Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

október 2022

Kvöldganga í skógi fimmtudaginn 27. október

Með Fréttir

Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar bjóða til skógargöngu fimmtudaginn 27. október kl. 19:00. Safnast verður saman við Gróðrarstöðina Þöll við Kaldárselsveg og þaðan verður gengið um skógarsvæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Við upphaf göngunnar flytur Magnús Gunnarsson ávarp og að því loknu mun Steinar Björgvinsson skógfræðingur vera með leiðsögn um skóginn.

Gert er ráð fyrir að skógargangan taki um eina klukkustund og að henni lokinni verður boðið upp á heitt súkkulaði og meðlæti í húsakynnum Þallar.

Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hvetja sem flesta til að taka þátt í kvöldgöngu um skóginn.

Göngufólk er beðið að vera vel útbúið og taka með sér ljósfæri þar sem skuggsýnt er orðið.

Nánari upplýsingar gefur Magnús Gunnarsson í síma 665 8910.

2022 European Forest Network

Með Annað

European Forest Network eru óformleg samtök skógræktarfélaga í Evrópu og er megin áhersla þeirra á að skiptast á upplýsingum um skógar- og skógræktartengd málefni. Aðildarlönd skiptast á að halda fund samtakanna en auk formlegra skýrslna sem hvert land flytur á fundinum gefst gott tækifæri til að rækta tengsl við erlenda kollega innan hinna ýmsu hliða skógræktar.

Skógræktarfélag Íslands var gestgjafi fundarins árið 2022 og var fundurinn haldinn dagana 15. – 18. september. Yfirskrift fundarins nú var „Forestry in a changing climate/Áhrif loftslagsbreytinga á skóga og aðlögun að þeim“. Mættu alls fjórtán fulltrúar, frá sex löndum, til landsins og voru það Pólland, Svíþjóð, Austurríki, Króatía, Skotland og Lettland.

Fundurinn hófst með móttökukvöldverði þann 15. september. Daginn eftir var Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá heimsótt, haldið upp í Öskjuhlíð og skoðaður skógurinn þar. Formlegur fundur var svo haldinn í Guðmundarlundi í Kópavogi, þar sem fulltrúar allra landanna héldu erindi og ræddu málin. Laugardaginn 17. september var svo haldið í vettvangsferð, sem byrjaði á heimsókn til Þingvalla, með viðkomu í Vinaskógi. Þaðan var haldið í hádegismat á Úlfljótsvatni, þar sem Skógræktarfélag Íslands er með bækistöð og kynnt starfsemin þar. Að hádegisverði loknum var haldið í heimsókn til Skógræktarfélags Árnesinga að Snæfoksstöðum. Fundi lauk svo sunnudaginn 18. september með umræðu um framtíðar fyrirkomulag fundar og næstu skref innan samtakanna.