Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

júlí 2012

Fræðsluganga um Vatnsendahlíð

Með Skógargöngur

Fræðsluganga um Vatnsendahlíð

Rétt við bæjardyrnar, gróður og jarðfræði

Skógræktarfélag Kópavogs efnir til fræðslugöngu um Vatnsendahlíð

og nágrenni þriðjudagskvöldið 24. júlí, undir leiðsögn

Hafdísar Hönnu Ægisdóttur plöntuvistfræðings

og Hreggviðar Norðdahl jarðfræðings.

Gengið verður um svæðið og hugað að gróðurfari

og jarðfræði.

Þátttakendur eru hvattir til að taka með sér plöntuhandbók ef

þeir eiga eina slíka.

Lagt verður í gönguna frá aðalinngangi Guðmundarlundar

klukkan19:30.

Fræðslugöngunni lýkur kl. 21:30.

Allir velkomnir

Íslensk skógartimbur frá Fossá á Landsmóti skáta

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Landsmót skáta verður haldið á Úlfljótsvatni  að þessu sinni og hefst næstu helgi. Allur undirbúningur stendur nú  yfir  af fullum krafti. Meðal þess sem þarf að vera til reiðu eru spírur sem skátarnir nota til að byggja allskonar hlið og þrautabrautir sem eru hluti af búnaði mótsins.

Bandalag íslenskra skáta samdi að þessu sinni við Skógræktarfélag Kópavogs um að útvega 500 spírur sem notaðar verða á mótsvæðinu. Skógræktarfélagi ð er að vinna að grisjun á Fossá í Kjós og í samvinnu við Skógræktarfélag Íslands var svæði grisjað og skógarafurðirnar afhentar skátunum. Að verkefnin komu vinnuflokkar í atvinnuátaksverkefni  hjá  Skógræktarfélagi Kópavogs sem  fengnir vorum með samningum milli félagsins, Skógræktarfélags Íslands og Kópavogsbæjar, með stuðningi Vinnumálastofnunnar.

Myndin er tekin af fulltrúa Bandalags íslenskra skáta að Fossá í Hvalfirði af starfsmönnum Skógræktarfélags Kópavogs við afhendingu spíranna.

sktatimbur

Stuttmynd um starf skógræktarfélaganna

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Í tilefni af Alþjóðlegu ári skóga 2011 lét Skógræktarfélag Íslands gera tvö stutt kynningarmyndbönd, sem fjalla annars vegar almennt um starf skógræktarfélaganna og gildi skógræktar og hins vegar um Græna trefilinn, sem er samheiti yfir skógræktar- og útivistarsvæði í upplandi höfuðborgarsvæðisins.

Var Óskar Þór Axelsson kvikmyndagerðarmaður fenginn til að gera myndirnar, en hann er vel þekktur sem leikstjóri kvikmyndarinnar Svartur á leik.

Megintilgangur myndbandagerðarinnar er að vekja athygli á því góða starfi sem skógræktarfélögin hafa unnið í gegnum tíðina og hvetja fólk til að leggja skógræktarhreyfingunni lið. Jafnframt vonast Skógræktarfélag Íslands til að myndirnar opni augu fólks fyrir þeim möguleikum sem felast í skógræktarsvæðunum í nútíð og framtíð.

Myndina um starf skógræktarfélaganna má nú skoða á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands, undir Félagið – Myndbönd (hér), bæði í styttri og lengri útgáfu.

 

Unnið í skóginum á Gunnfríðarstöðum

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Nú er unnið hörðum höndum við grisjunarvinnu í Gunnfríðarstaðaskógi og hafa ungmenni frá Blöndustöð séð um þá vinnu með formanni Skógræktarfélags A-Húnvetninga.

Árásir geitunga hafa tafið vinnu litla stund flesta dagana en eftir að mesti sársaukinn er liðinn hjá er vinnu haldið áfram.

Stúlka frá Japan var með hópnum einn dag í skóginum við myndatöku, en hún átti ekki von á skógi í Húnavatnssýslu.

Skógræktarfélag Austur – Húnvetninga vill minna á aðalfund Skógræktarfélags Íslands dagana 24. – 26. ágúst á Blönduósi. Viljum sjá sem flesta í Húnaþingi til að teiga af menningunni með okkur.

gunnfrid1
Trjáviðurinn borinn út úr skóginum við bæjarrústirnar á Gunnfríðarstöðum (Mynd: Páll Ingþór Kristinsson).

 

Ungmenni úr Blöndustöð og einn gestur frá Japan (Mynd: Páll Ingþór Kristinsson). 

 

Garðaganga í Rósagarðinn í Höfðaskógi

Með Skógargöngur

Garðyrkjufélag Íslands verður með garðagöngu í Rósagarðinn í Höfðaskógi miðvikudaginn 11. júlí og hefst hún kl. 18:00. Mæting er við Gróðrarstöðina Þöll, við Kaldárselsveg.

Rósagarðurinn í Höfðaskógi er samstarfsverkefni Rósaklúbbs Garðyrkjufélags Íslands og Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og þar eru fyrst og fremst ræktaðrar harðgerðar runnarósir. Leiðsögumenn eru þeir Vilhjálmur Lúðvíksson og Kristleifur Guðbjörnsson.

Gróðrarstöðin Þöll mun verða með til sölu nokkur rósayrki sem Jóhann Pálsson, fyrrum garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar, hefur þróað.

Sjá nánar á heimasíðu Garðyrkjufélags Íslands (hér).

ros
(Mynd: RF).

Fræðsluganga í Kópavogsdal – Vin í alfaraleið, gróður og saga

Með Skógargöngur

Í fræðslugöngu Skógræktarfélags Kópavogs og Skógræktarfélags Íslands um Selhóla í Lækjarbotnum þann 12. júní síðastliðinn slógu þeir Friðrik Baldursson garðyrkjustjóri Kópavogs og Gísli Bragason jarðfræðingur rækilega í gegn sem leiðsögumenn. Þeir félagar fjölluðu þá gróður, jarðfræði og sögu staðarins.

Friðrik Baldursson garðyrkjustjóri ætlar enn á ný að ausa úr viskubrunni sínum á þriðjudagskvöldið 10. júlí í fræðslugöngu um Kópavogsdal.  Leitast verður við að kynna fólki þann gróður sem fyrir augu ber á þessu vinsæla útivistarsvæði og sagt verður frá sögu svæðisins.

Lagt verður í gönguna frá bílastæðinu við Digraneskirkju kl. 19:30.

Opinn dagur í Fossselsskógi

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Suður-Þingeyinga hélt opinn dag í Fossselsskógi sunnudaginn 8. júlí. Afhjúpað var minningarskilti um Friðgeir Jónsson og minntist systursonur hans, Árni Sigurbjarnarson, hans með nokkrum orðum. Gaukur Hjartarson fræddi fólk um fugla skógarins, farið var í gönguferð eftir nýjum göngustígum um skóginn og endað á að drekka ketilkaffi við nýtt áningarborð við Kvennabrekku, sem Kvenfélög innan Kvenfélagasambands Suður-Þingeyinga afhentu á opna deginum.

fossselskogur
Klara Haraldsdóttir, sambýliskona Friðgeirs Jónssonar, afhjúpar minningarskilti um hann við Geirasel.