Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

febrúar 2015

„Ask veit ek standa…“ – Málþing um trjágróður í þéttbýli

Með Fundir og ráðstefnur

Garðyrkjufélag Íslands (GÍ) og Samtök garðyrkju- og umhverfisstjóra (SAMGUS) standa fyrir málþingi um trjágróður í þéttbýli föstudaginn 27. febrúar, kl. 10:00-15:00 og er það haldið í sal Garðyrkjufélags Íslands að Síðumúla 1 (gengið inn Ármúlamegin).

Fundarstjóri er Þuríður Backman, formaður Garðyrkjufélags Íslands.

Dagskrá – með fyrirvara um breytingar:

9:30-10:00 Skráning
Kaffisopi og spjall
10:00 Setning
Friðrik Baldursson garðyrkjustjóri Kópavogsbæjar og formaður SAMGUS. 
  Trjágróður í borg og bæ
Kristinn H. Þorsteinsson, fræðslu- og verkefnastjóri GÍ.
Með trú og dirfsku brautryðjandans hafa orðið gífurlegar breytingar á gróðurfari í þéttbýli. Í erindi þessu verður hugað að mörgu áhugaverðu sem fyrir auga ber þegar gengið er um í borg og bæ.
  Rótlaust tré stendur ekki stöðugt – um tré og skipulagsmál
Hrafnkell Proppé, svæðisskipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins.
Í erindinu er fjallað um stöðu trjáa í síkviku skipulagsumhverfinu og velt vöngum yfir gildi trjáa í borgarumhverfi. Greint verður frá nýlegum niðurstöðum íbúakannanna sem draga fram áhyggjur íbúa af grænum svæðum á höfuðborgarsvæðinu. Komið verður inn á fjórðu víddina – tímann, sem lykilatriði í vexti trjánna sem borganna.
  Trjáræktarstefna Reykjavíkur
Þórólfur Jónsson, deildarstjóri Náttúru og garða hjá Reykjavíkurborg.
Kynnt verður stefna Reykjavíkurborgar í trjáræktarmálum sem samþykkt var í borgarstjórn þann 19. nóvember 2013.
  Ástand götutrjáa, skemmdir, hættur og leiðir til úrbóta
Magnús Bjarklind, skrúðgarðyrkjutæknir hjá EFLU ehf.
Fjallað verður um ástand götutrjáa, m.a. í Reykjavík. Hverjir eru helstu skaðvaldar og mögulegar hættur af völdum núverandi ástands. Einnig fjallað um nýjar leiðir í ræktun trjágróðurs við erfið skilyrði, m.a. takmarkað rótarrými.
12:00 Matarhlé
Boðið verður upp á súpu, brauð og grænmeti á staðnum. Innifalið í þátttökugjaldi. 
12:45 Fágæt og merkileg tré í Reykjavík
Einar Ó. Þorleifsson og Björk Þorleifsdóttir.
Fjallað verður um söguleg og fágæt tré í Reykjavík. Mikilvægi trjánna og gildi í borgarumhverfinu ásamt verndargildi. Skrásetning og fræðsla.
  Skógurinn í borginni og borgin í skóginum
Gústaf Jarl Viðarsson skógfræðingur hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur.
Fjallað verður um borgarskóginn, útbreiðslu trjágróðurs í Reykjavík, skógræktarskilyrði á höfuðborgarsvæðinu og þá þjónustu sem trén í borginni veita íbúum.
  Götutré, borgarskógrækt og val á trjátegundum
Samson Bjarnar Harðarson, lektor við LBHÍ og verkefnisstjóri Yndisgróðurs.
Líf trjáa í borgum er hættuspil. Borgartré lifa oft við erfiðar aðstæður, mengun, salt af götum, lítið rótarrými og þeim stendur stöðug hætta af skemmdarvörgum, bílum, byggingarframkvæmdum og misviturlegum stjórnsýsluákvörðunum. Í erindinu verður fjallað um viðmið um val á trjátegundum í borgarumhverfi.
  Markmið um trjágróður í Garðabæ
Erla Bil Bjarnardóttir, umhverfisstjóri Garðabæjar.
Kynnt verða markmið um trjágróður í Garðabæ sem umhverfisnefnd setti og samþykkt var í mars 2014, fræðslu til íbúa um trjágróður á lóðum og árlega könnun trjágróðurs á lóðamörkum.
14:45 Samantekt og fundarslit.

 

Bókakaffi
Að loknu málþingi geta þátttakendur fengið sér kaffi og kynnt sér mikið úrval bóka um trjágróður sem Garðyrkjufélagið er með í sölu, að ógleymdu bókasafni félagsins.

Skráning á málþingið er á netfanginu gardyrkjufelag@gardurinn.is . Verð kr. 8.000. Hádegisverður innifalinn. Verð fyrir námsmenn: kr. 6.000.
Fyrir þær stofnanir og fyrirtæki sem senda marga starfsmenn á málþingið er boðið upp á að fjórði hver þátttakandi sé ókeypis.

Fuglavernd: Fuglarnir í garðinum heima – námskeið ætlað börnum

Með Ýmislegt

Laugardaginn 7. febrúar kl 11:00 – 12:00 verður haldið námskeið á vegum Fuglaverndar og Garðyrkjufélags Íslands um garðfugla. Er námskeiðið haldið í Síðumúla 1 í Reykjavík. Steinar Björgvinsson fuglaskoðari ætlar að fræða börn um hvernig á að fóðra smáfugla í garðinum að vetri til eins og t.d. skógarþresti, snjótittlinga og svartþresti. Steinar sýnir börnunum myndir af garðfuglum, kennir þeim hvernig hægt er að búa til fuglafóður og segir þeim frá hvað fuglar vilja helst éta. Þá verður hugað að hvar best er að skilja fóðrið eftir svo kettirnir nái síður til fuglanna. Einnig verður sagt frá heppilegum hreiðurkössum, fuglaböðum og fleiru.

Foreldrar og aðrir aðstandendur barna eru hvött til að mæta með börnin á fugladag barna og fræðast um þá göfugu iðju að fóðra fugla. Þegar vetrarhörkur ríkja eiga fuglar erfiðara með að finna sér fæðu. Lífsbaráttan er hörð og þeir því oft háðir matargjöfum og þá er gott að eiga sér vin sem færir þeim fóður.

Aðgangur er frír.

fuglavernd  barnanamskeid

Auðnutittlingur sem hefur verið lengi í fóðrum í garði ljósmyndarans Arnars Óskarssonar á Selfossi.

Samningur um birkikynbætur undirritaður

Með Ýmislegt

Skógræktarfélag Íslands, Skógrækt ríkisins og Garðyrkjufélag Íslands undirrituðu samning þann 3. febrúar um frærækt og viðhaldskynbætur á birkiyrkinu ´Emblu´.
Birkikynbætur hófust með formlegum hætti innan samstarfshóps sem kenndi sig við Gróðurbótafélagið snemma árs 1987, en þar í voru fulltrúar frá Skógrækt ríkisins, Skógræktarfélagi Íslands, Rannsóknarstofnun landbúnaðarins, Garðyrkjufélags Íslands, Garðyrkjuskóla ríkisins og Gróðrarstöðvarinnar Mörk, auk áhugamanna um bætt erfðaefni til garðyrkju og skógræktar í landinu. Árangur þess starfs er yrkið Embla, sem hefur reynst jafnbesta yrkið sem völ er á til ræktunar á innlendu birki í landinu. Fjallað var um upphaf verkefnisins og tilurð yrkisins í grein í Skógræktarritinu árið 1995.

Þorsteinn Tómasson plöntuerfðafræðingur hefur frá upphafi stýrt verkefninu sem hefur orðið hvatning til margvíslegra annarra verkefna sem lúta að erfðafræði íslenska birkisins. Í ljósi þeirrar þekkingar sem fékkst í framkvæmd þessa verkefnis var ákveðið árið 2009 að halda áfram kynbótum birkisins að mestu innan erfðamengis Emblu, með nokkrum viðbótum. Einnig að tryggja framtíðarskipulag um frærækt og áframhaldandi bötun yrkisins með formlegum hætti. Í því augnamiði var ákveðið að Skógræktarfélag Íslands og Garðyrkjufélag Íslands yrðu rétthafar yrkisins og bæru formlega ábyrgð á því en Þorsteinn ynni áfram að kynbótunum í umboði þessara félagssamtaka.

Garðyrkjufélag Íslands, Skógræktarfélag Íslands, Landgræðslusjóður, Framleiðnisjóður og Reykjavíkurborg hafa stutt verkefnið með fjárframlögum. Miklu munar um þátttöku Gróðrarstöðvarinnar Markar sem hefur veitt verkefninu mikinn stuðning og aðstöðu frá upphafi. Skógrækt ríkisins lagði til aðstöðu á Mógilsá. Þá hefur Skógrækt ríkisins einnig lagt verkefninu til mikilvæga fræræktaraðstöðu frá vordögum 2013 í gróðurhúsi á Tumastöðum í Fljótshlíð og vinnu við alla umönnun trjánna í fræræktinni. Öll vinna Þorsteins og annarra aðstandenda verkefnisins hefur verið framlag þeirra.

Samningurinn tryggir að áfram verði unnið að kynbótum á íslensku birki og eykur möguleika trjáræktenda á að fá til ræktunar úrvalsbirki sem er bæði harðgert, beinvaxið og hraðvaxta. Skógrækt ríkisins sér um frærækt hins kynbætta birkis og miðlun fræsins til ræktenda.

birkikynbaetur

F.v. Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Þuríður Bachmann, formaður Garðyrkjufélags Íslands og Jón Loftsson skógræktarstjóri við undirritun samningsins.