Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

október 2013

Afmælishátíð hjá Skógræktarfélagi Borgarfjarðar

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Borgarfjarðar stendur fyrir afmælisathöfn laugardaginn 26. október næst komandi kl. 13, við skóglendi félagsins í Grímsstaðagirðingu. Tilefnið er 75 ára afmælis félagsins í ár og til heiðurs gefendum landsins.

Að lokinni stuttri athöfn verður farið til bæjar og boðið upp á veitingar.

Allir velkomnir!

Til að komast að Grímsstaðagirðingunni er ekið sem leið liggur í gegnum Borgarnes, en á hringtorgi er beygt til vesturs og ekið eftir Snæfellsnesvegi (nr. 54). Eftir um 8 km er komið að afleggjara á hægri hönd sem liggur upp að Grímsstöðum. Eftir um 9 km á Grímsstaðavegi er komið að vegslóð á hægri hönd og liggur hún að skógræktargirðingunni.

grimsstadir

Jólaskógurinn í Brynjudal 2013 – byrjað að bóka

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Eins og undanfarin ár tekur Skógræktarfélag Íslands á móti skipulögðum hópum sem efna til fjölskylduferða í jólatrjáaskóginn í Brynjudal. Í flestum tilvikum er um að ræða fyrirtæki eða starfsmannafélög þeirra, sem mörg hver koma á hverju ári og er heimsókn í jólaskóginn orðinn ómissandi þáttur í jólahaldinu hjá mörgum.

Byrjað er að taka niður bókanir fyrir jólin í ár, en tekið verður á móti hópum helgarnar 30. nóvember-1.desember, 7.-8. desember og 14.-15. desember. Athugið að hér gildir fyrstur kemur – fyrstur fær. Nú þegar eru nokkrir tímar fullbókaðir, þannig að það er betra að bóka dag og tíma fyrr frekar en síðar til að vera viss um að fá tíma sem hentar.

Til að bóka heimsókn eða fá nánari upplýsingar hafið samband við Skógræktarfélag Íslands í síma 551-8150 eða á netfangið skog@skog.is. Einnig má lesa um skóginn á heimasíðunni (hér).

Hæsti hlynur í Hafnarfirði?

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar stóð fyrir göngu um Suðurbæ Hafnarfjarðar laugardaginn 5. október og var þar meðal annars hugað að trjágróðri í görðum bæjarbúa og tré þar mæld. Var meðal annars mældur myndarlegur hlynur (sjá á mynd að neðan) og mældist hann 14,5 m á hæð og er þar með að öllum líkindum hæsti hlynur í Hafnarfirði. Eru einhver önnur tilboð um hæsta hlyninn?

skhf1

Þátttakendur í göngunni skoða trjágróðurinn (Mynd: Sk. Hafnarfjarðar).

skhf2

Steinar Björgvinsson mundar mælitækið (Mynd: Sk. Hafnarfjarðar).

skhf3

Hlynurinn myndarlegi (Mynd: Sk. Hafnarfjarðar).

Kvöldganga í skógi

Með Skógargöngur

Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar bjóða til skógargöngu þriðjudaginn 8. október, kl. 19:30. Safnast verður saman við Gróðrarstöðina Þöll við Kaldársselsveg og þaðan verður gengið um skógarsvæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Við upphaf göngunnar flytur Anna Borg, formaður Krabbameinsfélags Hafnarfjarðar, stutt ávarp og að því loknu mun Steinar Björgvinsson skógfræðingur vera með leiðsögn um skóginn.

Gert er ráð fyrir að skógargangan taki um eina klukkustund og að henni lokinni verður boðið upp á súkkulaði og meðlæti í húsakynnum Þallar. Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hvetja sem flesta til að taka þátt í kvöldgöngu um skóginn.

Göngufólk er beðið að taka með sér ljósfæri þar sem skuggsýnt er orðið.

Nánari upplýsingar gefur Magnús Gunnarsson í síma 665-8910.

 

kvoldganga

Stefnumótun Skógræktarfélags Reykjavíkur

Með Fréttir frá skógræktarfélögum
Undir leiðsögn og verkstjórn Reynis Kristinssonar unnu stjórn og starfsfólk Skógræktarfélags Reykjavíkur á árunum 2011 – 2013 að stefnumótun þeirri sem hér liggur fyrir. Stefnuplagg á að vera viðmiðun stjórnar og starfsfólks í daglegum ákvörðunum. Þar er reynt að meta alla stærstu þætti í starfi félagsins sem varða framtíð félagsins . Við komumst að niðurstöðu um hvernig við viljum sjá þessa og aðra þætti þróast næstu fimm árin eða svo. Auðvitað er það svo að stefnumótun hjá félagi eins og Skógræktarfélagi Reykjavíkur byggir alltaf á nokkurri óvissu, einkum hvað varðar tekjur. Stefnumótunarvinnan tók því sérstaklega á því verkefni að reyna að festa og treysta  tekjustreymið sem mest, því verkefnin eru næg, þeirra þarf ekki að leita. Fyrir hönd félagsins  þakka ég  öllum þeim sem að þessari vinnu komu og vonast til að þessi stefna auðveldi okkur öllum að efla og styrkja Skógræktarfélag Reykjavíkur.
 
Þröstur Ólafsson, formaður 
 
 

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar: Ganga um Suðurbæinn

Með Skógargöngur

Laugardaginn 5. október stendur Skógræktarfélag Hafnarfjarðar fyrir göngu um Suðurbæinn. Hugað verður að trjágróðri í görðum bæjarbúa. Fyrirhugað er að mæla stærstu trén sem verða á vegi göngumanna. Einnig verður skoðað hvaða tegundir garðagróðurs leynast bak við garðveggina. Í fyrra var mælt grenitré við Brekkugötu 12, sem reyndist vera tæpir 21 m á hæð. Er það hæsta tré bæjarins svo vitað sé. Gangan hefst við Suðurbæjarlaug kl. 10:00 og stendur í um tvo tíma. Nánari upplýsingar í síma félagsins: 555-6455 eða 894-1268.