Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

september 2010

Skógarganga með Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar og Krabbameinsfélagi Hafnarfjarðar

Með Skógargöngur

Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar bjóða til skógargöngu næstkomandi fimmtudag 30. september kl. 19:30.

Safnast verður saman við Gróðrarstöðina Þöll við Kaldársselsveg og þaðan verður gengið um skógarsvæði Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Við upphaf göngunnar flytur formaður Krabbameinsfélags Hafnarfjarðar, Þóra Hrönn Njálsdóttir, stutt ávarp og að því loknu mun Steinar Björgvinsson, skógfræðingur, vera með leiðsögn um skóginn og flytja stutta hugleiðingu um gildi skógarins í eflingu lýðheilsu. Þá mun Sigurður Pálsson, rithöfundur, flytja frumort ljóð.

Gert er ráð fyrir að skógargangan taki um eina klukkustund og að göngu lokinni verður boðið upp á kaffi og meðlæti í húsakynnum Þallar.

Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar, hvetja sem flesta til að taka þátt í göngunni og njóta útiveru í fallegu umhverfi skógarins.

krabbaganga

Gróðursetning í Seldal

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Í tilefni þess að 20 ár eru liðin frá því að Landgræðsluskógaverkefnið hófst í Seldalnum efnir Skógræktarfélag Hafnarfjarðar til sjálfboðaliða-gróðursetningarferðar á laugardaginn kemur 25. september kl. 13.00.

Gróðursett verður í kringum nýjar leikjaflatir í botni dalsins. 

Mæting er í Seldalnum sem er suður af Hvaleyrarvatni. Ekið er niður að vatninu og síðan beygt til vinstri og ekið yfir Seldalsháls. Boðið verður upp á veitingar í bækistöðvum félagsins/Þöll kl. 16.00 að lokinni gróðursetningu.

Nánari upplýsingar eru veittar í síma Skógræktarfélags Hafnarfjarðar: 555-6455/893-2855/894-1268.

Mesta skógrækt sögunnar

Með Ýmislegt

Á vef Morgunblaðsins má lesa áhugaverða frétt um skógrækt í Kína, en samkvæmt kínverskum stjórnvöldum munu þau ná því markmiði að þekja 20% yfirborðs landsins skógi fyrir lok þessa árs. Það sem meira er þá stefna þau að því að skógur þeki 42% landsins árið 2050. Miðað við að Kína er fjórða stærsta land í heimi verða þessi markmið að teljast mjög metnaðarfull, enda mun þetta vera mesta skógrækt sögunnar.

Markmið kínverskra stjórnvalda með þessum áætlunum er meðal annars að sporna gegn vaxandi eyðimerkurmyndun og stuðla að bindingu gróðurhúsalofttegunda frá kínverskum iðnaði.

Mættu íslensk stjórnvöld hiklaust taka þau kínversku sér til fyrirmyndar í þessum málum og leggja miklu meiri áherslu á endurheimt skógar hérlendis.

Sjá nánar á vef Morgunblaðsins –www.mbl.is.

kina-skograekt

Erlendum gestum er boðið í gróðursetningu í Kína (Mynd: BJ).

Ráðstefna til heiðurs Alexander Robertson

Með Fundir og ráðstefnur

Laugardaginn 18. september var haldin ráðstefna til heiðurs skógfræðingnum og Íslandsvininum Alexander „Sandy“ Robertson, er bar heitið Þytur í laufi – Skógar og skjól í Esjuhlíðum. Að ráðstefnunni stóðu Skógræktarfélög Íslands, Reykjavíkur og Kjalarness, Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá, Landbúnaðarháskóli Íslands og Raunvísindadeild Háskóla Íslands.

Ráðstefnustjóri var Símon Þorleifsson, en erindi fluttu Einar Gunnarsson, skógfræðingur hjá Skógræktarfélagi Íslands, um Esjuskóga, Haraldur Ólafsson, prófessor í veðurfræði við Háskóla Íslands, um Esjuvinda, Þorbergur Hjalti Jónsson, skógfræðingur á Mógilsá, um storma og stöðug tré og Alexander Robertson sjálfur, um að lesa í vind og skóga. Aðalsteinn Sigurgeirsson, skógerfðafræðingur á Mógilsá, sá svo um samantekt og umræður.

Auk erindis Sandys var sýnikennsla í áhrifum vinda, með notkun þurríss sem staðgengli vinds og vakti sú nálgun bæði mikla athygli og skemmtun.  Sérstaklega var áhugavert að sjá strauma um líkan af Esju, sem Sandy hefur skorið út.

Eftir umræður færði Bjarni Diðrik Sigurðsson Sandy þakkir fyrir hönd þeirra er stóðu að ráðstefnunni, auk þess sem Aðalsteinn Sigurgeirsson sæmdi Sandy gullmerki Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Í lok ráðstefnunnar var svo farið í skoðunarferð um Esjuhlíðar.

sandyconf-1

Alexander „Sandy“ Robertson (t.v.) við grunnlíkan sem nota má til að prófa mismunandi staðsetningar trjáa, skjólbelta og annarra mannvirkja (Mynd: RF).

sandyconf-2

Líkan af Esju prófað – áhrif norðanáttar (Mynd: RF).

 

Ráðstefna: Þytur í laufi – Skógar og skjól í Esjuhlíðum

Með Fundir og ráðstefnur

Ráðstefna til heiðurs Alexander Robertson verður haldinn í Esjustofu laugardaginn 18. september og hefst dagskrá kl. 12.30.

Ráðstefnustjóri er Símon Þorleifsson.

 

Dagskrá:

12.00 Súpa
12.30 Esjuskógar
Einar Gunnarsson, skógfræðingur, Skógræktarfélagi Íslands
12.45  Esjuvindar
Haraldur Ólafsson, prófessor í veðurfræði við Háskóla Íslands
13.10  Stormar og stöðug tré
Þorbergur Hjalti Jónsson, skógfræðingur, Mógilsá
13.30  Kaffihlé
13.45 Lesið í vinda og skóga
Alexander Robertson, „Sandy“, doktor í skógvistfræði,
fyrirlestur og sýnikennsla með þurrís
15.50  Samantekt og umræður
Dr. Aðalsteinn Sigurgeirsson, skógerfðafræðingur, Mógilsá
16.10  Gengið um Esjuhlíðar
Sandy leiðir skoðunarferð og blæs í sekkjapípur

Ráðstefnugjald kr. 3000.- Súpa og kaffi innifalið.

Skráning er hjá Skógræktarfélagi Íslands á skog(hjá)skog.is eða í síma 551-8150 til 17. september.

ráðstefnunni standa:
Skógræktarfélög Íslands, Reykjavíkur og Kjalarness, Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins, Landbúnaðarháskóli Íslands og Raunvísindadeild Háskóla Íslands.

 logo-lbhi-web  logo-rvk-web  logo-si-web  logo-sr-web  logo-hi-web

 

 

Vinnudagur á Fossá

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Boðað er til vinnudags að Fossá á komandi hausti eins og venja er. Dagurinn er laugardagur 18. september 2010 og hefst vinnan klukkan 10:00. Allar vinnufúsar hendur velkomnar.


Meðal verkefna er að velja torgtré, finna ákjósanleg jólatrjáasvæði til að vísa fólki á í desember, hreinsa og laga til meðfram göngustíg, klára plöntun og ýmis annar frágangur.

Eiríkur Páll Eiríksson, formaður Fossárnefndar
eirikp(hjá)fa.is
s. 864-2865

Sveppabókin – Handbók um íslenska sveppi og sveppafræði

Með Ýmislegt

Helgi Hallgrímsson, náttúrufræðingur á Egilsstöðum, hefur síðan um 1990 hefur unnið að bók um sveppi og kemur hún út núna í haust. Í bókinni er farið yfir það helsta tengt sveppum hérlendis, meðal annars er fjallað um mat- og eitursveppi, ræktun matsveppa, sögu svepparannsókna hérlendis og fjölmörgum íslenskum tegundum lýst í máli og myndum, með áherslu á nytjasveppi og sveppi er geta skaðað fólk, dýr, ræktaðar plöntur eða matvæli.

Sveppabókin er ekki flóra í venjulegri merkingu þess orðs, þar sem í henni er ekki að finna lýsingar á nema um fjórðungi þeirra um 2000 sveppategunda sem skráðar hafa verið hér á landi. Áherslan er á stærri sveppi, en meginhluti skráðra sveppa hérlendis eru smásveppir á mörkum þess að sjást með berum augum og eiga því minna erindi við almenning. Sveppabókin er byggð á könnun og söfnun höfundar á íslenskum sveppum í 50 ár, auk rannsókna fjölmargra annarra fræðimanna í yfir eina öld.

Sveppir eru einn af grundvallarþáttum lífríkisins, en þá er næstum alls staðar að finna þar sem eitthvert líf þrífst. Þeir mynda svepprætur með blómplöntum og trjám og án þeirra væri skógrækt á Íslandi ekki möguleg. Þeir eru stofninn í fléttum og skófum, sem vaxið geta á beru grjóti. Þrátt fyrir það hafa sveppir lengst af verið í litlu áliti hjá okkur Íslendingum – við höfum nefnt þá gorkúlur eða myglu – en það viðhorf er sem betur fer óðum að breytast.

Sveppabókin er ætluð almenningi jafnt sem fræðimönnum og flestir ættu að geta fundið sér þar eitthvað áhugavert. Hún er um 600 blaðsíður að stærð og inniheldur mörg hundruð skýringarmynda og litmyndir af íslenskum sveppum. Bókin kemur út í október og hægt er að tryggja sér hana í forsölu til 1. október á afsláttarkjörum (2000 kr. afsláttur) hjá Skruddu.

sveppabokin

Góðir gestir hjá Skógræktarfélagi A-Húnvetninga

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Alexander „Sandy“ Robertson og kona hans Geraldine heimsóttu Skógræktarfélag A-Húnvetninga nú í lok ágúst. Páll Ingþór Kristinsson, formaður Skógræktarfélagsins, tók á móti þeim við Blönduóskirkju, þar sem þau hittu svo krakka úr 7. bekk Blönduskóla ásamt kennara. Gengu allir að Hrútey, þar sem var smá móttökuathöfn. Sandy lék á sekkjapípu eins og sönnum Skota sæmir og leyfði svo öllum að prófa sem vildu, með misjöfnum árangri, en það var mikið hlegið þegar illa eða ekki gekk að koma hljóði úr hljóðfærinu. Einnig var gróðursett tré (blágreni), sem hlaut nafnið „sekkjapíputré“. Að lokum færðu krakkarnir þeim hjónum húnverska matarkörfu frá Skógræktarfélaginu.

Síðan var genginn hringur um Hrútey og dáðst að náttúrufegurðinni þar. Eftir kaffihlé var svo haldið fram að Gunnfríðarstöðum á Bakásum og gengið um skóginn þar. Því næst var haldið aftur til Blönduóss og endað á nýsteiktum kleinum og kaldri mjólk hjá formanni Skógræktarfélagsins og konu hans.

sandyahun-1

Sandy, Geraldine og krakkarnir við gróðursetningu (Mynd: Páll Ingþór Kristinsson).

sandyahun-2

Misjafnlega gekk hjá krökkunum að ná hljóði úr sekkjapípunni hans Sandys (Mynd: Páll Ingþór Kristinsson).

Tré ársins 2010

Með Ýmislegt

Skógræktarfélag Íslands hefur valið  „Tré ársins” árið 2010 en það er undraverður álmur (Ulmus glabra) er stendur við Heiðarveg 35 í Vestmannaeyjum.

Er tréð íturvaxið og  hefur að geyma all merkilega sögu. Útnefningu sem „Tré ársins“ fær álmurinn fyrst og fremst vegna sérstöðu sinnar þegar haft er í huga hvar á landinu tréð vex. Vestmannaeyjar hafa lengst af ekki verið taldar með heppilegustu vaxtarsvæðum landsins og í raun er það með ólíkindum að tréð hafi lifað af Heimaeyjargosið.

Tréð mun hafa verið gróðursett árið 1945. Húsið sem nú stendur við Heiðarveg 35 er byggt af Ólafi Á. Kristjánssyni og það mun hafa verið kona hans, Marý Friðriksdóttir, sem gróðursetti álminn.

Álmurinn á Heiðarvegi 35 er sönnun þess að hægt er að umvefja bæinn gróðri og gera hann fegurri og skjólsælli með því að hvetja fleiri bæjarbúa til að gróðursetja álm, hlyn og ótalmargar tegundir af runnum og rósum sem þegar er vitað að þrífast í Vestmannaeyjum. Til þess að leggja þessu starfi lið geta allir lagt Skógræktarfélagi Vestmannaeyja lið og gengið í það og eflt þannig það starf sem félagið vinnur að á ári hverju. Skógræktarfélag Vestmannaeyja var endurvakið árið 2000, en áður hafði verið stofnað og starfað félag sem m.a. vann að ræktun í Herjólfsdal.

Tréð var formlega útnefnt við athöfn þann 10. september. Við athöfnina lék Lúðrasveit Vestmannaeyja nokkur lög og síðan tók Margrét Lilja Magnúsdóttir, varaformaður Skógræktarfélags  Vestmannaeyja við. Sagði hún að það gæfi starfinu í Eyjum byr undir báða vængi að slík viðurkenning væri veitt í Eyjum. Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands flutti stutt ávarp og veitti síðan eigendunum á Heiðarvegi 35 viðurkenningu af þessu tilefni, þeim Huldu Pétursdóttir og Sigurði Franz Þráinssyni. Þá flutti Páley Borgþórsdóttir, fulltrúi Vestmannaeyjabæjar, kveðju og sagðist fagna slíku framtaki og það væri mikil hvatning og fyrirmynd fyrir bæjarbúa að sjá að athygli væri beint á ræktunarstarf í Eyjum hún væri þess fullviss að bæjarbúar héldu áfram að fegra og bæta bæinn.

Tréð var síðan mælt hátt og lágt og reyndist vera  6,5 m að hæð. Meginstofnar voru sex og var þvermál og ummál þess stærsta mælt og var hann 17,5 cm í þvermál og 22,2 cm í ummál. Félagar úr lúðrasveitinni léku svo síðustu tóna þessarar athafnar.

Tréð er frískleg og heilbrigt og gefur vísbendingar um að í Vestmannaeyjum sé hægt að rækta marga fagra hrísluna.

trearsins-web-1

Sigurður Franz Þráinsson, Hulda Pétursdóttir og fjölskylda, eigendur Heiðarvegar 35 (Mynd: BJ).

trearsins-web-2

Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, flytur ávarp (Mynd: BJ).

trearsins-web-3

Margrét Lilja Magnúsdóttir, varaformaður Skógræktarfélags Vestmannaeyja, flytur ávarp (Mynd: BJ).

trearsins-web-4

Páley Borgþórsdóttir, fulltrúi Vestmannaeyjabæjar, flytur ávarp (Mynd: BJ).

trearsins-web-5

Tré ársins 2010 (Mynd: BJ).