Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

febrúar 2013

Ráðstefna: Samkeppni um land – um landnýtingarstefnu í Rangárþingi

Með Fundir og ráðstefnur

Rótarýklúbbur Rangæinga í samvinnu við Landgræðsluna stendur fyrir málþingi í Gunnarsholti þriðjudaginn 19. febrúar. Á málþinginu verður fjallað um ýmsar spurningar um ráðstöfun á landi. Umræðan kemur því inn á þá miklu auðlind sem land er og áleitnar spurningar um hverjir eiga að ákveða hvernig því er ráðstafað. Greint verður frá þróun landnýtingar á Suðurlandi, orsakir og áhrif. Suðurland er ríkt af landi og nefna má þar bestu akuryrkjusvæði landsins eru í héraðinu. Eiga sveitarfélög að hafa vald til að koma í veg fyrir notkun besta akuryrkjulandsins til annarra nota en akuryrkju sem sumir myndu kalla eignarnám? Á að taka hvaða landgerð sem er undir skógrækt? Hvernig á þá að flokka land eftir landgæðum og framleiðslugetu þess? Fjallað verður einnig um möguleika sem felast í hinum ýmsu landnýtingarformum og hagkvæmni þeirra Hvaða möguleikar felast í nýtingu auðlinda héraðsins, oft á tíðum einstakar náttúruperlur í héraðinu og á heimsvísu. Á að leyfa óhefta nýtingu þeirra svæða fyrir ferðaþjónustu án þess að tryggja verndun þeirra? Bent verður á hvernig nýting og náttúruvernd gætu hugsanlega farið saman. Farið verður yfir úrræði stjórnvalda og úrræðaleysi til að stýra landnotkun.

Allir eru boðnir velkomnir í súpu og brauð í matsal Landgræðslunnar í Gunnarsholti og málþingið verður síðan í Frægarði.

Ráðstefnan er öllum opin og ekkert þátttökugjald. Nánari upplýsingar veitir Sveinn Runólfsson í síma 893-0830 og sveinn@land.is.

Opinn fundur um ný náttúruverndarlög

Með Fundir og ráðstefnur

Landvernd og Stofnun Sæmundar fróða við Háskóla Íslands halda opinn fund um heildarendurskoðun náttúruverndarlöggjafar á Íslandi. Markmiðið með fundinum er að draga fram breytingar á núverandi lögum í heild sinni og ræða hvað er til bóta og hvað megi betur fara.

Frumvarpið verður rætt út frá forsendum breytinga á löggjöfinni að mati nefndar um endurskoðun laganna, kynntar verða helstu breytingar miðað við núverandi lög og athugasemdir lagðar fram af nokkrum hagsmunaaðilum frá náttúruverndar- og útivistarsamtökum. Fundinum lýkur með pallborði og umræðum.

Hvenær: 18. febrúar 2013 kl. 20:00 – 22:00
Staðsetning viðburðar: Norræna húsið

Framsöguerindi:
Forsendur breytinga á lögum um náttúruvernd:
Aagot V. Óskarsdóttir, lögfræðingur og ritstjóri hvítbókar um löggjöf til verndar náttúru Íslands.

Frumvarp til laga um náttúruvernd, helstu atriði og breytingar frá fyrri lögum:
Mörður Árnason, alþingismaður.

Athugasemdir áhugahóps um ferðafrelsi:
Elín Björg Ragnarsdóttir, lögfræðingur.

Athugasemdir Útivistar:
Skúli H. Skúlason, framkvæmdastjóri Útivistar

Athugasemdir Landverndar:
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar

Pallborðsumræður með frummælendum í lokin. Auk þeirra mun Reynir Tómas Geirsson frá Kayakklúbbnum sitja í pallborði.

Fundarstjóri er Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða við Háskóla Íslands

Fræðslufundur: Yndisgróður í skógrækt

Með Fræðsla

Skógræktarfélag Kópavogs efnir til fræðslufundar um Yndisgróður í skógrækt mánudaginn 18. febrúar. Fyrirlesari er Samson B. Harðarson, landslagsarkitekt og lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands

Fjallað verður um Yndisgróðursverkefnið og sagt frá ýmsum harðgerðum trjá- og runnategundum úr tilraunareitum verkefnisins, sem gagnast geta við að skreyta og þétta skógarjarða, skjólbelti og einnig til að auka fjölbreytileka og upplifun í yndisskógrækt. Heimasíða verkefnisins verður einnig kynnt og notkunarmöguleikar sýndir.

Fundartími er kl. 19:30-21:30 og er fundurinn haldinn í Menntaskólanum í Kópavogi, stofu N15. Gengið er inn frá Digranesvegi, austur – inngangur.

Aðgangseyrir: 500 kr

Allir velkomnir!

Námskeið hjá Landbúnaðarháskóla Íslands

Með Fræðsla

Á næstunni eru ýmis áhugaverð námskeið fyrir ræktunarfólk í boði hjá Endurmenntum Landbúnaðarháskóla Íslands.

Námskeið um húsgagnagerð úr skógarefni hentar öllum þeim sem vilja læra að smíða úr því efni sem til fellur við grisjun. Námskeiðið er haldið 22.-23. febrúar á Snæfoksstöðum í Grímsnesi og á Hallormsstað 8.-9. mars.

Námskeið um trjáklippingar er grunnámskeið fyrir allt áhugafólk um garðyrkju og er það haldið í Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum í Ölfusi 2. mars.

Fyrir þá sem hafa áhuga á ræktun ávaxtatrjáa verður forvitnilegt námskeið um ræktun og umhirðu þeirra haldið þann 5. mars á Akureyri og á Reykjum þann 6. mars. Námskeið um ræktun kirsuberjatrjáa verður svo haldið þann 7. mars, á Reykjum.

Tálgunarnámskeið – Ferskar viðarnytjar verður á Reykjum 15.-16. mars og hentar það öllum er vilja læra hvernig hægt er að nota ferskan við úr skóginum, garðinum eða sumarbústaðalandinu.

Fyrir áhugafólk um ræktun berjarunna verður svo haldið námskeiðið Ræktum okkar eigin ber á Reykjum þann 16. mars.

Upplýsingar um námskeiðin, sem og önnur námskeið sem Landbúnaðarháskólinn stendur fyrir má finna á heimasíðu skólans (hér).

Vetrarhátíð í Reykjavík: Skuggaskógur

Með Skógargöngur

Skuggaskógur er ljósainnsetning í Öskjuhlíð sem ítalski arkitektinn Massimo Santanicchia vinnur í samstarfi við Skógræktarfélag Reykjavíkur, Skógræktarfélag Íslands og fleiri. Komið verður upp fjölda ljósa í skóginum sem gerbreyta ásýnd hans og upplifun fólks sem gengur um hann. Boðið verður upp á skipulagðar göngur undir leiðsögn Gústafs Jarls Viðarssonar, skógfræðings hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur, á föstudag, laugardag og sunnudag. Göngurnar taka um 40 mínútur og hefjast kl. 18 og 20 alla dagana. Þátttakendur eru hvattir til að koma með vasaljós með sér. Lagt er að stað frá Nauthólsvegi 106 (við Nauthól).

Nánari upplýsingar um viðburðinn má nálgast á vef Vetrarhátíðar (hér) – undir „Ljósaviðburðir“.

Fagráðstefna skógræktar 2013 – Umhirða ungskóga

Með Fundir og ráðstefnur

Fagráðstefna skógræktar 2013 verður haldin á Hótel Hallormsstað dagana 12.-14. mars næst komandi. Ráðstefnan er haldin árlega og er hefð fyrir því að hún flakki réttsælis um landið. Meginþemað að þessu sinni er umhirða ungskóga og verður um helmingur erinda tengdur því. Fyrst og fremst verður um nýjar rannsóknarniðurstöður og upplýsingar að ræða en dagskráin verður þó að einhverju leyti blönduð.

Uppfærð drög að dagskrá verður að finna á heimasíðu Skógræktar ríkisins innan skamms.

Skráning á ráðstefnuna fer fram til 1. mars í tölvupóst olof@heradsskogar.is eða í síma 471-2184 (starfsmenn Héraðs- og Austurlandsskóga). Við skráningu þarf að taka fram hvaða kosti menn velja í gistingu og munu ráðstefnuhaldarar ganga frá pöntun við hótelhaldara á Hótel Hallormsstað.

Kostnaður:
Ráðstefnugjald: 4.500,-
Gisting og matur (gist í 2ja manna herbergi): 27.900,-
Gisting og matur (gist í eins manns herbergi): 32.100,-

Innifalið í ráðstefnugjaldi eru ráðstefnugögn, skoðunarferð, o.fl.
Innifalið í gjaldi fyrir gistingu og mat er: Gisting í tvær nætur á Hótel Hallormsstað, aðgangur að HótelSpa tveir kvöldverðir, þ.a. einn hátíðarkvöldverður, tveir hádegisverðir, morgunmatur á miðvikudags- og fimmtudagsmorgni og ráðstefnukaffi.