Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

febrúar 2019

Nýr samningur um Landgræðsluskóga undirritaður

Með Skógræktarverkefni

Nýr samningur um Landgræðsluskóga var undirritaður mánudaginn 11. febrúar og felur hann í sér áframhaldandi stuðning ríkisins við verkefnið, sem hefur það að markmiði, eins og segir í samningum „að græða lítt og ógróið land með fjölbreyttum skógum og stuðla þannig að ræktun skóga til útivistar fyrir almenning, endurheimt vistkerfa og eflingu líffræðilegrar fjölbreytni og framkvæmd stefnu íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum, sem og að vinna að framkvæmd laga um skógrækt og laga um landgræðslu“.

Skrifuðu Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands undir samninginn, ásamt Árna Bragasyni landgræðslustjóra og Aðalsteini Sigurgeirssyni, staðgengli skógræktarstjóra, en Landgræðslu ríkisins og Skógræktinni er falið faglegt eftirlit með framkvæmd verkefnisins samkvæmt samningnum.

Landgræðsluskógaverkefnið hófst árið 1990 og var hleypt af stokkunum í tilefni 60 ára afmælis Skógræktarfélags Íslands, í samvinnu skógræktarfélaganna í landinu, Skógræktar ríkisins, Landgræðslu ríkisins og þáverandi landbúnaðarráðuneytis. Skógræktarfélag Íslands sér um stjórn verkefnisins, en skógræktarfélög um land allt sjá um framkvæmd þess á hverjum stað, svo sem gróðursetningu og umhirðu. Þinglýstir samningar eru gerðir um öll svæði sem gróðursett er í.

Nýi samningurinn gildir til næstu fimm ára og felur í sér 45-55 milljón króna árlegt framlag til verkefnisins, alls 260 milljónir yfir tímabilið.

landskog-undirritun

F.v. Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Aðalsteinn Sigurgeirsson, staðgengill skógræktarstjóra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Árni Bragason landgræðslustjóri við undirritun samningsins (Mynd: BJ).