Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

júní 2023

Garðyrkjuskólinn á Reykjum – áhugaverð námskeið

Með Fréttir

Garðyrkjuskólinn á Reykjum er með tvö námskeið nú í september, sem áhugaverð eru fyrir ræktunarfólk.

Annars vegar er um námskeið að ræða er heitir Áhættumat trjáa. Með hlýnandi veðri og hækkandi trjágróðri í þéttbýli er orðið mikilvægt að geta lagt mat á ástand trjáa og möguleg hættumerki. Námskeiðið er bæði bóklegt og verklegt.

Hins vegar er námskeið er heitir Í upphafi skyldi endinn skoða og er í því farið yfir helstu þætti sem mikilvægt er að horfa til frá byrjun þegar farið er í landgræðslu og/eða skógrækt, til að tryggja árangur til framtíðar.

Námskeið: Grænni skógar

Með Fréttir

Grænni skógar I er námskeiðaröð sem ætluð er skógræktendum og öðrum skógareigendum sem vilja auka við þekkingu sína og árangur í skógrækt.

Námskeiðaröðin tekur fimm annir og þátttakendur taka alls 15 námskeið á þeim tíma eða að jafnaði 3 á hverri önn. Fyrsta námskeiðið verður haldið í Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi dagana 22. og 23. september 2023.

Hvert námskeið er skipulagt þannig að kennt er á föstudegi kl. 16-19 og laugardag kl. 9-16.  Námskeiðin eru byggð upp sem blanda af fyrirlestrum, verklegum æfingum og vettvangs- heimsóknum. Að auki verður farið í námsferð innanlands og verður hún kynnt sérstaklega.

Nánari upplýsingar veitir Björgvin Örn Eggertsson, verkefnisstjóri Grænni skóga, í síma 616 0828 eða með tölvupósti á netfangið boe@fsu.is.

Ljósmyndasamkeppni Líf í lundi

Með Fréttir

Í tengslum við Líf í lundi er boðað til ljósmyndasamkeppni. Taktu þín bestu mynd af atburðum á Líf í lundi eða bara í morgungöngunni í skóginum og merktu (taggaðu) Líf í lundi á Instagram eða Facebook með myllumerkinu #lifilundi.

Senda má inn myndir teknar dagana 23.-26. Júní. Dómnefnd mun velja bestu myndirnar og vera í sambandi við ljósmyndara. Myndirnar verða svo settar inn á Facebook-síðu Lífs í lundi og opnað fyrir atkvæðagreiðslu. Sú mynd er hlýtur flest „Like“ eða viðbrögð vinnur. Verðlaun eru veitt fyrir þrjú efstu sætin.

Spennandi verðlaun í boði!

Nánari upplýsingar um viðburði Líf í lundi má finna á Skógargátt vefsíðunni og Facebook síðu Líf í lundi.

Líf í lundi 2023

Með Fréttir

Líf í lundi er útivistar- og fjölskyldudagur í skógum landsins í kringum Jónsmessuna og verður hann nú haldinn í sjötta sinn. Er markmið hans að fá fólk til að heimsækja skóga landsins, stunda hreyfing, samveru og upplifa skóga og náttúru. Flestir viðburðir eru á laugardeginum 24. júní, en viðburðir eru í gangi frá föstudegi til mánudags.

Nánari upplýsingar um dagskrá má finna á Skógargátt vefsíðunni  og Facebook síðu Líf í lundi.

Fyrra tölublað Skógræktarritsins 2023 er komið út

Með Fréttir

Fyrra tölublað Skógræktarritsins 2023 er komið út. Að venju er að finna í ritinu greinar um hinar margvíslegu hliðar skóga og skógræktar. Að þessu sinni eru í ritinu meðal annars greinar um aldarfriðun Þórsmerkur- og Goðalandsskóga, evrópuask, Hekluskóga, könnun á gæðum viðar, nýja bók um skógartengd samskipti Noregs og Íslands, skógarreit í Úlfarsárdal og birki hér á landi.

Kápu ritsins prýðir myndin „Innri friður“ eftir Ernu Kristjánsdóttur.

Skógræktarritið (áður Ársrit Skógræktarfélags Íslands) er eina tímaritið um skógrækt á Íslandi og aðalvettvangur skrifa íslenskra skógfræðinga og annarra sem áhuga hafa á hinum ýmsu hliðum skógræktar. Efni ritsins er því mjög fjölbreytt og víðtækt.

Áskriftartilboð – nýir áskrifendur fá tvö hefti að gjöf! Sjá nánar: https://www.skog.is/skograektarritid/

 

Aðalfundur 2023

Með Aðalfundir

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2023 var haldinn á Patreksfirði dagana 1.-3. september 2023 og voru Skógræktarfélög Patreksfjarðar, Bíldudals og Tálknafjarðar gestgjafar fundarins. Var þetta 88. aðalfundur félagsins.

Góð mæting var á fundinn, en um 150 þátttakendur víðs vegar af landinu mættu til fundar. Fundurinn hófst eins og venja er á föstudagsmorgni með ávörpum. Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, setti fundinn. Því næst tók til máls Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Að ávarpi hans lokinu færði Jónatan honum og Tønnes Svanes, sendifulltrúa Norska sendiráðsins á Íslandi fyrstu eintök af nýútkominni bók, gefinni út af Skógræktarfélagi Íslands og Norska skógræktarfélaginu. Jónatan hélt að því loknu ávarp. Næst upp í pontu var Nanna Sjöfn Pétursdóttir, formaður Skógræktarfélags Bíldudals og bauð hún fundargesti velkomna. Tønnes Svanes var næstur á mælendaskrá og eftir honum hélt ávarp Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar. Síðastur á mælendaskrá var Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri.

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf – kynning á starfsskýrslu Skógræktarfélags Íslands, skýrslu Landgræðslusjóðs, tillagna að ályktunum og skipan í nefndir. Að hádegisverðu loknum var komið að kynningu á gestgjöfunum. Úlfar Thoroddsen kynnti starf Skógræktarfélags Patreksfjarðar, Brynjólfur Gíslason kynnti til leiks skógræktarfélag Tálknafjarðar og Nanna Sjöfn Pétursdóttir Skógræktarfélag Bíldudals. Brynjólfur Jónsson og Óskar Guðmundsson kynntu svo bókina sem forsetanum hafði verið færð.

Að kynningum loknum var komið að vettvangsferð, sem var um skóglendi Tálknafjarðar. Byrjað var á göngu eftir Brynjólfsstíg í skógin ofan þorpsins og því næst haldið til Kvígindisfells, þar sem Lilja Magnúsdóttir leiddi gönguferð um skóginn og var endað á hressingu í útihúsunum á Kvígindisfelli.

Dagskrá laugardags hófst á nefndastörfum, en að þeim var komið að fræðsluerindum. Lovísa Ásbjörnsdóttir flutti erindi um plöntusteingervinga í Surtarbrandsgili, Björn Traustason fór því næst yfir framgang birkis á Vestfjörðum, Hreinn Óskarsson sagði frá skógræktarreit í Vestur-Botni og Lilja Magnúsdóttir sagði frá merkistrjám í Barðastrandarsýslu. Að lokum kynnti svo Eiður B. Thoroddsen vettvangsferð dagsins.Voru þrír staðir heimsóttir í henni – skógarreitur í Skápadal, Sauðlauksdalur og safnið á Hnjóti. Dagskrá laugardagsins lauk svo með hátíðarkvöldverði og dagskrá í boði gestgjafanna. Voru fimm félagar heiðraðir fyrir störf sín í þágu skógræktar, þau. Eiður B. Thoroddsen, Helga Gísladóttir, Brynjólfur Gíslason, Nannar Sjöfn Pétursdóttir og Finnbjörn Bjarnason. Einnig var Magnús Gunnarsson gerður að heiðursfélaga Skógræktarfélags Íslands. Auk þess var þeim félögum sem áttu tugaafmæli á árinu og voru á staðnu, færðar árnaðaróski.

Á sunnudeginum tóku svo við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikninga, ályktana og kosning stjórnar. Engar breytingar urðu á stjórn. Í varastjórn voru kosin Kristinn H. Þorsteinsson, Valgerður Auðunsdóttir og Björn Traustason.

 

Fundargögn:

Dagskrá (pdf)

Starfsskýrsla Skógræktarfélags Íslands 2022-2023 (pdf)

Skýrsla Landgræðslusjóðs (pdf)

Söngbók (pdf)

 

Reikningar:
Skógræktarfélag Íslands ((pdf)

Kolviður (pdf)

Landgræðslusjóður (pdf)

Skógræktarsjóður Húnavatnssýslu (pdf)

Úlfljótsvatns sf. (pdf)

Yrkja (pdf)