Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

febrúar 2010

Andlát: Guðmundur Örn Árnason

Með Ýmislegt

Guðmundur Örn Árnason skógfræðingur lést í Sunnuhlíð í Kópavogi 18. febrúar. Guðmundur var 79 ára að aldri, fæddur á Bragagötu 18. júní 1930. Guðmundur lætur eftir sig fimm uppkomin börn, en kona hans,  Sólveig Ágústa Runólfsdóttir, lést árið 2005.

Guðmundur lauki námi sem skógfræðingur frá Landbúnaðarháskólanum í Ási árið 1959. Hann starfaði í Skógræktarstöðinni Alaska, við Raunvísindastofnun Háskólans, sem kennari í Þinghólsskóla í Kópavogi og hjá Skógrækt ríkisins. Hann var einn stofnenda Skógræktarfélags Kópavog árið 1969 og var formaður þess til 1972 og framkvæmdastjóri félagsins 1972-1975. Hann var gerður heiðursfélagi Skógræktarfélags Kópavogs árið 2003 og hlaut viðurkenningu Skógræktarfélags Íslands fyrir framlag til skógræktar árið 2004.

Skógræktarfélag Íslands sendir fjölskyldu og vinum Guðmundar innilegar samúðarkveðjur.

gudmundurorn
Guðmundur Örn Árnason (Mynd: EG).

Opið hús skógræktarfélaganna – Nýja-Sjáland

Með Fræðsla

Annað Opna hús ársins 2010 verður þriðjudagskvöldið 23. febrúar og hefst kl. 20:00, í fundarsal á jarðhæð Arion-banka, Borgartúni 19. Gengið er inn um aðaldyr að austanverðu og er salurinn svo á vinstri hönd.

Einar Sæmundsen, upplýsingafulltrúi Þingvallaþjóðgarðs og Herdís Friðriksdóttir skógfræðingur, munu segja í máli og myndum frá ferð sinni til Nýja-Sjálands, en þau ferðuðust í tvo mánuði um landið, þegar Einar var að kynna sér starfsemi þjóðgarða þar.  

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

oh-nz
(Mynd: Herdís Friðriksdóttir).

Garðyrkjufélag Íslands: Fræðslufyrirlestur um ávaxtatré

Með Fræðsla

Þrátt fyrir tiltölulega ungan aldur er garðyrkjumeistarinn Jón Guðmundsson á Akranesi orðinn þjóðsagnapersóna í íslenska garðyrkjuheiminum! Hann er gaurinn sem fær allt til að vaxa og dafna í garði sínum á skjóllitlum fjörukambi við Faxaflóann. Ekkert lætur hann óreynt hvort sem það eru nú salatblöð eða eplatré! Hér mun sannur brautryðjandi ausa úr sjóðum reynslu sinnar og úthluta digrum fróðleiksmolum í þekkingarbúr áheyrenda sinna! Áhugavert, skemmtilegt og fræðandi! – Fræðslukvöld sem enginn má missa af.

Fyrirlesturinn er haldinn fimmtudaginn 18. febrúar í sal Orkuveitu Reykjavíkur, Bæjarhálsi 1, kl. 20:00. Aðgangseyrir á fræðslufundina er 500 kr. fyrir félaga og maka, en 800 kr. fyrir aðra.

Fuglavernd: fræðslufundur 17. febrúar

Með Ýmislegt

Miðvikudaginn 17. febrúar verður fimmti fræðslufundur vetrarins hjá Fuglavernd. Þá mun Sigurður Ægisson flytja í máli og myndum erindi um fugla í íslenskri þjóðtrú. Einnig mun hann koma inn á önnur svið sem tengjast þjóðtrúnni, svo sem alþýðuheiti fugla.

Sigurður er guðfræðingur og þjóðfræðingur að mennt og hefur um margra ára bil safnað heimildum um íslensku varpfuglana í menningarsögunni. Í erindi sínu mun hann fjalla um þetta áhugamál sitt, einkum það sem lýtur að hlut þjóðtrúarinnar og mun hann leiða viðstadda inn í þennan mjög svo athyglisverða heim.

Fundurinn byrjar kl. 20:30 og er haldinn í húsakynnum Arion-banka í Borgartúni 19. Fundurinn er öllum opinn svo lengi sem húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis fyrir félaga í Fuglavernd en aðgangseyrir er 300 krónur fyrir aðra.

Nánar upplýsingar á vefsíðu Fuglaverndar.

Opið hús skógræktarfélaganna – Skógarferð til Noregs

Með Fundir og ráðstefnur

Fyrsta Opna hús ársins 2010 verður þriðjudagskvöldið 9. febrúar og hefst kl. 20:00, í fundarsal á jarðhæð Arion-banka, Borgartúni 19. Gengið er inn um aðaldyr að austanverðu og er salurinn svo á vinstri hönd.

Brynjólfur Jónsson og Johan Holst munu segja í máli og myndum frá skógarferð til Noregs,  sem Skógræktarfélag Íslands stóð fyrir síðasta haust, en hún var farin í tilefni þess að 60 ár voru liðin frá því Skógræktarfélag Íslands stóð fyrst fyrir fræðsluferð á erlenda grundu.

Ferðasagan verður rakin og fjallað um skóga, trjátegundir og skógarnytjar, en Norðmenn eru mikil skógaþjóð. Undanfarin ár hefur Skógræktarfélagið staðið fyrir vinsælum kynnisferðum til annarra landa. Þetta hafa verið fjölsóttar ferðir, þar sem leið ferðalanga liggur oft um óhefðbundnar slóðir, fela í sér mikla náttúruskoðun og góða leiðsögn

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

oh-noregur
Firðir, skógar og hefðbundin hús í Noregi (Mynd: RF).

Skógræktarfélagið Dafnar: Fræðsluerindi

Með Fræðsla

Skógræktarfélagið Dafnar stendur fyrir opnu fræðsluerindi þriðjudaginn 9. febrúar, kl. 20:00. Erindið er haldið í Ársal, 3. hæð í aðalbyggingu Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) að Hvanneyri, Borgarfirði. Titill erindis er „Skógar Vestfjarða“ og mun Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor í skógfræði við LbhÍ halda það.

Nánar um erindið:
Sumarið 2009 skipulögðu nemendur í skógfræði við LbhÍ sérstaka námsferð um Vestfirði þar sem markmiðið var að kynnast sem best náttúru landshlutans, með sérstakri áherslu á náttúruskóga hans og eldri gróðursetta skóga sem finnast þar. Leiðsögumenn í ferðinni voru þau Lilja Magnúsdóttir, Sighvatur J. Þórarinsson og Sæmundur Kr. Þorvaldsson. Leiðangurinn var alls fjögurra daga langur og fór hópurinn vítt og breitt um Vestfirði. Auk nemenda var Bjarna Diðrik sérstaklega boðið í ferðina, enda hafði það komið fram áður að nemendum fannst mjög skorta á þekkingu hans á skógum og skógræktarsögu landshlutans. Það var því gengið frá því að í þessu „námskeiði“ væru átta kennarar en aðeins einn nemandi, þ.e.a.s. Bjarni Diðrik. Fyrirlesturinn er því nemendafyrirlestur prófessorsins!

Erindið er öllum opið.

dafnar-erindi
Myndarlegt evrópulerki á Vestfjörðum.

Andlát: Björn Jónsson

Með Ýmislegt

bjornjonsson1
Björn Jónsson (Mynd: www.mbl.is)

Björn Jónsson, fyrrverandi skólastjóri Hagaskóla, lést á líknardeild Landspítalans á Landakoti 3. febrúar. Björn var 77 ára að aldri, fæddur á Ytra-Skörðugili í Skagafirði þann 3. júlí 1932. Björn lætur eftir sig tvö uppkomin börn, en kona hans, Guðríður Sigríður Magnúsdóttir, lést 2005.

Björn var mikill áhugamaður um skógrækt og stundaði hana á jörðinni Sólheimum í Landbroti um áratugaskeið. Hann hélt til fjölda ára vinsæl og vel sótt námskeið um ræktun áhugamannsins á vegum Skógræktarfélags Íslands og fékk hann viðurkenningu félagsins fyrir framlag til skógræktar árið 2006. Auk þess fékk hann viðurkenningu umhverfisráðuneytisins fyrir störf að umhverfismálum og riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til uppeldismála, menningar og skógræktar.

Eftir Björn liggja fjöldi áhugaverðra greina í Skógræktarritinu – Ársriti Skógræktarfélags Íslands, meðal annars því nýjasta sem kom út núna fyrir jólin.

Skógræktarfélag Íslands sendir fjölskyldu og vinum Björns sínar innilegustu samúðarkveðjur, með þökk fyrir áratuga langt og gott samstarf.

bjornjonsson2
Björn að kenna á námskeiði Skógræktarfélags Íslands árið 2005 (Mynd: JFG).

Ný heimasíða Skógfræðingafélags Íslands

Með Ýmislegt

Heimasíðan er mjög einföld að allri gerð, en það er samt von stjórnar félagsins að hún muni nýtast félagsmönnum og öðrum sem áhuga hafa á málefnum sem varða skógrækt á Íslandi. Það er hverju félagi nauðsynlegt að hafa einhvern miðil til að geta átt stöðug og góð samskipti bæði við félagsmenn sína og aðra sem félagið vill ná til. Skortur á slíkum miðli hefur staðið annars góðu starfi Skógfræðingafélagsins fyrir þrifum.

Síðuna má skoða hér. Ábendingar eða fréttir á síðuna má senda til stjórnar – stjorn@skogfraedingar.is