Líf og fjör verður í Kjarnaskógi á Akureyri laugardaginn 5. júlí þegar þar verður í fyrsta sinn haldinn Skógardagur Norðurlands. Gestir fá að fræðast um skógrækt og skógarnytjar, sjá skógarhöggsmenn að verki og skoða tækjabúnað þeirra en einnig verður í boði leiksýning, ratleikur, skákmót og fleira.
Það eru Félag skógarbænda á Norðurlandi, Norðurlandsskógar, Skógfræðingafélag Íslands, Skógrækt ríkisins, Skógræktarfélag Eyfirðinga, og gróðrarstöðin Sólskógar sem taka höndum saman um þennan viðburð. Deginum er ætlað að vekja athygli á skógum og skógrækt ásamt því fjölbreytta gagni og nytjum sem af skógunum má hafa.
Dagskráin hefst kl. 13:00 á leiksýningu fyrir alla fjölskylduna. Frumsýnt verður verk sem verið hefur í undirbúningi síðustu vikur í hópi ungmenna í skapandi sumarstörfum á vegum Akureyrarbæjar. Spennandi verður að sjá útkomuna. Sýningin verður í hlýlegum hvammi skammt frá sólúrinu í Kjarnaskógi, þekktu og áberandi kennileiti þar.
Dagskráin fer öll fram þar í kring, til dæmis skógarhöggssýning þar sem sýnd verða handtökin við skógarhögg og þær vélar og búnaður sem notaður er við skógarhögg með handverkfærum. Sett verður upp sýning sem kallast „Frá fræi til fullunninnar vöru“ þar sem fólk getur áttað sig á umbreytingunni úr pínulitlu fræi yfir í hráefni eins og trjáboli og planka. Einnig verða til sýnis skógarvélar og annar búnaður.
Meðan skipulögð dagskrá stendur yfir (kl. 13:00-16:00) verður hægt að fara í ratleik um Kjarnaskóg og taka þátt í skákmóti og að sjálfsögðu verður logandi eldur og hitað ketilkaffi, steiktar lummur, grillað pinnabrauð og poppað sem er sérlega skemmtilegt að sjá gert yfir eldi úti í skógi.
Allir eru velkomnir á Skógardag Norðurlands við sólúrið í Kjarnaskógi. Gestum er bent á að leggja bílum sínum á aðalbílastæðum við veginn gegnum skóginn og ganga upp eftir ef þess er nokkur kostur.
Sólúrið í Kjarnaskógi (Mynd:RF).
Nýlegar athugasemdir