Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

júní 2012

Skógræktarfélag Íslands og skátar undirrita samning um Úlfljótsvatn

Með Skógargöngur

Skógræktarfélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta og Skátasamband Reykjavíkur undirrituðu í dag eignaskipta, afnota- og réttindasamning um jörðina Úlfljótsvatn, sem Skógræktarfélagið og skátar keyptu af Orkuveitu Reykjavíkur á síðast liðnu ári.

Í samningnum er kveðið nánar um skiptingu jarðarinnar og fasteigna á henni á milli þessara aðila, auk þess sem samningurinn leggur drög að sameiginlegri framtíðarsýn eigendanna.

Samninginn undirrituðu Ólafur J. Proppé fyrir hönd Bandalags íslenskra skáta, Arthur Pétursson fyrir hönd Skátasambands Reykjavíkur og Magnús Gunnarsson og Brynjólfur Jónsson fyrir hönd Skógræktarfélags Íslands.

 

undirskrift-skatar

Brynjólfur Jónsson, Arthur Pétursson, Ólafur J. Proppé og Magnús Gunnarsson (Mynd: RF).

Skógarganga í Álfholtsskógi

Með Skógargöngur

Skógræktarfélag Skilmannahrepps stendur fyrir skógargöngu í Álfholtsskógi þriðjudaginn 26. júní og hefst hún kl. 20:00.

Upphafsstaður er í Furuhlíð. Beygt er af þjóðvegi 1 inn á Akranesveg og tekinn fyrsti afleggjari til vinstri.
 
Gengið verður um gróna stíga og skoðaður vöxtur trjáa.

Kaffi á eftir í Furuhlíð.

Allir velkomnir.

Skógar-, fræðslu- og upplifunarganga hjá Skógræktarfélagi Kópavogs

Með Skógargöngur

Skógræktarfélag Kópavogs efnir til dags Náttúruupplifunar og útivistar þriðjudagskvöldið 26. júní undir leiðsögn Gunnars Gunnarssonar íþrótta- og heilsufræðings.

Hvar er betra að rækta heilsuna en í undir berum himni í fallegu umhverfi? Gunnar ætlar að leiða þátttakendur á vit nýrra ævintýra og tengja saman náttúruupplifun og útivist til þess að auka andlega og líkamlega vellíðan og um leið styrkja bæði sjálfsmynd og sjálfstraust.

Dagskráin er ætluð jafnt börnum sem fullorðnum. Hafið gjarnan með smá nesti og eitthvað að drekka.

Lagt verður af stað frá aðalinngangi Guðmundarlundar klukkan 19:30.

Nánari upplýsingar á heimasíðu Skógræktarfélags Kópavogs (hér).

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar: Skógarganga í Seldal

Með Skógargöngur

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar efnir til göngu um landgræðsluskóga-svæði félagsins í Seldal fimmtudagskvöldið 21. júní kl. 20.00. Lagt verður af stað frá bílastæðinu við vesturenda Hvaleyrarvatns þar sem áður stóð hús á vegum bæjarins.

Skógrækt í Seldal hófst árið 1990 sama ár og landgræðsluskóga-átakið hófst á landsvísu.

Nánari upplýsingar má nálgast í síma félagsins: 555-6455.

Skógarganga hjá Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar 19. júní

Með Skógargöngur

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar stendur fyrir skógargöngu um nýja stíginn í Æsustaðahlíð. Gott útsýni er yfir Mosfellsdalinn frá stígnum og ætlar Bjarki Bjarnason að fræða göngufólk um það sem fyrir augu ber. Mæting er við planið við kartöflugarðana í Skammadal og hefst gangan kl. 20:00.

Léttar veitingar verða að göngu lokinni.

Allir velkomnir.

Skógræktardagur í Reykholti 16. júní

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Borgarfjarðar efnir til skógardags laugardaginn 16. júní í Reykholti í Borgarfirði. Skógræktarfélagið stendur fyrir ýmsum uppákomum á árinu og hvetur almenning til þátttöku í mótun umhverfisins, til að fegra það og bæta.
 
Á laugardaginn er ætlunin að sjálfboðaliðar taki þátt í að gróðursetja nokkur þúsund trjáplöntur í skóginum við Reykholt. Hann er ört vaxandi og vænlegur til að bæta veðurskilyrði til búnaðar og indælla mannlífs í Reykholtsdal innan fárra ára ásamt fleiri skógum sem bændur hafa verið að hlúa að og rækta undanfarin ár. Byrjað verður að gróðursetja kl. 16 á laugardaginn og stjórnar Friðrik Aspelund þessum starfsdegi sem Skógræktarfélag Borgarfjarðar efnir til og hvetur samborgarana til að taka þátt.

Stjórn Skógræktarfélags Borgarfjarðar

Atvinnuátak í Garðabæ

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

100 ungmenni fá vinnu við skógrækt, stígagerð og umhirðu á umsjónarsvæðum Skógræktarfélags Garðabæjar í sumar. Störfin verða aðallega unnin á útivistarsvæðunum í Smalaholti og Sandahlíð. Atvinnuátakið er samstarfsverkefni Skógræktarfélags Íslands, Garðabæjar og Skógræktarfélags Garðabæjar. Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Barbara Stanzeit, gjaldkeri Skógræktarfélags Garðabæjar, undirrituðu samning um atvinnuátakið í Smalaholti föstudaginn 15. júní. Þetta er fjórða árið í röð sem slíku atvinnuátaki er hleypt af stokkunum í Garðabæ og líkt og fyrri ár jafngildir samningurinn í ár tæpum 17 ársverkum (200 mannmánuðum).  Á þessum tíma hafa því verið sköpuð tæp 67 ársverk við skógrækt og umhirðu í Garðabæ.

Samningurinn er hluti af atvinnuátaki Skógræktarfélags Íslands sem nær um land allt. Í nafni átaksins hafa verið sköpuð um 50 ársverk á hverju ári síðan 2009 og stefnir í að svipaður fjöldi starfa verði til á þessu ári. Líkt og fyrri ár verða stærstu verkefnin að þessu sinni í Reykjavík, Garðabæ og Kópavogi.

atvatak-gbr

Magnús Gunnarsson, Gunnar Einarsson og Barbara Stanzeit handsala samninginn (Mynd: RF).

Minningarlundur um Útey á Íslandi

Með Ýmislegt

Fyrstu trén í minningarlundi um fórnarlömbin á Útey og í Osló í fyrrasumar voru gróðursett í gær við Norræna húsið.

Lundurinn er staðsettur á jaðri friðaða svæðisins í Vatnsmýrinni. Alls verða gróðursett átta reynitré í hring, sem tákna Norðurlöndin fimm ásamt sjálfsstjórnarhéruðunum þremur (Færeyjar, Álandseyjar og Grænland).  Inni í hringnum verða bekkir og minningarsteinn, með áletrun. Í kringum hringinn verður 77 birkitrjám plantað – einu fyrir hvern þann sem missti lífið í árásunum.

Það voru feðginin Siri Marie Seim Sønstelie og Erik H. Sønstelie, sem settu niður fyrstu tvö birkitrén, en þau eru komin til Íslands til að kynna bók sína „Ég er á lífi, pabbi“, en Siri Marie var í Útey þegar árásin var gerð. Minningarlundurinn verður svo formlega vígður á Menningarnótt í sumar.

Minningarlundurinn er samstarfsverkefni Skógræktarfélags Reykjavíkur, Norræna félagsins, Háskóla Íslands og Norræna hússins.

 

Myndir frá gróðursetningu eru á Fésbókarsíðu Skógræktarfélags Íslands (hér).