Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

ágúst 2014

Starfsmenn bandaríska sendiráðsins gróðursetja í Brynjudal

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Þann 29. ágúst kom hópur frá bandaríska sendiráðinu í heimsókn í skóg Skógræktarfélags Íslands í Brynjudal í Hvalfirði. Var tilgangur ferðarinnar að láta gott af sér leiða og styðja við Skógræktarfélagið með gróðursetningu. Setti hópurinn niður 400 plöntur að þessu sinni. Heimsóknin heppnaðist mjög vel og er fullur hugur til að endurtaka viðburðinn síðar.

Myndir frá heimsókninni má skoða á Facebook-síðu félagsins (hér).

Andlát: Sigurður Blöndal

Með Ýmislegt

Sigurður Blöndal, fyrrverandi skógræktarstjóri, lést á Egilsstöðum í gær, þriðjudaginn 26. ágúst, á nítugasta aldursári. Sigurður var ötull talsmaður skógræktar á Íslandi og studdi við skógræktarfélögin með ráð og dáð. Hann var reglulegur gestur á aðalfundum Skógræktarfélags Íslands í áratugi og skrifaði tugafjöld greina í Skógræktarritið, auk þess að vera ritstjóri þess um tíma. Hann var gerður að heiðursfélaga Skógræktarfélags Íslands árið 1989.

Skógræktarfélag Íslands sendir fjölskyldu og vinum Sigurðar sínar innilegustu samúðarkveðjur, með þökk fyrir áratuga langt og gott samstarf.

sblo

(Mynd: JFG)

Samkoma hjá Skógræktarfélagi Borgarfjarðar

Með Skógargöngur

Miðvikudaginn 20. ágúst kl. 18:00 verður samkoma hjá Skógræktarfélagi Borgarfjarðar í Einkunnum (fyrir ofan Borgarnes).

Kíkt verður eftir sveppum, kveikt bál, gert ketilkaffi og prófuð útieldun, spjallað og fræðst.

Allir sem hafa áhuga á útivist, skógrækt, sveppatínslu og/eða náttúruskoðun eru hvattir til að mæta og eiga skemmtilega stund.


Aðalfundur 2014

Með Aðalfundir

79. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi dagana 15. -17. ágúst 2014. Skógræktarfélag Akraness, í samstarfi við Skógræktarfélag Skilmannahrepps, var gestgjafi fundarins. Á annað hundrað fulltrúar, víðs vegar af landinu, sóttu fundinn, sem var vel heppnaður.

Fundurinn hófst á föstudagsmorgni með ávörpum Magnúsar Gunnarsson, formanns Skógræktarfélags Íslands, Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, Jens B. Baldurssonar, formanns Skógræktarfélags Akraness, Jóns Loftssonar skógræktarstjóra og Ólafs Adolfssonar, formanns bæjarráðs Akraness.

Ávarp Magnúsar Gunnarssonar (pdf)

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf – skýrsla stjórnar Skógræktarfélags Íslands og Landgræðslusjóðs, kynning reikninga félagsins, fyrirspurnir og skipun í nefndir. Einnig hélt Hannibal Hauksson ferðamálafulltrúi stutt erindi um Akranes. Eftir hádegisverð var svo farið í nefndastörf.

Að nefndastörfum loknum hélt Jón Guðmundsson erindi um eplarækt á Akranes, en því næst var farið í vettvangsferð. Byrjað var á skoðunarferð um Akranes, með viðkomu í garði Jóns, en síðan var stefnan tekin á Slögu, skógarreit Skógræktarfélags Akraness í hlíðum Akrafjalls, þar sem farið var í göngu um skóginn. Vettvangsferðin endaði svo í Garðalundi, þar sem boðið var upp á grillaðar pylsur og aðra hressingu.

Dagskrá laugardagsins hófst á fræðsluerindum. Jens B. Baldursson og Bjarni Þóroddsson fjölluðu um skógrækt á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit, Þorsteinn Hannesson, sérfræðingur hjá Elkem, fjallaði um nýtingu viðar í framleiðsluferli Elkem, Þorbergur Hjalti Jónsson fór yfir samstarf Skógræktar ríkisins við Elkem, Halldór Sverrisson sagði frá helstu nýju skaðvöldum í skógi og Else Möller fór yfir hvernig bæta mætti gæði og magn jólatrjáa í ræktun hjá skógræktarfélögunum.

Erindi – Þorsteinn Hannesson (pdf)
Erindi – Þorbergur Hjalti Jónsson (pdf)
Erindi – Halldór Sverrisson (pdf)
Erindi – Else Möller (pdf)

Eftir hádegið var svo haldið í vettvangsferð. Fyrst var garðurinn við bæinn Gröf í Hvalfjarðarsveit skoðaður, en þaðan var haldið í Álfholtsskóg, svæði Skógræktarfélags Skilmannahrepps. Gengið var um skóginn og endað þar á hressingu og ljúfum harmonikkuleik, auk þess sem tvö tré voru hæðarmæld.

Dagskrá laugardags lauk svo á hátíðarkvöldverði og kvöldvöku í umsjón gestgjafanna, undir stjórn Gísla Gíslasonar, en þess má til gamans geta að hann var einnig veislustjóri síðast þegar aðalfundur var haldinn á Akranesi, árið 1992. Á kvöldvökunni voru fjórir aðilar heiðraðir fyrir störf sín í þágu skógræktar og voru það Bjarni O.V. Þóroddsson, Guðjón Guðmundsson, Stefán Teitsson og Þóra Björk Kristinsdóttir. Að auki voru þeim félögum sem áttu tugaafmæli á árinu færðar árnaðaróskir Skógræktarfélags Íslands. Tók Páll Ingþór Kristinsson, formaður Skógræktarfélags A-Húnvetninga (sem átti 70 ára afmæli) við skjali og alaskaepliplöntu af því tilefni, en ekki voru mættir fulltrúar frá öðrum afmælisfélögum á kvöldvökuna. Deginum lauk svo með balli.

Á sunnudeginum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf – afgreiðsla reikninga, ályktana og kosning stjórnar. Magnús Gunnarsson var endurkjörinn formaður Skógræktarfélags Íslands og Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, sem hafði verið varamaður, kom ný inn í stjórn félagsins, í stað Gísla Eiríkssonar, sem gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu. Í varastjórn voru kosin Sigríður Heiðmundsdóttir, Kristinn H. Þorsteinsson og Laufey B. Hannesdóttir.

Umfjöllun um fundinn í Skógræktarritinu, 2. tbl. 2014 (pdf)

Fundargögn:

Dagskrá (pdf)

Starfsskýrsla Skógræktarfélags Íslands 2013-2014 (pdf)

Starfsskýrsla Landgræðslusjóðs (pdf)

rsreikningur 2013- Skógræktarsjóður Húnavatnssýslu (pdf)

Ársreikningur 2013 – Yrkjusjóður (pdf)

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2014 settur

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands árið 2014 var settur í morgun en að þessu sinni er hann haldinn á Akranesi, í boði Skógræktarfélags Akraness, í samstarfi við Skógræktarfélag Skilmannahrepps.

Hófst fundurinn með ávörpum Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, Sigurðar Inga Jóhannssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, Jens B. Baldurssonar, formanns Skógræktarfélags Akraness, Jóns Loftssonar skógræktarstjóra og Ólafs Adolfssonar, formanns bæjarráðs Akraness.  Að ávörpum loknum tók við skýrsla stjórnar og kynning reikninga Skógræktarfélags Íslands og Landgræðslusjóðs. Hannibal Kristjánsson ferðamálafulltrúi sagði svo stuttlega frá Akranesi.

Eftir hádegismat verður svo unnið að tillögum að ályktunum í nefndum, en að því loknu verður Jón Guðmundsson með stutt erindi um eplarækt á Akranesi. Því næst verður haldið í kynnisferð á vegum Skógræktarfélags Akraness um skógarreiti í nágrenninu. Fundurinn heldur svo áfram á laugardag og sunnudag.


adalfundur3

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2014

Með Fundir og ráðstefnur

79. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands verður haldinn dagana 15. – 17. ágúst og fer fundurinn að þessu sinni fram á Akranesi, en Skógræktarfélag Akraness, í samvinnu við Skógræktarfélag Skilmannahrepps, er gestgjafi fundarins.

Fundurinn hefst að morgni föstudagsins 15. ágúst og stendur fram að hádegi á sunnudaginn. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa verða flutt fjölbreytt fræðsluerindi og farið í vettvangsferðir, þar sem skógræktarsvæði við Akranes og í Hvalfjarðarsveit verða skoðuð.

Aðalfundur félagsins er mikilvægur félagslegur vettvangur fyrir skógræktarfélögin, en þar gefst fundargestum kostur á að viðhalda og endurnýja kynni við gamla og nýja félaga innan skógræktarfélaganna.

Upplýsingar um fundinn má finna hér á heimasíðu félagsins, en auk þess verður hægt að fylgjast með gangi fundarins á Facebook-síðu félagsins.

Unglinganámskeið í skógrækt

Með Fræðsla

Skógræktarfélag Íslands og Útilífsmiðstöð skáta að Úlfljótsvatni standa að námskeiði á Úlfljótsvatni dagana 7.-10. ágúst með það að markmiði að kenna ungmennum (13-17 ára) grunnatriði í sögu, framkvæmd og framtíð skógræktar á Íslandi sem erlendis. Námskeiðið sameinar fræðslu um skógrækt við leiki og útiveru. Tálgun, göngutúrar og kvöldvökur eru hluti af eftirminnilegri helgi á Úlfljótsvatni þar sem öll aðstaða er til fyrirmyndar.

Á námskeiðinu verður meðal annars farið yfir tegundagreiningu og helstu not, landval við plöntun, verkfæri og tæki, skógræktaráætlanir, skógarfánu og flóru, skógarvistþjónustu, sögu skógræktar á Íslandi, stöðuna í dag og framtíðar möguleika.

Farið verður reglulega út um skóga og móa til þess að leyfa þátttakendum að upplifa viðfangsefnið í nærmynd, meðal annars með kennslu í plöntun og áætlunargerð.

Að loknu námskeiðinu munu þátttakendur hafa góðan grunn í skógfræði en vonandi einnig hlýjar minningar og vinabönd með jafnöldrum sínum, sem deila sama áhugamáli.

Áhugasamir geta haft samband í síma 551-8150 eða með tölvupósti á netfangið skog@skog.is

Þátttökugjald er kr. 25.500. Innifalið í því eru öll námskeiðsgögn, gisting og fæði á meðan á námskeiðinu stendur og ferð til Úlfljótsvatns.

 

skognamskeid1