pdf)

Fundargögn:

DAGSKRÁ (.pdf)

Starfsskýrsla Skógræktarfélags Íslands 2016-2017 (.pdf)

Starfsskýrsla Landgræðslusjóðs (.pdf)

Ársreikningur 2016 – Skógræktarsjóður Húnavatnssýslu (.pdf)

Ársreikningur 2016 – Yrkjusjóður (.pdf)

Skógardagur á 50 ára afmæli Mógilsár

Með Ýmislegt

Hálfrar aldar vísindastarfi á Rannsóknastöð skógræktar Mógilsá verður fagnað í skóginum við stöðina sunnudaginn 20. ágúst. Haldinn verður skógardagur að skógarmanna sið og gestir fá að kynnast þeim spennandi verkefnum sem starfsfólk stöðvarinnar vinnur að.

Lögð verður áhersla á starfið á Mógilsá og starfsfólk kynnir verk sín og verkefni. Sýndar verða trjámælingar, pöddur, klipping stiklinga, efni um kolefnisbindingu og margt fleira. Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktarinnar, sýnir réttu handbrögðin við tálgun og fólk fær að spreyta sig með hnífinn. Bakaðar verða lummur og hitað ketilkaffi með meiru eins og skylt er á skógardegi. Skógrækt er ekki bara ræktun heldur líka nytjar og því er líka við hæfi að kljúfa við og saga, jafnvel að fara í axarkast og annað sem skógarmönnum kann að detta í hug. Í tilefni hálfrar aldar afmælisins verða líka gróðursettar 50 eikur.

Allt áhugafólk um skógrækt, skógarnytjar, skógarmenningu og skógarvísindi er boðið velkomið á afmælishátíðina milli klukkan 14 og 17 sunnudaginn 20. ágúst.

Skógardagur Norðurlands

Með Ýmislegt

Skógardagur Norðurlands verður haldinn laugardaginn 19. ágúst kl. 13-16 í Kjarnaskógi, í tilefni 70 ára afmælis Kjarnaskógar. Nýtt útivistar- og grillsvæðið á og við Birkivöll verður formlega tekið í notkun. Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri ávarpar afmælisbarnið og skrifað verður undir samning um nýjan Yndisgarð sem fyrirhugað er að koma upp í skóginum með úrvali skrautrunnategunda.

Fræðsla verður um Yndisgarðinn í „fundarsal“ sem útbúinn hefur verið undir greinum stórra grenitrjáa í skóginum. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur sýnir ýmsar sveppategundir sem lifa í skóginum. Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktarinnar, kennir réttu handbrögðin við tálgun og fólk fær að prófa að tálga töfrasprota og fleira. Skátar kynna hátíð sem fer fram á Hömrum um kvöldið og svo verður auðvitað ketilkaffi, lummur, popp, svaladrykkir, sveppasúpa, ratleikur, fræðsluganga um Birkivöll og nágrenni ásamt fleiru. 

Að Skógardegi Norðurlands standa Skógræktarfélag Eyfirðinga, Skógræktin, Félag skógarbænda á Norðurlandi, Sólskógar og Akureyrarbær.

Kynningarspjald (pdf)