Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

janúar 2013

Ráðstefna: Landsýn, vísindaþing landbúnaðarins

Með Fundir og ráðstefnur

Skógrækt ríkisins, Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskólinn á Hólum, Landgræðsla ríkisins, Matvælarannsóknir Íslands og Veiðimálastofnun standa að ráðstefnunni Landsýn í byrjun mars. Enn er hægt skila inn titlum að erindum sem falla undir efni þessarar ráðstefnu, en hún skiptist í þrjá málstofur: 1) Áhrif loftslagsbreytinga á umhverfi, lífríki og ræktun. Hvað hefur gerst og hvað getur gerst? 2) Ástand og nýting afrétta. 3) Sjálfbær ferðaþjónusta og heimaframleiðsla matvæla.

Frestur til að skila inn titlum er til 25. janúar. Sjá nánar á heimasíðu Skógræktar ríkisins (hér).

Fuglavernd: Garðfuglahelgin er nú um helgina

Með Ýmislegt

Árleg garðfuglahelgi Fuglaverndar verður dagana 25.-28. janúar 2013. Framkvæmd athugunarinnar er einföld. Það eina sem þátttakandi þarf að gera er að fylgjast með garði í klukkutíma á föstudag, laugardag, sunnudag eða mánudag, skrá hjá sér hvaða fuglar koma í garðinn og mesta fjölda af hverri tegund á meðan athugunin stendur yfir. Upplýsingar um framkvæmdina, almennt um garðfugla og fóðrun þeirra er hægt að finna á vefsíðu Fuglaverndar, www.fuglavernd.is.

fuglavernd-gardfuglatalning

Skógarþröstur, stari og gráþröstur (Mynd: Örn Óskarsson).

Skógræktarfélag Kópavogs: Fræðsluerindi um klippingar runna

Með Fræðsla

Skógræktarfélag Kópavogs efnir til fræðsluerindis í Menntaskólanum í Kópavogi mánudaginn 21. janúar kl. 19:30. Kristinn H. Þorsteinsson garðyrkjufræðingur flytur erindi og ætlar að fjalla í máli og myndum um klippingar á runnum, vaxtarlag þeirra og viðbrögð við klippingu. Sérstök áhersla verður lögð á berjarunna og rósir.

Gengið er inn í Menntaskóla Kópavogs frá Digranesvegi um aðalinngang. Salurinn er á 1. hæð. Kaffiveitingar, inngangseyrir 500 kr.

Allir velkomnir.

Fræðsludagskrá vetrarins má nálgast á heimasíðu Skógræktarfélags Kópavogs – www.skogkop.net.

Málþing um gróðurelda

Með Fundir og ráðstefnur

Málþing um gróðurelda verður haldið fimmtudaginn 17. janúar að Hjálmakletti í Borgarbyggð.

Á málþinginu verður lögð áhersla á að ræða og miðla upplýsingum leiðir til að auka viðbúnaðargetu slökkviliða með samstarfi sveitarfélaga og stofnana og skilgreina ábyrgð sveitarfélaga og annarra stjórnvalda.

Fjallað verður um reynsluna af baráttu við gróðurelda, lagt mat á möguleika slökkviliða til að ráða niðurlögum þeirra og rætt um hvaða úrbóta er þörf hvað varðar mönnun slökkviliða, búnað þeirra og fjárhagslega áhættu sveitarfélaga af völdum gróðurelda.

Einnig verður fjallað um aðgerðir til forvarna og áhrif gróðurelda á náttúruna.


Nánar má kynna sér málþingið á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga (hér).

Stefnumörkun um skógrækt afhent ráðherra

Með Ýmislegt

Starfshópur undir formennsku Jóns Loftssonar skógræktarstjóra hefur unnið að gerð stefnumótunar í skógrækt og hefur nú skipað tillögum sínum til Svandísar Svavarsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra. Nefndin, sem var skipuð árið 2006, hefur unnið greinargerð með stefnumarkandi tillögum um áherslur í skógræktarstarfinu sem hún kynnti ráðherra þann 9. janúar.

Í nefndinni sátu fulltrúar Landshlutaverkefna í skógrækt, Landssamtaka skógareigenda og Skógræktarfélags Íslands. Jafnframt voru drög að greinargerð nefndarinnar send í almenna kynningu árið 2010 og bárust þá fjölmargar ábendingar og athugasemdir sem voru til leiðsagnar við endanlega gerð greinargerðarinnar.

Í greinargerðinni er fjallað um ýmsa þætti skógræktar og hvernig skógræktaraðilar hyggjast móta og skipuleggja starf sitt. Nánari upplýsingar eru á heimasíðu Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins (hér).

Skógræktarfélag Reykjavíkur undirritar samstarfssamning um rekstur og þjónustu í Heiðmörk

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Jón Gnarr borgarstjóri, Þröstur Ólafsson, stjórnarformaður Skógræktarfélags Reykjavíkur og Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, skrifuðu undir samstarfssamning þann 3. janúar, um rekstur og þjónustu í Heiðmörk.

Sameiginlegt markmið aðila með samningnum er að standa vörð um neysluvatnsauðlindina í Heiðmörk, efla og bæta útivistarsvæði Reykvíkinga á svæðinu og gera það eftirsóknarverðara til útivistar. Auk vatnsverndar skal sérstök áhersla lögð á að halda við og bæta skóglendi í Heiðmörk, auk fræðslu til almennings, félagasamtaka og skóla.

Aðilar eru sammála um að markmið þeirra fari að þessu leyti saman og séu í samræmi við megintilgang Skógræktarfélags Reykjavíkur, sem er að vinna að skógrækt , trjárækt og landbótum, auk fræðslu fyrir almenning í Reykjavík og víðar og stuðla að bættu samspili og lífsskilyrðum manna, dýra og gróðurs.

Samningurinn er gerður til 10 ára og samkvæmt honum greiða Orkuveita Reykjavíkur og Reykjavíkurborg Skógræktarfélagi Reykjavíkur endurgjald fyrir þá þjónustu sem veitt er og nemur greiðslan til Skógræktarfélagsins fyrir árið 2013 tæplega 40 milljónum króna, þar af greiðir Reykjavíkurborg greiðir tæpar 33 milljónir og Orkuveitan tæplega 7 milljónir.

samstarfssamningur

F.v. Þröstur Ólafsson, stjórnarformaður Skógræktarfélags Reykjavíkur, Jón Gnarr borgarstjóri og Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, undirrita samstarfssamninginn.

Námskeið hjá Landbúnaðarháskóla Íslands

Með Fræðsla

Á næstunni eru ýmis áhugaverð námskeið fyrir ræktunarfólk í boði hjá Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands.

Námskeið um trjáfellingar og grisjun með keðjusög verður haldið nú í lok janúar, sem hentar bæði þeim sem kunna ekkert á keðjusagir sem og þeim sem vilja hafa notað sagir en vilja læra betur á þær. Skráningarfrestur er til 10. janúar og er námskeiðið haldið í Landbúnaðarháskóla Íslands í Reykjum í Ölfusi (Hveragerði).

Námskeið um húsgagnagerð úr skógarefni hentar öllum þeim sem vilja læra að smíða úr því efni sem til fellur við grisjun. Þrjú námskeið verða í boði – í janúar og febrúar á Snæfoksstöðum í Grímsnesi og á Hallormsstað í mars.

Tálgunarnámskeið – Ferskar viðarnytjar verður haldið í Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum í Ölfusi um miðjan mars og hentar það öllum er vilja læra hvernig hægt er að nota ferskan við úr skóginum, garðinum eða sumarbústaðalandinu

 

Upplýsingar um námskeiðin, sem og önnur námskeið sem Landbúnaðarháskólinn stendur fyrir má finna á heimasíðu skólans (hér).

 

Að jafnaði þarf að skrá sig minnst viku fyrir dagsett námskeið!

Ýmis stéttarfélög koma að niðurgreiðslu á námskeiðsgjöldum.