Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

apríl 2018

Íslendingar mjög hlynntir skógrækt

Með Ýmislegt

Vilja að skógrækt verði nýtt sem vopn í baráttunni við loftslagsbreytingar

Langflestir landsmenn eru mjög jákvæðir fyrir skógrækt og þeim fjölgar sem telja að auka beri skógrækt til að binda koltvísýring og hamla gegn loftslagsbreytingum. Jákvæðastir mælast ungir Íslendingar, háskólamenntaðir og íbúar nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur.

Gallup gerði netkönnun dagana 8.-21. mars þar sem spurt var tveggja spurninga um skógrækt. Þessar tvær spurningar voru samhljóða tveimur spurningum úr viðamikilli könnun á viðhorfum landsmanna til skógræktar sem Gallup lagði fyrir þjóðina árið 2004. Að könnuninni nú standa Skógræktin, Skógræktarfélag Íslands og Landssamtök skógareigenda.

Spurningarnar sem spurt var nú voru þessar:

Spurning 1. Telur þú að skógar hafi almennt jákvæð eða neikvæð áhrif fyrir landið?
Spurning 2. Hversu mikilvægt eða lítilvægt finnst þér að binda kolefni í skógum?

Landsmenn jákvæðir sem fyrr

Í stuttu máli gefa svörin til kynna mjög svipaðar niðurstöður og í könnuninni 2004. Langflestir eru jákvæðir þótt heldur fleiri hafi fallið í jákvæðasta flokkinn 2004 en nú. Samanlagt eru mjög jákvæðir og frekar jákvæðir þó álíka margir og voru 2004.

Athyglisvert er hins vegar að sjá að þeim sem voru neikvæðir fækkar marktækt þegar kemur að spurningunni um bindingu kolefnis. 7,3% svarenda voru neikvæðir fyrir slíkum hugmyndum 2004 en aðeins 3,1% nú. Stuðningur við aukna skógrækt til kolefnisbindingar hefur samkvæmt því aukist meðal þjóðarinnar.

Ef litið er til þjóðfélagshópa mælist lítill munur í könnuninni nú. Þó er ungt fólk, háskólamenntaðir og fólk búsett í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar heldur jákvæðara gagnvart skógum en aðrir landsmenn.

Nær enginn telur áhrifin mjög neikvæð

Ef litið er nánar á tölurnar telja 62% svarenda að skógar hafi almennt mjög jákvæð áhrif fyrir landið og 31% telur að áhrifin séu frekar jákvæð. Samanlagt telja því 93% svarenda að skógrækt hafi almennt jákvæð áhrif fyrir landið. 5,4% eru hlutlaus en aðeins 0,1% telur áhrifin mjög neikvæð.

Svipaða sögu segja svörin við spurningunni um kolefnisbindinguna. Aðspurð segja 51,6 prósent svarenda mjög mikilvægt að binda kolefni í skógum og 35% frekar mikilvægt. Hlutlausir eru 10,3% (hvorki né) og einungis 3% telja þetta frekar eða mjög lítilvægt. Ef tölurnar nú eru bornar saman við könnunina 2004 kemur í ljós að þeim sem telja kolefnisbindingu með skógrækt frekar eða mjög lítilvæga hefur fækkað að mun, úr 7,9% í 3,1%. Samtals telja 86,6% svarenda að þetta sé frekar eða mjög mikilvægt en sambærileg tala frá 2004 var 83,8% sem er innan skekkjumarka.

Unga fólkið jákvæðast

Nokkur munur sést eftir búsetu á fjölda þeirra sem telja skógrækt mjög jákvæða og að kolefnisbinding með skógrækt sé mjög mikilvæg. Mestur stuðningur við skógrækt er í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur þar sem 70% telja skógrækt mjög mikilvæga á móti 64% í Reykjavík og 54% í öðrum sveitarfélögum landsins. Eindreginn stuðningur við skógrækt eykst eftir því sem menntun fólks er meiri og eins eru ungir Íslendingar á aldrinum 18-34 ára hlynntastir skógrækt af öllum landsmönnum.

Í úrtakinu nú voru 1.450 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr viðhorfahópi Gallups. Alls svöruðu 814 manns spurningunum tveimur en 636 svöruðu ekki. Þátttökuhlutfallið er því 56,1 prósent. Helmingur þátttakenda var spurður fyrri spurningarinnar á undan og hinn helmingurinn seinni spurningarinnar á undan. Ekki sást munur á meðaltölum eftir röðun spurninganna.

Skrifstofa Skógræktarfélags Íslands lokuð 10. – 12. apríl

Með Ýmislegt

Skrifstofa Skógræktarfélags Íslands verður lokuð eftir hádegi 10. apríl og allan daginn dagana 11. – 12. apríl, þar sem starfsfólk Skógræktarfélags Íslands verður á Fagráðstefnu skógræktar á Akureyri. Skrifstofan opnar svo aftur á venjulegum tíma föstudaginn 13. apríl.

Ef nauðsynlega þarf að ná í starfsmann má finna netföng og farsímanúmer starfsfólks hér á heimasíðunni.

Aðalfundur Skógræktarfélags Akraness 2018

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur Skógræktarfélags Akraness verður haldinn mánudaginn 9. apríl 2017 kl. 20:00 í Grundaskóla.

Dagskrá

  1. Venjuleg aðalfundarstörf.
  2. Verkefnið Líf í lundi 23. júní 2018. Þátttaka Skógræktarfélags Akraness í verkefninu. Framsaga: Katrín og Reynir.
  3. Verkefnaskrá ársins 2018. Félagið fær meira land til skógræktar í Slögu og við þjóðveginn. Einnig fær félagið væntanlega sjálfboðaliða til að aðstoðar, m.a. að útbúa aðstöðu fyrir nýjar plöntur í Slögu (vatnsveita, pallur).
  4. Önnur mál.

Kaffiveitingar.

Málstofa: Skógurinn skemmir útsýnið en hvað gerir hann annað fyrir okkur?

Með Fundir og ráðstefnur

Skógræktar- og landgræðslufélagið Landbót, í samstarfi við Vopnafjarðarhrepp og Austurbrú, standa fyrir málstofu á Vopnafirði í tilefni Alþjóðlegs dags skóga 21. mars

Málstofan verður haldin í Miklagarði á Vopnafirði laugardaginn 7. apríl kl. 13:30-16:30.

 

Dagskrá

Setning málstofu: Else Möller, verkefnistjóri Austurbrúar og formaður Landbótar.

Erindi
1. Lárus Heiðarson – skógfræðingur – Skógræktin
2. Einar Gunnarsson – skógfræðingur – Skógræktarfélag Íslands
3. Guðrún Schmidt – fræðslufulltrúi – Landgræðslan

Kl. 15:00 Hlé og kaffi
4. Anna Berg Samúelsdóttir – Umhverfisstjóri Fjarðarbyggðar
5. Magnús Már Þorvaldsson – fulltrúi Vopnafjarðarhrepps
6. Umræður (fundastjóri Björn Halldórsson)

Léttar veitingar og allir velkomnir!

Stjórn Landbótar

Aðalfundur Skógræktarfélags Borgarfjarðar 2018

Með Skógargöngur

Aðalfundur Skógræktarfélags Borgarfjarðar verður haldinn í Alþýðuhúsinu Borgarnesi næstkomandi laugardag 7. apríl og hefst kl. 13:00. Á dagskrá verða hefðbundin aðalfundarstörf; skýrsla flutt um liðið starfsár, reikningar skýrðir og bornir undir atkvæði. Að loknum  aðalfundarstörfum flytur Óskar Guðmundsson, formaður félagsins, stutt erindi um fyrstu hrísluna – upphaf skógræktar í Reykholtsdal sem nær allt aftur til 19. aldar.