Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

október 2010

Fuglavernd: Fuglaskoðun í Fossvogskirkjugarði

Með Ýmislegt

Fuglavernd stendur fyrir fuglaskoðun í Fossvogskirkjugarði sunnudaginn 31. október. Lagt verður af stað frá bílastæðinu við Fossvogskirkju kl. 14. Edward Rickson fuglaskoðari með meiru mun leiða gönguna. Veðurspáin er ágæt og mikið fuglalíf í garðinum um þessar mundir.

Upplagt að kíkja á haustliti og ber á trjánum í leiðinni!

Munið eftir að taka sjónaukann með.

Allir velkomnir.

Opið hús skógræktarfélaganna – Skógarferð til Færeyja

Með Fræðsla

Opið hús skógræktarfélaganna að hausti verður fimmtudagskvöldið 7. október  og hefst kl. 20:00, í fundarsal á jarðhæð Arion-banka, Borgartúni 19. Gengið er inn um aðaldyr að austanverðu og er salurinn svo á vinstri hönd.

Sagt verður í máli og myndum frá skógarferð til Færeyja, sem Skógræktarfélag Íslands stóð fyrir nú í haust.  Ferðasagan verður rakin og fjallað um skóg- og trjárækt í Færeyjum.  Upplagt tækifæri til að kynnast minna þekktri hlið á eyjunum!

Skógræktarfélagið hefur um árabil staðið fyrir vinsælum kynnisferðum til annarra landa. Þetta hafa verið fjölsóttar ferðir, þar sem leið ferðalanga liggur oft um óhefðbundnar slóðir, fela í sér mikla náttúruskoðun og góða leiðsögn.

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

oh-fo
Skógarreiturinn Úti í Gröv (Mynd: RF).

Jólaskógurinn í Brynjudal – byrjað að bóka!

Með Ýmislegt

Eins og undanfarin ár tekur Skógræktarfélag Íslands á móti skipulögðum hópum sem efna til fjölskylduferða í jólatrjáaskóginn í Brynjudal. Í flestum tilvikum er um að ræða fyrirtæki eða starfsmannafélög þeirra, sem mörg hver koma á hverju ári og er heimsókn í jólaskóginn orðinn ómissandi þáttur í jólahaldinu hjá mörgum.

Byrjað er að taka niður bókanir fyrir jólin í ár, en tekið verður á móti hópum helgarnar 4.-5., 11.-12. og 18.-19. desember, auk  sunnudagsins 28. nóvember. Athugið að hér gildir fyrstur kemur – fyrstur fær.  Nú þegar eru nokkrir tímar fullbókaðir, þannig að það er betra að bóka dag og tíma fyrr frekar en síðar til að vera viss um að fá tíma sem hentar.

Til að bóka heimsókn eða fá nánari upplýsingar hafið samband við Skógræktarfélag Íslands  í síma 551-8150 eða á netfangið skog (hjá) skog.is.

brynjudalur-boka