Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

september 2014

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar: Kvöldganga í skógi

Með Skógargöngur

Þriðjudaginn 23. september standa Skógræktarfélag Hafnarfjarðar og Krabbameinsfélag Hafnarfjarðar fyrir kvöldgöngu í skógi. Gengið verður frá gróðrarstöðinni Þöll við Kaldárselsveg kl. 19:00 undir leiðsögn Steinars Björgvinssonar. Á leiðinni mun sr. Jón Helgi Þórarinsson flytja hugvekju og Jóhann Guðni Reynisson flytur frumort ljóð í tilefni þessarar göngu.

Þátttakendur eru hvattir til að hafa með sér viðeigandi ljósfæri (s.s. vasaljós) og að göngu lokinni verður boðið upp á súkkulaði og kleinur í húsakynnum Þallar.

Skógardagur – Skógræktarfélagið Mörk 70 ára

Með Skógargöngur

Skógardagur Skógræktarfélagsins Merkur verður haldinn laugardaginn 20. september kl. 13:30.

Að þessu sinni skoðum við Landgræðsluskóginn á Stjórnarsandi. Mæting er við hliðið á Landgræðslugirðingunni að vestanverðu og síðan er fyrirhugað að ganga austur að Langabakka (um 30 mín.). Fyrir þá sem ekki treysta sér að ganga er boðið upp á akstur.

Í tilefni af 70 ára afmæli félagsins á árinu verður farið í stuttu máli yfir sögu félagsins. Við munum skoða skógræktina, grilla og hafa gaman saman.

Allir þeir sem tóku þátt í gróðursetningu á árum áður eru sérstaklega boðnir velkomnir.

Stjórn Skógræktarfélagsins Merkur.

Aðalfundur Skógræktarfélags V-Húnvetninga 2014

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur Skógræktarfélags V-Húnvetninga verður haldinn í Hlöðunni, veitingahúsi á Hvammstanga miðvikudaginn 17. september n.k.  kl 20:30. 

Auk venjulegra aðalfundarstarfa mun Bergsveinn Þórsson, svæðisstjóri Norðurlandsskóga í Húnavatnssýslum og Skagafirði, mæta og ræða um skógrækt og trjátegundir og sýna myndir frá starfseminni á liðnum árum.

Nýir félagar velkomnir í félagið og til fundarins.

Stjórn Skogræktarfélags V-Húnvetninga

Fuglavernd: Glókollaferð á Degi íslenskrar náttúru

Með Skógargöngur

Þriðjudaginn 16. september verður Fuglavernd með fuglaskoðun í kirkjugarðinum í Fossvogi  í tilefni Dags íslenskrar náttúru. Skoðaðir verða glókollar og jafnvel barrfinkur og krossnefir. Þó þetta séu ekki einkennisfuglar íslenskar fuglafánu þá hefur glókollurinn numið hér land, er staðfugl og spjarar sig ágætlega þrátt fyrir að vera minnsti fugl Evrópu, krossnefir hafa verpt hér síðan 2008 og barrfinkan er árlegur flækingur og líklegur landnemi.  

Mæting kl. 17:30 á bílastæðinu við Fossvogskirkju en gangan tekur um klukkutíma. Edward Rickson fuglaskoðari með meiru leiðir gönguna. 

fuglavernd-glokollar

(Mynd: Eyþór Ingi Jónsson)


Skógarganga og grill

Með Skógargöngur

Mosfellsbær, Skógræktarfélag Mosfellsbæjar og Mosverjar bjóða til skógargöngu og grillveislu við Hafravatn fyrir alla fjölskylduna í tilefni af Degi íslenskrar náttúru þann 16. september 2014.

Hjólað verður frá miðbæjartorgi Mosfellsbæjar kl. 17.00 að Hafravatni eftir malarvegi. 

Skógarganga frá Hafravatnsrétt við Hafravatn kl. 18.00 um skógarsvæðið í Þormóðsdal.

Grillveisla að lokinni göngunni við Sumargerði, hús Skógræktarfélags Mosfellsbæjar við Hafravatn.

Nánari upplýsingar á heimasíðu Skógræktarfélags Mosfellsbæjar: skogmos.net

Tré ársins 2014

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Íslands, í samstarfi við Arion banka, útnefnir evrópulerki (Larix decidua) við Arnarholt í Stafholtstungum Tré ársins 2014, við hátíðlega athöfn sunnudaginn 14. september kl. 14.

Boðið verður upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá. Allir velkomnir.

Skógræktarfélag Íslands útnefnir árlega Tré ársins. Er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land.


trearsins

(Mynd: Laufey B. Hannesdóttir)

Sjálfboðaliðadagur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar

Með Skógargöngur

Hinn árlegi sjálfboðaliður Skógræktarfélags Hafnarfjarðar verður laugardaginn 13. september kl. 10:00 – 12:00. Hist verður í Vatnshlíðinni norður af Hvaleyrarvatni. Þar er vegslóði ofan við Hvaleyravatnsveginn. Gróðursettur verður trjágróður til minningar um Hjálmar R. Bárðarson og Else Bárðarson.

Að gróðursetningu lokinni mun félagið bjóða upp á hressingu í bækistöðvum sínum við Kaldárselsveg (Þöll). Öll hjálp er vel þegin. Komið og takið þátt í góðra vina hópi.

Nánari upplýsingar í síma: 555-6455 eða 894-1268.

Þemadagur: ræktun jólatrjáa – flokkun og sala

Með Fræðsla

Skógræktarfélag Reykjavíkur, í samstarfi við Else Möller skógfræðing, stendur í ár fyrir röð námskeiða þar sem sérfræðinga fara ofan í saumana á mikilvægum atriðum í ræktun og umhirðu jólatrjáa. Er nú komið að þemadegi tengdum flokkun og sölu trjáa og verður hann haldinn fimmtudaginn 11. september kl.  9:30-16:00, á Elliðavatni í Heiðmörk.

Dagskrá:

Kl. 9:30-10:00 Sala jólatrjáa á Íslandi. Flokkun, gæðamál og söluaðferðir.
Kynning á dagskrá og viðfangsefni dagsins.
Else Möller skógfræðingur. 
Kl. 10:00-10:45 Sala jólatrjáa hjá Skógrækt ríkisins.
Hvernig fer sala jólatrjá fram hjá Skógrækt ríkisins. Flokkun, söluaðferðir og árangur.
Hreinn Óskarsson, skógfræðingur og skógarvörður á Suðurlandi. 
Kl. 10:45-11:00 Kaffi
Kl. 11:00-12:00 Sala íslenskra jólatrjáa hjá Blómavali.
Sölumál tengd íslenskum jólatrjám séð frá sjónarhóli sölumannsins.
Kristinn Einarsson, framkvæmdastjóri hjá Blómavali
Kl. 12:00-13:00 Hádegismatur
Kl. 13:0-13:30 Íslenskt flokkunarkerfi fyrir alla – hvernig á það að vera?
Tillögur til umræðu.
Else Möller skógfræðingur. 
Kl. 13:30-14:00 Kaffi
Kl. 14:00-15:30 Að velja og flokka jólatré fyrir næstu jól.
Hvenær og hvernig förum við að þessu? 
Farið í reiti í Heiðmörk með trjám sem eru tilbúin fyrir sölu og rætt um gæði og flokkun undir leiðsögn Gústafs Jarls Viðarssonar og Sævars Hreiðarssonar. 
Kl. 15:30-16:00 Kaffi og umræður.

Kostnaður fyrir daginn: 10.000 kr.

Upplýsingar og skráning fyrir 8. september:
Else Möller else.akur@gmail.com GSM: 867-0527
f.h.Skrf. Rvk gustafjarl@heidmork.is GSM: 856-0059