Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

júní 2011

Heimsókn til Landgræðslu ríkisins

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Þann 22. júní  hélt stjórn Skógræktarfélags Íslands stjórnarfund í Gunnarsholti og kynnti sér starfsemi Landgræðslunnar. Starfsmenn stofnunarinnar, þeir Guðmundur Stefánsson sviðstjóri og Kjartan Már Benediktsson umsjónarmaður tóku á móti stjórnarmönnum og sögðu frá starfseminni.


Á myndinni má sjá stjórnarmenn ásamt starfsmönnum Landgræðslunnar skoða tilraunverkefni þar sem ræktaður er loðvíðir og umfeðmingur ásamt fleiri niturbindandi tegundum sem hjálpa víðinum að komast á legg.

stjornarfundur

Frá vinstri: Guðbrandur Brynjúlfsson, Magnús Gunnarsson, Aðalsteinn Sigurgeirsson, Sigríður Heiðmundsdóttir, Gísli Eiríksson, Kjartan Már Benediktsson, Guðmundur Stefánsson og Páll Ingþór Kristinsson (Mynd: BJ).

Skógardagurinn mikli 2011

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógardagurinn mikli, árleg skógarhátíð Félags skógarbænda á Austurlandi, Barra, Héraðs- og Austurlandsskóga, Skógræktarfélags Austurlands og Skógræktar ríkisins, verður haldinn í Mörkinni í Hallormsstaðaskógi í lok júní.

Dagskrá:
Föstudagur 24. júní
19:00 Landssamtök sauðfjárbænda ásamt sauðfjárbændum á svæðinu bjóða gestum og gangandi að smakka grillað lambaket.

Laugardagur 25. júní – Þessi skemmtilegi dagur!
10:00 Perlu-ganga frá Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað upp í Bjargselsbotna undir stjórn Hjördísar Hilmarsdóttur
12:00 Skógarhlaupið, 14 km um erfiða skógarstíga.
12:30 Skemmtiskokk fjölskyldurnar, 4 km sem allir geta tekið þátt í

Formleg dagskrá hefst í Mörkinni kl. 13:00
– Íslandsmótið í skógarhöggi
– Pjakkur og Petra taka skógardagslagið
– Heilgrillað Héraðsnaut borið fram af skógarbændum
– Skátarnir sjá um skógarþrautir fyrir unga og aldna
– Ingó Veðurguð tekur lagið
– Pylsur í hundraðavís, ketilkaffi og lummur að hætti skógarmanna
– Hinn eini sanni Bjartmar Guðlaugsson tekur lagið
– Verðlaunaafhending í Skógarhlaupinu
– Íslandsmeistarinn í skógarhöggi krýndur
17:00 Allir fara heim saddir og kátir

Skógardagurinn mikli á Facebook!

skogardagurinn

Blóm í bæ – garðyrkju- og blómasýningin 2011

Með Ýmislegt

Garðyrkju- og blómasýningin Blóm í bæ verður haldin í þriðja sinn í Hveragarði dagana 23.-26. júní. Þema sýningarinnar að þessu sinni er „Skógur“, í tilefni af alþjóðaári skóga 2011 og munu skreytingar sýningarinnar því verða í skógarstíl og verður ævintýralegt að skoða þær. Skógræktarfélag Íslands er gestur sýningarinnar í ár.

Nánar má lesa um sýninguna á heimasíðu hennar (hér).

Skógarganga hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar

Með Skógargöngur

\"hfj.jpg\"Þriðja skógarganga sumarsins verður farin fimmtudaginn 3. júlí kl. 20.00.

Safnast verður saman við Vatnsskarðsnámuna við Krýsvuíkurveg og gengið að Stóra-Skógarhvammi.

Þar hófst ræktun 1959 á vegum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Hafnarfjarðarbæjar. Piltar í vinnuskólanum í Krýsuvík plöntuðu þar út tugþúsundum barrtrjáa undir stjórn Hauks Helgasonar á þremur sumrun. Síðan hefur aðeins tvisvar sinnum verið gróðursett í skógarreitinn sem fengið hefur að vaxa og dafna án mannlegrar aðkomu áratugum saman. Þarna var fyrir gamall birkiskógur sem hefur náð sér vel og er þetta eitt merkilegasta ræktunarsvæði bæjarins, utan alfaraleiðar en samt ótrúlega nærri þéttbýlinu.

Leiðsögumaður verður Jónatan Garðarsson varaformaður Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Gönguferðin er liður í skógargöngum um skógræktarsvæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar í tengslum við 100 ára afmæli Hafnarfjarðarbæjar.

Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.

Global ReLeaf styrkur

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Íslands, í samvinnu við Skógræktarfélag Reyðarfjarðar og Alcoa á Íslandi, fékk styrk úr Global ReLeaf verkefninu, sem er samvinnuverkefni American Forests og Alcoa Foundation.  Sótt var um fjármagn til gróðursetningar trjáplantna á Reyðafirði og í Vinaskógi.  Var hugsunin þar á bak við að gefa starfsfólki Alcoa á báðum stöðvum fyrirtækisins hér á landi tækifæri til að taka þátt í gróðursetningu.  Fyrirhugað er að setja niður um 12.000 plöntur.

Um 200 ungmenni fá vinnu við skógrækt

Með Fréttir frá skógræktarfélögum
Um 200 ungmenni fá vinnu við skógrækt í Kópavogi og Garðabæ í sumar en samningar um störfin voru undirritaðir á Smalaholti í Garðabæ og í Guðmundarlundi í Kópavogi miðvikudaginn 8. júní. Verkin verða unnin á svæðum í umsjá Skógræktarfélags Garðabæjar og Skógræktarfélags Kópavogs. Skógræktarverkefnin eru liður í atvinnuátaki Skógræktarfélags Íslands og skógræktarfélaga og sveitarfélaga um land allt. Samanlagt nema verkefnin í Garðabæ og Kópavogi hátt í 30 ársverkum og eru þetta stærstu einstöku verkefnin sem unnin verða í nafni atvinnuátaks Skógræktarfélags Íslands. Þegar hafa verið undirritaðir samningar um 45 ársverk um land allt og er vonast til að samningar náist um að minnsta kosti 60 ársverk á þessu ári.

Undanfarin tvö ár hefur Skógræktarfélag Íslands staðið fyrir atvinnuátaksverkefni í samstarfi við samgönguráðuneytið (nú innanríkisráðuneytið), staðbundin skógræktarfélög, sveitarfélög og Vinnumálastofnun.

Árangurinn af átakinu hefur verið góður og í nafni þess hefur verið unnið að mörgum brýnum verkefnum á skógræktarsvæðum um land allt. Um leið hefur tekist að skapa fjölda atvinnulausra og námsmanna vel þegna vinnu á einhverjum mestu atvinnuleysistímum sem þjóðin hefur upplifað.
atvinnuatak1
Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Barbara Stanzeit, gjaldkeri Skógræktarfélags Garðabæjar í góðum félagsskap ungmenna sem vinna við skógrækt á svæðum Skógræktarfélags Garðabæjar í sumar.
atvinnuatak2

Friðrik Baldursson, garðyrkjustjóri Kópavogs, Guðrún Pálsdóttir bæjarstjóri Kópavogs og Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, virða fyrir sér skógarplöntur sem gróðursettar verða í atvinnuátakinu í sumar.

Fuglaskoðun í Höfðaskógi

Með Skógargöngur

Hin árlega fuglaskoðunarferð Skógræktarfélags Hafnarfjarðar verður á laugardaginn kemur, 4. júní, kl. 10.00 árdegis. Lagt er af stað frá bækistöðvum félagsins og Þallar við Kaldárselsveg. Leiðsögumenn verða vanir fuglaskoðarar. Nánari upplýsingar eru veittar í síma félagsins: 555-6455.