Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

ágúst 2020

Nýr styrktaraðili Opinna skóga

Með Fréttir

Samkaup og Skógræktarfélag Íslands skrifuðu í dag undir samstarfssamning um verkefnið Opinn skógur. Markmiðið með samstarfinu er að bæta aðstöðu og auka aðgengi á opnum skógræktarsvæðum í alfaraleið og miðla upplýsingum og fræðslu um lífríki, náttúru og sögu svo almenningur geti nýtt sér skógana til áningar, útivistar og heilsubótar. Með samningnum er rekstur verkefnisins tryggður á þessu og næsta ári auk þess sem unnið verður að kynningu á því.

„Samfélagsleg ábyrgð og umhverfisvernd skipa stóran sess í starfsemi Samkaupa. Við leitum stöðugt leiða til að lágmarka umhverfisáhrif af starfsemi okkar til að tryggja að komandi kynslóðir fái að njóta fegurðar og þess góða sem umhverfið okkar hefur upp á bjóða,“ segir Ingibjörg Ásta Halldórsdóttir, markaðsstjóri Samkaupa. „Samstarf og stuðningur við Skógræktarfélagið fellur vel umhverfisstefnu Samkaupa enda gegnir félagið gríðarlega mikilvægu hlutverki í náttúru- og umhverfisvernd hér á landi.“

Opnir skógar eru nú sautján talsins, staðsettir víðs vegar um landið þar sem er boðið upp á góða útivistaraðstöðu. Unnið verður áfram að þróun og bættu aðgengi þannig að sem flestir landsmenn geti notið þeirra miklu gæða sem felast í skógunum og eru allir opnir.

„Samningurinn við Samkaup skiptir okkur gríðarlega miklu máli og tryggir rekstur þess fram á næsta ár,“ segir Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands. „Nú munum við kynna verkefnið enn frekar og hvetja landsmenn til að sækja í skógana enda er þar að finna frábæra aðstöðu til samkomuhalds og útivistar.“

Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, og Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa, undirrita samninginn.

Tré ársins 2020 útnefnt

Með Fréttir

Tré ársins 2020 var útnefnt við hátíðlega athöfn laugardaginn 29. ágúst og er um að ræða gráreyni (Sorbus hybrida) að Skógum í Þorskafirði og er það í fyrsta sinn sem gráreynitré er útnefnt sem Tré ársins. Upphaflega var haldið að tréð væri silfurreynir (Sorbus intermedia), en nánari skoðun sérfræðinga Skógræktarinnar við athöfnina leiddi í ljós að um gráreyni var að ræða.

Athöfnin hófst á ávarpi Jónatans Garðarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands. Sagði hann stuttlega frá trénu, sem vaxið hefur við óblíð veðurskilyrði, en þrifist samt – bognað en ekki brotnað. Er tréð því með mikinn karakter. Næstur tók til máls Halldór Þorgeirsson, fulltrúi þjóðarráðs Baháʼí samfélagsins á Íslandi. Sagði hann frá upphafi ræktunar á Skógum og ræktunarstarfi Baháʼí samfélagsins þar, en vilji er fyrir því að opna skóginn frekar til heimsókna, til að njóta kyrrðar til íhugunar og efla tengsl við náttúruna.

Því næst afhenti Hafberg Þórisson frá Gróðrarstöðinni Lambhaga, sem er styrktaraðili Tré ársins verkefnisins, heiðurskjal og tók Böðvar Jónsson við því fyrir hönd þeirra sjálfboðaliða sem unnið hafa að skógrækt á Skógum. Afhjúpuðu Böðvar og Hafberg því næst skilti sem markar tréð.

Þá var komið að því að mæla tréð og sáu Jón Ásgeir Jónsson frá Skógræktarfélagi Íslands og Björn Traustason frá Skógræktinni um það. Reyndist tréð vera 5,9 m á hæð, með þvermál í hnéhæð 26,5 cm en 17,3 í brjósthæð, en þar var tréð búið að skiptast í tvo stofna.

Að mælingu lokinni leiddi Böðvar Jónsson gesti í göngu um skóginn, þar sem sjá mátti meðal annars hina myndarlegustu fjallaþöll, skógarfuru sem lifði af þær hremmingar sem stráfelldu tegundasystur hennar á 6. áratugnum, auk þess sem göngufólk gat gætt sér á bláberjum!

Dagskránni lauk svo með kaffihressingu.

 

Skógræktarfélag Íslands útnefnir árlega Tré ársins. Er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land.

 

Tré ársins 2020.

F.v. Hafberg Þórisson frá Gróðrarstöðinni Lambhaga, Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Böðvar Jónsson, frá Baháʼí samfélaginu á Íslandi.