Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

janúar 2014

Fræðsluerindi: Náttúruskógar og skógrækt í Chile

Með Fræðsla

Skógræktarfélagið Dafnar, skógræktarfélag nemenda og starfsmanna við Landbúnaðarháskóla Íslands, stendur fyrir opnu fræðsluerindi þriðjudaginn 28. janúar um Náttúruskóga og skógrækt í Chile í S-Ameríku. Fyrirlesari er Bjarni Diðrik Sigurðsson, en hann dvaldi í Chile í rúmar tvær vikur í nóvember og desember síðast liðinn, þar sem hann tók þátt í að kenna alþjóðlegt doktorsnemanámskeið í skógvistfræði, sem haldið var í samvinnu skógfræðideildar Sænska landbúnaðarháskólans (SLU), háskólans í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum og háskólans í Concepcion í Chile. Í þeirri ferð fékk hann einstakt tækifæri til að kynnast skógarmálum í þessu fjarlæga landi.

Erindið er opið öllum og er haldið í Ásgarði, aðalbyggingu Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri, kl. 17:00-17:45.

Fuglavernd: Garðfuglahelgi 24.-27. janúar

Með Ýmislegt

Árleg garðfuglahelgi Fuglaverndar verður dagana 24. – 27. janúar 2014. Framkvæmd athugunarinnar er einföld. Það eina sem þátttakandi þarf að gera er að fylgjast með garði í klukkutíma á tímabilinu og skrá hjá sér hvaða fuglar koma í garðinn og mesta fjölda af hverri tegund á meðan athugunin stendur yfir. Þeir sem gefa fuglum að staðaldri eru sérstaklega hvattir til þess að taka þátt. Fólki sem ekki hefur gefið fuglum áður er bent á að gott er að hefja undirbúning talningar nokkrum dögum fyrr með því að gefa daglega til að lokka að fugla. Misjafnt er hvaða fóður hentar hverri fuglategund og má finna upplýsingar um það á Garðfuglavefnum og í Garðfuglabæklingi Fuglaverndar sem má fá á skrifstofu félagsins. Frekari upplýsingar um garðfuglahelgina er að finna á heimasíðu Fuglaverndar – fuglavernd.is.

gardfuglahelgi

Stari og gráþröstur þræta um gult epli. Starinn er sigurviss (Mynd: Örn Óskarsson).

Hönnun úr íslenskum efniviði

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Síðastliðið haust tók Skógræktarfélag Reykjavíkur þátt í samstarfi við Listaháskóla Íslands um kennslu í vöruhönnunaráföngum þar sem áhersla var lögð á að hanna úr íslenskum við. Nemendurnir voru kynntir fyrir þeim efnivið sem fellur til í skógum og aðferðum við að vinna hann og í kjölfarið hönnuðu þau muni úr við sem kom úr Heiðmörk.

Kennarar voru Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir, Dögg Guðmundsdóttir og Hafsteinn Júlíusson frá Listaháskóla Íslands, Ólafur Oddsson frá Skógrækt ríkisins og Gústaf Jarl Viðarsson og Sævar Hreiðarsson frá Skógræktarfélagi Reykjavíkur.

Auk þess að hanna ýmsar vörur bjuggu nemendur til heimasíðu til kynningar á verkefninu – http://www.rendezwood.com/. Hefur það m.a. skilað sér í umfjöllun um verkefnið á heimasíðu Frame, eins virtasta hönnunartímarits Bretlands og á heimasíðu Domus, eins virtasta hönnunarblaðs Ítalíu.