Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

september 2024

Birkifræsöfnun þjóðarinnar fram undan

Með Fréttir

Árlegt átak Lands og skógar í samvinnu við skógræktarhreyfinguna og fleiri samtök og fyrirtæki hefst formlega á degi íslenskrar náttúru 16. september. Fyrsti viðburðurinn verður á vegum Lionsklúbbsins Sifjar í Reykhúsaskógi í Eyjafjarðarsveit klukkan sautján í samvinnu við Skógræktarfélag Eyfirðinga og skógarbændur í Reykhúsum.

Birkifræsöfnun 2024

Gott fræár er nú á birki um allt land sem er nokkuð óvenjulegt því gjarnan er fræmyndun á birki mjög misjöfn á landinu frá ári til árs. Í fyrra var mjög lítið um birkifræ nema í Vesturbyggð og þá var áhersla lögð á það svæði í átakinu Söfnum og sáum birkifræi sem nú hefur staðið yfir frá árinu 2020.

Þetta árið ríður Lionsklúbburinn Sif í Eyjafjarðarsveit á vaðið og efnir til fræsöfnunar í Reykhúsaskógi í Eyjafjarðarsveit á degi íslenskrar náttúru, mánudaginn 16. september, klukkan 17. Öllum er þar velkomið að koma og taka þátt í söfnuninni með klúbbfélögum og fulltrúum frá Skógræktarfélagi Eyfirðinga sem tekur þátt í viðburðinum. Reykhúsaskógur er samliggjandi Kristnesskógi til norðurs og gengið inn í hann norðan við Kristnesspítala.

Þrátt fyrir gott útlit um birkifræ í öllum landshutum þetta haustið ber að benda á að fræið hefur þroskast heldur hægt víðast hvar sökum þess hve sumarið hefur verið rysjótt og sólarlítið. Víða eru fræreklarnir á birkinu enn grænir en þó er farið að fréttast af reklum sem orðnir eru ljósbrúnir, til dæmis á Austfjörðum. Þar sem þeir eru enn grænir og harðir viðkomu gæti verið rétt að bíða með fræsöfnun. Birkifræi má safna langt fram á haust, svo lengi sem fræið hangir á trjánum.

Eins og undanfarin ár verða söfnunarkassar í Bónus-verslunum um allt land og á Olís-stöðvum. Sömuleiðis er tekið við fræi á starfstöðvum Lands og skógar sem eru nítján talsins í öllum landshlutum. Þessa dagana er verið að koma söfnunarkössunum upp og því verki ætti að vera lokið kringum 20. september. Pappaöskjur sem Prentmet Oddi framleiðir fyrir átakið verða fáanlegar til að safna fræinu í en einnig er gott að safna fræinu í bréfpoka eða tauskjóður. Aðalatriðið er að fræið nái að þorna í umbúðunum því að annars er hætta á að það mygli og skemmist.

Fólk er hvatt til að leggja birkiskógum landsins lið við að breiðast út á ný, annað hvort með því að safna fræi og senda inn í söfnunina eða með því að dreifa á eigin spýtur því fræi sem sáð er. Leita má til Lands og skógar, sveitarfélaga eða skógræktarfélaga eftir ábendingum um svæði sem vert er að sá í.

Kristinn H. Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Kópavogs, hefur yfirumsjón með söfnunarátakinu á birkifræi. Hann veitir nánari upplýsingar í netfanginu birkiskogur@gmail.com eða í síma 839 6700.

Tré ársins 2024 formlega útnefnt

Með Fréttir

Tré ársins 2024 var útnefnt við hátíðlega athöfn sunnudaginn 8. september. Um er að ræða skógarfuru (Pinus sylvestris) í skógarlundi sunnan við Mánaþúfu í Varmahlíð í Skagafirði og er það í fyrsta sinn sem skógarfura er valin sem Tré ársins. Skógarfura var mikið gróðursett á 6. og fram á 7. áratug síðustu aldar, en varð fyrir miklum skakkaföllum af völdum furulúsar, sem grandaði henni að mestu, og er hún því sjaldgæf hérlendis nú.

Hófst athöfnin á því að söngkvartettinn Vorvindar glaðir flutti vel valin lög. Jónatan Garðarsson, formaður skógræktarfélags Íslands, ávarpaði svo gesti, en auk hans fluttu ávörp Ragnheiður Guðmundsdóttir, formaður Skógræktarfélags Skagfirðinga og Hafberg Þórisson, eigandi Lambhaga ehf., sem er bakhjarl Trés ársins. Var Skógræktarfélagi Skagfirðinga afhent viðurkenningaskjal sem eigenda trésins og skilti sem markar tréð afhjúpað.

Að venju var tréð mælt við athöfnina og sá skógfræðingurinn og heimamaðurinn Johan Holst um það. Reyndist tré vera 13,9 m á hæð með þvermál upp á 30,5 cm í brjósthæð.

Athöfninni lauk svo með kaffihressingu í matsal Hótels Varmahlíðar, þar sem söngkvartettinn flutti einnig nokkur lög.

Skógræktarfélag Íslands útnefnir árlega Tré ársins. Er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land.

F.v. Hafberg Þórisson, eigandi Lambhaga ehf., sem er bakhjarl Trés ársins, Ragnheiður Guðmundsdóttir, formaður Skógræktarfélags Skagfirðinga og Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, við útnefninguna.

Tré ársins 2024

Með Fréttir

Tré ársins 2024 verður útnefnt formlega við hátíðlega athöfn sunnudaginn 8. september í Varmahlíð í Skagafirði. Að þessu sinni er um að ræða merkilega trjátegund sem var mikið gróðursett á árunum 1950 fram til 1970 og hefur sú gleymda trjátegund ekki verið útnefnd áður. Athöfnin fer fram í skógarlundi sunnan við Mánaþúfu og hefst kl.16:00. Lundurinn er í eigu Skógræktarfélags Skagfirðinga.

Dagskrá:

  1. Skagfirska sveitin „Vorvindar glaðir“ flytur nokkur vel valin lög.
  2. Ávarp: Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands.
  3. Ávarp: Ragnheiður Guðmundsdóttir, formaður Skógræktarfélags Skagfirðinga.
  4. Mæling á Tré ársins – heimamaðurinn Johan Wilhelm Holst.
  5. Afhending viðurkenningarskjals.
  6. Ávarp: Hafberg Þórisson, styrktaraðili Trés ársins.
  7. Veitingar í boði Skógræktarfélags Íslands – Hótel Varmahlíð.

Tónlist leikin af fingrum fram.

Allir velkomnir!

Styrktaraðili Tré ársins er Lambhagi ehf.

Google-tengill: https://maps.app.goo.gl/zPWxz4CuvyeZpGc

Aðalfundi Skógræktarfélags Íslands 2024 lokið

Með Fréttir

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2024 var haldinn í Neskaupstað dagana 30. ágúst til 1. september og voru Skógræktarfélag Neskaupstaðar, Skógræktarfélag Reyðarfjarðar og Skógræktarfélag Eskifjarðar sameiginlega gestgjafar fundarins.

Fundurinn hófst föstudagsmorguninn 30. ágúst með ávarpi Jónatans Garðarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands og síðan tóku við hefðbundin aðalfundarstörf. Eftir hádegi héldu formenn gestgjafafélaganna kynningu á sínum félögum og að því loknu var haldið í vettvangsferð, þar sem heimsóttur var skógarlundur hjá Skógræktarfélagi Reyðarfjarðar og fundarfólk fékk einnig kynningu á viðarvinnslu hjá Tandrabergi á Eskifirði.

Laugardaginn 31. ágúst var boðið upp á fræðsluerindi og vettvangsferð síðdegis þar sem haldið var í Hjallaskóg, sem Skógræktarfélag Neskaupstaðar hefur ræktað upp og skoðaður skógarteigur við Kirkjumel. Um kvöldið var komið að hátíðarkvöldverði, þar sem Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra flutti ávarp. Þar voru einnig sex félagar úr hópi gestgjafanna heiðraðir og voru það Kristinn Ólafur Briem, Guðrún Jóhanna Kjartansdóttir og Ásmundur Ásmundsson frá Skógræktarfélagi Reyðarfjarðar og Auður Bjarnadóttir, Bjarni Aðalsteinsson, Sigurborg Hákonardóttir og Benedikt Sigurjónsson frá Skógræktarfélagi Neskaupstaðar, en þess má til gamans geta að Auður er elsti félagi Skógræktarfélags Neskaupstaðar, 98 ára að aldri.

Á sunnudegi var aftur komið að formsatriðum aðalfundar, afgreiðslu reikninga og stjórnarkjöri. Úr stjórn gengu Þuríður Yngvadóttir, Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar, Jens B. Baldursson, Skógræktarfélagi Akraness og Berglind Ásgeirsdóttir, Skógræktarfélagi Suðurnesja. Ný í stjórn voru kosin Hrefna Hrólfsdóttir, Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar, Sverrir Bollason, Skógræktarfélagi Reykjavíkur og Pavle Estrajher, Skógræktarfélagi Borgarfjarðar. Aðrir sem eiga sæti í stjórn eru Jónatan Garðarsson, Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar, Aðalsteinn Sigurgeirsson, Skógræktarfélagi Reykjavíkur, Nanna Sjöfn Pétursdóttir, Skógræktarfélagi Bíldudals og Páll Ingþór Kristinsson, Skógræktarfélagi Austur-Húnvetninga.

Einnig voru samþykktar breytingar á lögum félagsins og skipulagsskrá Landgræðslusjóðs, með hliðsjón af sameiningu Skógræktarinnar og Landgræðslunnar í nýja stofnun, Land og skóg.

Sjö tillögur að ályktunum aðalfundar voru einnig samþykktar:

1. Lúpína

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn í Neskaupstað dagana 30. ágúst til 1. september 2024, skorar á Land og skóg að hefja rannsóknir til að styðja við gerð raunhæfra reglna um notkun lúpínunnar og hefja á ný framleiðslu, notkun og sölu á lúpínufræi ásamt tilheyrandi Rizobium smiti.

2. Grindavíkurlundir

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn í Neskaupstað dagana 30. ágúst til 1. september 2024, hvetur skógræktarfélög á suðvesturhorni landsins til að koma á fót „Grindavíkurlundum“ á sínu starfssvæði þar sem félagar úr Skógræktarfélagi Grindavíkur og aðrir Grindvíkingar fái svæði til ræktunar.

3. Lausaganga búfjár

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn í Neskaupstað dagana 30. ágúst – 1. september 2024, hvetur ríki og sveitarfélög til þess að fylgja eftir vörsluskyldu búfjár.

4. Styrkir til útivistarskóga

Aðalfundur Skógræktarfélag Íslands, haldinn í Neskaupstað dagana 30. ágúst til 1. september 2024, hvetur matvælaráðherra til að hlutast til um að komið verði á sérstöku styrkjarkerfi fyrir uppbyggingu, grisjun og umhirðu útivistar- og lýðheilsuskóga. Með aukinni umhirðu eykst gildi skóganna til útvistar og notkun eykst. Raunverulegur kostnaður við þessa vinnu er margfaldur á við þær fjárhagslegu tekjur sem af skógunum eru og skógræktarfélög hafa ekki bolmagn til að standa undir þeim kostnaði. Ávinningur af þessum skógum er hins vegar alls samfélagsins.

5. Starfshópur skógræktarfélaga

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2024 felur stjórn að hefja án tafar stefnumörkunarvinnu í samvinnu við aðildarfélög þar sem hlutverk og markmið félagsins verða brýnd. Taka verður tillit til breytinga sem eru að verða á þróun skóga og samfélags.

6. Upplýsingaróreiða gagnvart skógrækt

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn í Neskaupstað dagana 30. ágúst til 1. september 2024, hvetur vísindamenn með akademískar kennslustöður við innlenda háskóla til þess að vanda orðræðu sína opinberlega og í fjölmiðlum. Gæta verður hlutlægni og forðast bæði tilhæfulausa sleggjudóma og að vísindalegri þekkingu og eigin skoðunum sé blandað saman. Til að minnka upplýsingaóreiðu á útgangspunkturinn alltaf að vera gagnreynd vísindaleg þekking eins og hún birtist í niðurstöðum ritrýndra rannsókna.

7. Rannsóknir á losun vegna jarðvinnslu

Fyrir upplýsta umræðu um áhrif jarðvinnslu á kolefnisbúskap vantar frekari rannsóknir á málefninu hér á landi. Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands, haldinn í Neskaupstað dagana 31. ágúst.-1. september 2024, hvetur Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Matvælaráðuneytið, Landbúnaðarháskóla Íslands og Land og Skóg til að forgangsraða rannsóknum á losun kolefnis vegna jarðvinnslu.