Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

september 2018

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar: Sjálfboðaliða gróðursetningardagur

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar er með sjálfboðaliða gróðursetningadag laugardaginn 15. september. Byrjað verður kl. 10:00 og mæting er á bílastæði við sparkvellina skammt fyrir vestan Hvaleyrarvatn. Skógræktarfélagið mætir með plöntur og verkfæri og áhugasamir mæta með góða skapið og vinnugleðina!

Gróðursett verður í brekkurnar við Hamranes, þar sem tippurinn var áður (gömlu haugarnir).

Að gróðursetningu lokinni býður Skógræktarfélagið upp á veitingar í Þöll.

Nánari upplýsingar í síma: 555-6455 eða 894-1268.

Nýr samningur: IKEA á Íslandi styrkir útnefningu Tré ársins

Með Skógræktarverkefni

Þriðjudaginn 11. september var undirritaður samningur IKEA á Íslandi og Skógræktarfélags Íslands um stuðning IKEA við útnefningu Trés ársins. Voru það Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Guðný Camilla Aradóttir, umhverfisfulltrúi IKEA á Íslandi, sem undirrituðu samninginn, sem gildir til tveggja ára.

Er stuðningur IKEA við útnefninguna í samræmi við umhverfisstefnu fyrirtækisins, en IKEA hefur lagt mikla vinnu í að hafa umhverfisvernd til hliðsjónar í starfsemi sinni.

Skógræktarfélag Íslands útnefnir á hverju ári eitt tiltekið tré sem Tré ársins og er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land.

ta-undirskrift

Guðný Camilla Aradóttir, umhverfisfulltrúi IKEA á Íslandi og Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, við undirskrift samningsins (Mynd: BJ).


Aðalfundur 2019

Með Fréttir

Aðalfundur 2019

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands árið 2019 verður haldinn í Kópavogi dagana 30. ágúst til 1. september. Skógræktarfélag Kópavogs er gestgjafi fundarins.

Dagskrá fundar verður með hefðbundnu sniði. Fundur hefst með afhendingu fundargagna kl. 9:30 að morgni föstudagsins 30. ágúst og lýkur á hádegi sunnudaginn 1. september. Nánari dagskrá kemur síðar.

Áhugaverður fyrirlesari frá Kanada: harðgerðar tegundir og kynbætur

Með Fræðsla

Rick Durand heldur fyrirlestur um reynslu sína og aðferðir þriðjudaginn 4. september n.k. í fundarsal Garðyrkjufélags Íslands. Fyrirlesturinn hefst kl 19:30 og lýkur kl 22:00. Aðgangseyrir að fyrirlestri og fyrir veitingar er kr. 2.000.

Rick Durand er þróunarstjóri Bylands Nurseries í Kelowna, Bresku-Kólumbíu. Nokkrir félagar úr Garðyrkjufélaginu og skógræktarfélögunum heimsóttu hann í skógræktarferðinni til vesturhluta Kanada í fyrrahaust og hrifust af starfsreynslu hans og þekkingu.

Rick Durand er skógfræðingur að mennt og hefur einstaka reynslu af leitinni að harðgerum tegundum og kynbætur á þeim til ræktunar á harðbýlustu svæðum í sléttuhéruðum Kanada og Bandaríkjanna. Hann hefur rekið eigin ræktunarstöð (Prairie Shade Nursery/Prairie Shade Consulting Services), unnið í fjölda ára sem þróunarstjóri fyrir Jeffries Nurseries og nú Bylands Nurseries, sem einmitt sérhæfir sig í ræktun fyrir þessi svæði. Hann hefur skráð og kynnt í eigin nafni fjölda yrkja af trjám, runnum og ávaxtatrjám sem ætluð eru til ræktunar við hin erfiðustu veðurfarsskilyrði. Hann hefur jafnframt starfað sem samhæfingarstjóri þróunarstarfs fyrir ræktunarstöðvar í Kanada, m.a. í tengslum við skipulagsbreytingar þegar opinber rekstur tilraunastöðva var lagður af fyrir nokkrum árum. Þar koma kanadískar rósir m.a. við sögu!

Efnislega skiptist fyrirlesturinn í tvo hluta með hléi fyrir léttar veitingar og spjall. Fyrrihlutinn fjallar um samanburð á umhverfisaðstæðum í sléttuhéruðum Kanada og á Íslandi og reynslu hans af skipulagi kynbótastarfs og tilrauna með nýjan efnivið fyrir erfið ræktunarskilyrði. Í seinni hluta fyrirlestursins mun hann lýsa fjölda yrkja af trjátegundum, blómstrandi runnum, ávaxtatrjám, rósum og fjölæringum sem ræktuð hafa verið fyrir köldustu héruð Vestur-Kanada. Sú takmarkaða reynsla sem við Íslendingar höfum nú þegar fengið af kanadískum yrkjum vekur tilhlökkun til þessa fyrirlestrar ekki síður en kynnin af fyrirlesaranum sjálfum!

Skráning er í gegnum netfangið gardyrkjufelag@gardurinn.is

Fyrirlesturinn  er samstarfsverkefni: Garðyrkjufélag Íslands, Skógræktarfélag Íslands og Trjáræktarklúbbsins.

Tré ársins 2018 útnefnt

Með Skógræktarverkefni

Tré ársins 2018 var formlega útnefnt við hátíðlega athöfn sunnudaginn 2. september. Er Tré ársins að þessu sinni veglegur vesturbæjarvíðir (Salix smithiana ‘Vesturbæjarvíðir’) að Ytri-Skógum undir Eyjafjöllum.

Sverrir Magnússon stýrði athöfninni, sem hófst með ávarpi Jónatans Garðarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, sem afhenti eigenda trésins, Margréti Bárðardóttur, viðurkenningaskjal af þessu tilefni. Margrét flutti því næst stutta tölu og því næst var haldið til að mæla tréð. Reyndist það 11,1 m á hæð, ummál stofns rúmir 2,4 m og mjög krónumikið, en alls þekur króna þess rúma 225 fermetra.

Inn á milli atriða flutti svo hljómsveit Valborgar Ólafsdóttur frumsamin lög. Hana skipa Valborg Ólafsdóttir, söngur og gítar, Orri Guðmundsson á trommum, Baldvin Freyr Þorsteinsson á gítar og Árni Guðjónsson á bassa og hljómborð. Einnig var boðið upp á hressingu frá Skógakaffi.

Að athöfn lokinni var svo boðið upp á skógargöngu um Völvuskóg undir leiðsögn Einars Gunnarssonar og Sverris Magnússonar.

Er þetta í fyrsta sinn sem vesturbæjarvíðir er útnefndur sem Tré ársins, enda er þetta frekar fágæt tegund nú til dags. Uppruni tegundarinnar hér á landi er nokkuð áhugaverður. Upp úr aldamótunum 1900 flutti Jón Eyvindsson kaupmaður inn stofuplöntur frá Þýskalandi, sem komu í tágakörfum. Ísleifur sonur hans kom til teinungi úr slíkri körfu og gróðursetti í garði heimilisins að Stýrimannastíg 9. Þreifst þessi teinungur vel og fengu nágrannar með tíð og tíma græðlinga af honum til að setja í garðana hjá sér. Dreifðist víðirinn þannig um Vesturbæinn og varð nokkuð algengur þar og dróg nafn sitt af því. Ræktun hans lagðist að mestu af eftir 1940, með auknu framboði trjáplantna til sölu.

Skógræktarfélag Íslands hefur krýnt Tré ársins árlega síðan 1993. Er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land. IKEA á Íslandi er samstarfsaðili Skógræktarfélags Íslands við útnefningu á Tré ársins.

trearsins eftir1

Tré ársins 2018 – glæsilegur vesturbæjarvíðir að Ytri-Skógum (Mynd: RF).

trearsins eftir2

Margrét Bárðardóttir, eigandi trésins og Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, standa undir krónumiklu trénu (Mynd: RF).

Aðalfundur 2018

Með Aðalfundir

Skógræktarfélag Íslands hélt 83. aðalfund sinn á Hellu á Rangárvöllum dagana 31. ágúst til 2. september. Var Skógræktarfélag Rangæinga gestgjafar fundarins að þessu sinni og var vel mætt á hann, en um 160 fulltrúar, víðs vegar af landinu, sóttu fundinn.

Fundurinn hófst á föstudagsmorgni með ávörpum Jónatans Garðarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands og Jóns Ragnars Örlygssonar, formanns Skógræktarfélags Rangæinga. Sigríður Heiðmundsdóttir kynnti því næst Skógræktarfélag Rangæinga fyrir fundargestum. Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri og Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra fluttu því næst ávörp.

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf fram að hádegi – kynning á skýrslu og reikningum Skógræktarfélags Íslands, skýrsla Landgræðslusjóðs, fyrirspurnir, kynning tillagna að ályktunum og skipun í nefndir. Einnig kynnti Hrönn Guðmundsdóttir stuttlega Hekluskóga, en vettvangsferð dagsins lá meðal annars um slóðir Hekluskóga.

Eftir hádegi var haldið í vettvangsferð, um uppsveitir Rangárvalla. Byrjað var á að halda að Hellum í Landssveit þar sem skoðaður var Hellnahellir, lengsti manngerði hellir á Íslandi. Þaðan var ekið áleiðis að Þjófafossi, þar sem skoðuð voru ræktunarsvæði Hekluskóga. Þaðan var ekið fram hjá Næfurholti og endað í Bolholtsskógi, einu ræktunarsvæði Skógræktarfélags Rangæinga, þar sem boðið var upp á gönguferð og fræðslu um skóginn og hressingu (súpu og með því).

Laugardagur hófst á nefndastörfum en að þeim loknum tóku við fræðsluerindi. Björn Steinar Blumenstein vöruhönnuður fjallaði um verkefnið Skógarnytjar, er lýtur að nýtingu íslensks viðar til framleiðslu ýmiskonar varnings, Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra, kynnti sveitarfélagið í máli og myndum, Árni Bragason landgræðslustjóri hélt erindi er hét Landgræðslan, baráttan við sandinn, þar sem farið var yfir uppgræðslustarf á svæðinu, Margrét Grétarsdóttir, Skógræktarfélagi Rangæinga, fjallaði um sögu heimabæjar síns, Klofa í Landsveit, með tilvísun til uppgræðslu og Bjarni Diðrik Sigurðsson fjallaði um skógrækt í samhengi við loftslagsmál, þá sérstaklega kolefnisbindingu með skógrækt.

Eftir hádegi var svo haldið í vettvangsferð. Byrjað var á að skoða tilraunareit með öspum við Gunnarsholt, sem er einn mest rannsakaði skógarreitur landsins, en þaðan var haldið að Heylæk í Fljótshlíð, þar sem Sigurður Haraldsson, eigandi Heylæks, hefur, ásamt fjölskyldu sinni, ræktað upp mikinn og fjölbreyttan skóg. Auk þess að skoða skóginn var boðið upp á hressingu. Þaðan var svo ekið niður á Markarfljótsaura þar sem mikill skógur er að vaxa upp, þökk sé starfi Skógræktarfélags Rangæinga.

Dagskrá laugardags lauk svo með hátíðarkvöldverði og hátíðardagskrá í umsjón Skógræktarfélags Rangæinga. Fjórir félagar í Skógræktarfélagi Rangæinga voru heiðraðir fyrir störf sín í þágu skógræktar, þau Klara Haraldsdóttir, Sigurvina Samúelsdóttir og hjónin Sigurbjörg Elimarsdóttir og Sveinn Sigurjónsson.

Á sunnudeginum voru svo hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikninga og ályktana, en einnig var samþykkt ný stefnumótun fyrir félagið. Að venju var kosið í stjórn. Guðbrandur Brynjúlfsson, Skógræktarfélagi Borgarfjarðar, gekk úr stjórn eftir 15 ára setu og kom í hans stað nýr í aðalstjórn Jens B. Baldursson, Skógræktarfélagi Akraness, en hann sat áður í varastjórn. Í varastjórn voru kosin Kristinn H. Þorsteinsson, Skógræktarfélagi Kópavogs, Valgerður Auðunsdóttir, Skógræktarfélagi Árnesinga og Margrét Grétarsdóttir, Skógræktarfélagi Rangæinga.

Samþykktar ályktanir aðalfundar 2018 (.pdf)

Stefnumótun Skógræktarfélags Íslands (.pdf)

Fundargögn

Starfsskýrsla Skógræktarfélags Íslands 2017-2018 (.pdf)

Ársreikningur 2017 – Kolviður (.pdf)

Ársreikningur 2017 – Skógræktarsjóður Húnavatnssýslu (.pdf)

Ársreikningur 2017 – Úlfljótsvatn sf (.pdf)

Ársreikningur 2017 – Yrkja (.pdf)

Starfsskýrsla og ársreikningur Landgræðslusjóðs (.pdf)

Þátttakendur á aðalfundi (.pdf)

Tré ársins 2018

Með Skógræktarverkefni

Skógræktarfélag Íslands, í samstarfi við IKEA á Íslandi, útnefnir vesturbæjarvíði (Salix smithiana ‘Vesturbæjarvíðir’) að Ytri-Skógum sem Tré ársins 2018, við hátíðlega athöfn sunnudaginn 2. september. Er þetta í fyrsta skipti sem þessi tegund er útnefnd sem Tré ársins.

Allir velkomnir!

Skógræktarfélag Íslands útnefnir árlega Tré ársins. Er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land.


trearsins-fyrir

Tré ársins 2018 (Mynd: EG).