Skip to main content
Flokkur

Skógargöngur

Boðið heim í skóg – Skemmtun, fræðsla og upplifun í skógi. Viðburðastjórnunarnámskeið fyrir skógræktarfólk

Með Skógargöngur

Námskeiðið er ætlað áhugafólki um skógrækt, skógareigendum og starfsfólki í skógrækt og öðrum þeim sem hafa áhuga á að taka á móti hópum í skóglendi.

Á námskeiðinu verður fjallað um skipulagningu þess að bjóða fólki heim í skóg, reynslu af skógarviðburðum hér á landi, eins og skógardögum, móttöku hópa í skógi og samstarfi um slíka viðburði, skipulag og uppsetningu dagskrár sem höfðar til mismunandi markhópa, skipulag og stjórnun, greiningu áhættuþátta, verkefnaval og kynningu.

KennararIngólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga, Eygló Rúnarsdóttir kennari Háskóla Íslands, Þór Þorfinnsson, skógarvörður Hallormsstað og Ólafur Oddsson, fræðslustjóri Skógræktarinnar.

Tími: Laugardaginn 28. apríl. kl. 9:00-16:00 í Gömlu Gróðrarstöðinni, Akureyri.

Verð: 17.000 kr. (Kaffi og hádegissnarl og gögn innifalin í verði).

Skráningarfrestur er til 23. apríl 2018 og má skrá sig á heimasíðu Landbúnaðarháskóla Íslands (hér).

Námskeiðið er sameiginlegt verkefni samstarfsaðila um skógarfræðslu þ.e. Landbúnaðarháskóla Íslands, Landgræðslunnar, Landssamtaka skógareigenda, Skógræktarfélags Íslands og Skógræktarinnar.

Aðalfundur Skógræktarfélags Borgarfjarðar 2018

Með Skógargöngur

Aðalfundur Skógræktarfélags Borgarfjarðar verður haldinn í Alþýðuhúsinu Borgarnesi næstkomandi laugardag 7. apríl og hefst kl. 13:00. Á dagskrá verða hefðbundin aðalfundarstörf; skýrsla flutt um liðið starfsár, reikningar skýrðir og bornir undir atkvæði. Að loknum  aðalfundarstörfum flytur Óskar Guðmundsson, formaður félagsins, stutt erindi um fyrstu hrísluna – upphaf skógræktar í Reykholtsdal sem nær allt aftur til 19. aldar.

Útboð: Skógarplöntur fyrir Skógræktarfélag Íslands

Með Skógargöngur

Nýverið var samningur milli Skógræktarfélags Íslands og Umhverfis- og auðlindaráðuneytis um Landgræðsluskóga framlengdur til bráðabirgða um eitt ár. Jafnframt er unnið að framlengingu til lengri tíma í tengslum við  fjármálaáætlun.

Í ljósi þessa hefur plöntuframleiðsla á plöntum til afhendingar vorið 2019 verið boðin út. Nánari upplýsingar um útboðið má finna á heimasíðu Ríkiskaupa: https://www.rikiskaup.is/utbod/utb/20714

Jólatrjáasölur skógræktarfélaganna síðustu daga fyrir jól

Með Skógargöngur

Það eru enn nokkur skógræktarfélög sem verða með jólatré til sölu nú síðustu daga fyrir jól. Nánari upplýsingar á www.skog.is/jolatre.

Skógræktarfélag Árnesinga, á Snæfoksstöðum dagana 21. – 23. desember, kl. 11-16.

Skógræktarfélag Eyrarsveitar, fram á Þorláksmessu.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar, í Þöll við Kaldárselsveg dagana 18. – 22. desember kl. 10-18.

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar, í Hamrahlíð alla daga til jóla kl. 12-18.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar og Krabbameinsfélags Hafnarfjarðar: Kvöldganga

Með Skógargöngur

Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar bjóða til skógargöngu þriðjudaginn 24. október kl. 19:30. Safnast verður saman við Gróðrarstöðina Þöll við Kaldárselsveg og þaðan gengið um skógarsvæði Skógræktarfélagsins.

Við upphaf göngunnar flytur Anna Borg, formaður Krabbameinsfélags Hafnarfjarðar, stutt ávarp og að því loknu mun Steinar Björgvinsson skógfræðingur vera með leiðsögn um skóginn. Gert er ráð fyrir að gangan taki um klukkutíma og að henni lokinni verður boðið upp á heitt súkkulaði og meðlæti í húsakynnum Þallar.

Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar og Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hvetja sem flesta til að mæta í skóginn. Göngufólk er beðið að taka með sér ljósfæri þar sem skuggsýnt er orðið.

Skógarganga – ljósið í myrkrinu!

Með Skógargöngur

Skógræktarfélag Borgarfjarðar heldur ljósagöngu um skógarstíga í Reykholti á laugardaginn 28. október kl. 18:00. Gangan hefst við Höskuldargerði. Þátttakendur eru hvattir til að hafa með sér luktir, kerti eða annað ljós til að glöggva sig á aðstæðum og lýsa upp forvitnilega grósku á leiðinni. Auk þess munu heimamenn, sr. Geir Waage og Óskar Guðmundsson í Véum, gera tilraun til að bregða birtu yfir óljós atriði í myrkviðum skógarins. Fyrir sumum mun þetta kannski verða eina ljósglætan þennan dag – kjördag!

Að lyktum verður kveiktur varðeldur og boðið upp á ljúffenga skógarsnúða og ketilkaffi. Miðað er við að fólk komist heim fyrir kosningavöku í sjónvarpinu.

Sveppaganga hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar

Með Skógargöngur

Helena Marta Stefánsdóttir náttúrufræðingur verður leiðsögumaður í sveppagöngu á vegum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar fimmtudaginn 14. september kl. 18:00. Lagt verður af stað frá vesturenda Hvaleyrarvatns þar sem hús bæjarins stóð áður. 

Takið með ykkur körfu, hníf og sveppakver ef þið eigið. Allir velkomnir. 

Nánari upplýsingar í síma 555-6455 eða 894-1268 (Steinar).

Skógræktarfélag Eyfirðinga: Skógarganga – reynitré

Með Skógargöngur

Fimmtudaginn 29. júní verður skógarganga í Lystigarðinum á Akureyri í samstarfi Skógræktarfélags Eyfirðinga og Lystigarðsins. Í göngunni verður kastljósinu beint að reyniættkvíslinni (Sorbus) enda eru margar tegundir af reyni í garðinum. Gangan hefst kl. 18:00 og er áætlað að standi til kl.19:30.

 

Aðgangur ókeypis og allir velkomnir!

 

Sjá Facebook-síðu viðburðar: https://www.facebook.com/events/470378946655124/permalink/470390156654003/

Aðalfundur Skógræktarfélags Borgarfjarðar 2017

Með Skógargöngur

Aðalfundur Skógræktarfélags Borgarfjarðar verður haldinn í hátíðarsalnum í Reykholti laugardaginn 1. apríl kl. 13.

Dagskrá aðalfundar

  • Skýrsla stjórnar- og starfsáætlun. Óskar Guðmundsson formaður
  • Reikningar – Laufey Hannesdóttir gjaldkeri.
  • Kosningar
  • Önnur mál
  • Erindi: Vindfall í skógum,Valdimar Reynisson, skógarvörður Skógræktarinnar í Skorradal

Allir velkomnir!