Skip to main content
Flokkur

Fræðsla

Skógræktarfélag Kópavogs: Fræðslufundur- Skaðvaldar í trjágróðri

Með Fræðsla

Skógræktarfélag Kópavogs boðar til fræðslufundar fimmtudaginn 6. desember kl. 20:00 og er fundurinn haldinn í Kiwanishúsinu að Smiðjuvegi 13a, Kópavogi.

Halldór Sverrisson, sérfræðingur í plöntusjúkdómum hjá Skógræktinni, verður frummælandi og fjallar um það sem efst er á baugi varðandi skaðvalda í trjágróðri.  Halldór er annar tveggja höfunda að bókinni „HEILBRIGÐI TRJÁGRÓÐURS – SKAÐVALDAR OG VARNIR GEGN ÞEIM“ sem út kom árið 2014 og vakti mikla athygli og fékk góðar viðtökur. Þetta er bók sem allir gróðurræktendur ættu að hafa á náttborðinu.

 

Félagar eru hvattir til þess að fjölmenna á fundinn og taka með sér gesti. Allir velkomnir!

 

Veitingar verða í boði félagsins.

 

Stjórn Skógræktarfélags Kópavogs

Áhugaverður fyrirlesari frá Kanada: harðgerðar tegundir og kynbætur

Með Fræðsla

Rick Durand heldur fyrirlestur um reynslu sína og aðferðir þriðjudaginn 4. september n.k. í fundarsal Garðyrkjufélags Íslands. Fyrirlesturinn hefst kl 19:30 og lýkur kl 22:00. Aðgangseyrir að fyrirlestri og fyrir veitingar er kr. 2.000.

Rick Durand er þróunarstjóri Bylands Nurseries í Kelowna, Bresku-Kólumbíu. Nokkrir félagar úr Garðyrkjufélaginu og skógræktarfélögunum heimsóttu hann í skógræktarferðinni til vesturhluta Kanada í fyrrahaust og hrifust af starfsreynslu hans og þekkingu.

Rick Durand er skógfræðingur að mennt og hefur einstaka reynslu af leitinni að harðgerum tegundum og kynbætur á þeim til ræktunar á harðbýlustu svæðum í sléttuhéruðum Kanada og Bandaríkjanna. Hann hefur rekið eigin ræktunarstöð (Prairie Shade Nursery/Prairie Shade Consulting Services), unnið í fjölda ára sem þróunarstjóri fyrir Jeffries Nurseries og nú Bylands Nurseries, sem einmitt sérhæfir sig í ræktun fyrir þessi svæði. Hann hefur skráð og kynnt í eigin nafni fjölda yrkja af trjám, runnum og ávaxtatrjám sem ætluð eru til ræktunar við hin erfiðustu veðurfarsskilyrði. Hann hefur jafnframt starfað sem samhæfingarstjóri þróunarstarfs fyrir ræktunarstöðvar í Kanada, m.a. í tengslum við skipulagsbreytingar þegar opinber rekstur tilraunastöðva var lagður af fyrir nokkrum árum. Þar koma kanadískar rósir m.a. við sögu!

Efnislega skiptist fyrirlesturinn í tvo hluta með hléi fyrir léttar veitingar og spjall. Fyrrihlutinn fjallar um samanburð á umhverfisaðstæðum í sléttuhéruðum Kanada og á Íslandi og reynslu hans af skipulagi kynbótastarfs og tilrauna með nýjan efnivið fyrir erfið ræktunarskilyrði. Í seinni hluta fyrirlestursins mun hann lýsa fjölda yrkja af trjátegundum, blómstrandi runnum, ávaxtatrjám, rósum og fjölæringum sem ræktuð hafa verið fyrir köldustu héruð Vestur-Kanada. Sú takmarkaða reynsla sem við Íslendingar höfum nú þegar fengið af kanadískum yrkjum vekur tilhlökkun til þessa fyrirlestrar ekki síður en kynnin af fyrirlesaranum sjálfum!

Skráning er í gegnum netfangið gardyrkjufelag@gardurinn.is

Fyrirlesturinn  er samstarfsverkefni: Garðyrkjufélag Íslands, Skógræktarfélag Íslands og Trjáræktarklúbbsins.

Skógræktarfélag Kópavogs: Fræðslufundur – ávaxtatré

Með Fræðsla

Skógræktarfélag Kópavogs stendur fyrir fræðslufundi mánudaginn 7. maí. Ólafur Njálsson, garðyrkjubóndi í Nátthaga, mun miðla ýmsu um þrif ávaxtatrjáa og segja frá varðveisluverkefni sem hann fékk styrk til árið 2017 frá Uppbyggingarsjóði Suðurlands, en þegar eru skráð tæplega 400 yrki af perum, eplum, plómum og kirsi í verkefnið.

Fundurinn er haldinn í Kiwanishúsinu, Smiðjuvegi 13a og hefst kl. 20:00.

Kaffi og meðlæti í boði félagsins.

Allir velkomnir!

Leiðbeinendanámskeið í skógarfræðslu – Kjarnaskógi

Með Fræðsla

Námskeiðið er opið öllum þeim sem vilja læra að leiðbeina fólki að tálga og standa að útieldun á skógarviðburðum, eins og skógardögum, útikennslu o.fl. Það hentar t.d  skógareigendum, skógræktarfólki, almennum kennurum, smíðakennurum, sumarbústaðafólki, handverksfólki sem og öðrum.

Á námskeiðinu:

    • Lærir þú að, leiðbeina þeim sem vilja prófa að tálga á öruggan hátt á örnámskeiði.
    • Lærir að hafa stjórn á aðstæðum, stilla hópnum upp og búa til notalegar og skapandi kringumstæður í skógarumhverfi.
    • Verða kynnt áhöld og búnaður til eldiviðargerðar og útieldunar og prófaðar ýmsar leiðir við eldun og matargerð utandyra.
    • Lærir þú um hvernig eldiviðargerðin og eldunin er tengd lífríki trjánna með kolefnisbindingu, súrefnislosun og þeirri hringrás sem lifir í trjám og nýtingu viðarins.
    • Verður fjallað um stjórnun, kynningu, staðsetningu, öryggismál, merkingar og umgjörð á fræðslustöð um útieldun og eldiviðargerð á skógarviðburði.
    • Verður fjallað um kennsluhætti og aðferðir leiðbeinandans við kennsluna.
    • Og margt fleira.

Leiðbeinandi: Ólafur Oddsson. fræðslustjóri Skógræktarinnar og verkefnisstjóri Lesið í skóginn.
Tími: Föstudagurinn 27. apríl kl. 9:00-16:00, Skógræktarfélagi Eyfirðinga, Kjarnaskógi.
Verð: 17.000 kr. (kaffi og hádegissnarl og gögn innifalin í verði)

Skráningafrestur er til 23. apríl á heimasíðu Landbúnaðarháskóla Íslands (hér).

 

Fræðsluerindi – Trjágarðurinn í Deild í Fljótshlíð

Með Fræðsla

Skógræktarfélag Reykjavíkur, Garðyrkjufélag Íslands og Trjáræktarklúbburinn standa sameiginlega fyrir fræðsluerindi um ræktun trjáa og blómstrandi gróðurs undir heitinu Trjágarðurinn í Deild í Fljótshlíð. Þar hefur Sveinn Þorgrímsson og fjölskylda hans stundað ræktunarstarf í nærri 25 ár á gömlum túnum á skjóllausu landi. Sveinn hefur ritað um ræktunarstarfið í Skógræktarritið og Garðyrkjuritið og hefur árangur starfsins vakið eftirtekt áhugafólks um ræktun. Í erindinu verður farið yfir ræktunarsöguna og fjallað um hvað best dugði til að byggja upp skjól og síðan blómstrandi tegundir í skjóli þess. Nú eru um 300 tegundir og klón af trjám og runnum í ræktun í Deild og verður fjallað um tegundaval með áherslu á tegundir sem ekki eru algengar í almennri ræktun en ástæða er fyrir áhugafólk um ræktun að reyna.

Fundurinn verður haldinn þriðjudaginn 17. apríl í húsnæði Garðyrkjufélags Íslands að Síðumúla 1 (gengið inn Ármúlamegin) og hefst hann kl. 19:30.

Boðið heim í skóg – Skemmtun, fræðsla og upplifun í skógi: Viðburðastjórnunarnámskeið fyrir skógræktarfólk

Með Fræðsla

Námskeiðið er ætlað áhugafólki um skógrækt, skógareigendum og starfsfólki í skógrækt og öðrum þeim sem hafa áhuga á að taka á móti hópum í skóglendi.

Á námskeiðinu verður fjallað um skipulagningu þess að bjóða fólki heim í skóg, reynslu af skógarviðburðum hér á landi, eins og skógardögum, móttöku hópa í skógi og samstarfi um slíka viðburði, skipulag og uppsetningu dagskrár sem höfðar til mismunandi markhópa, skipulag og stjórnun, greiningu áhættuþátta, verkefnaval og kynningu.

 

Kennarar: Gústaf Jarl Viðarsson skógarvörður Heiðmörk, Eygló Rúnarsdóttir, kennari Háskóla Íslands, Þór Þorfinnsson, skógarvörður Hallormsstað, Jón Ásgeir Jónsson, verkefnisstjóri Skógræktarfélagi Íslands og Ólafur Oddsson, fræðslustjóri Skógræktarinnar.

 

Tími: Laugardagur. 24. mars. kl. 9:00-17:00 hjá Garðyrkjuskóla, Landbúnaðarháskóla Íslands, Reykjum, Ölfusi.

Verð: 17.000 kr. (Kaffi og hádegismatur og gögn innifalin í verði).

Skráningarfrestur er til 22. mars 2018. Skráning fer fram hér – http://sql.lbhi.is/icemennt.

 

Námskeiðið er sameiginlegt verkefni samstarfsaðila um skógarfræðslu þ.e. Landbúnaðarháskóla Íslands, Landgræðslunnar, Landssamtaka skógareigenda, Skógræktarfélags Íslands og Skógræktarinnar.

skogarvidburdur


Fræðslufundur: Trjárækt á Skaganum.

Með Fræðsla

Skógræktarfélag Akraness og Skógræktarfélag Skilmannahrepps standa fyrir fræðslufundi fyrir almenning mánudaginn 5. mars kl. 20:00 í Grundaskóla, um trjárækt á Skaganum.

Fjallað verður almennt um efnið og um einstök tré í görðum fólks. Hvaða tré eru falleg, sérstök, merkileg en einnig hvað er hentugast að rækta á Skaganum. Einnig verður fjallað um trjárækt á vegum bæjarins og á svæðum skógræktarfélaganna.

Frummælendur verða Jón Guðmundsson garðyrkjufræðingur og Sindri Birgisson umhverfisstjóri Akraness. Þá mætir sérfræðingur frá Skógræktarfélagi Íslands og segir m.a. frá því hvernig Tré ársins er valið.

Fræðslufundur: Kópavogur með grænum augum

Með Fræðsla

Skógræktarfélag Kópavogs boðar til fræðslufundar þriðjudaginn 27. febrúar, kl. 20:00.

Á fundinum mun Friðrik Baldursson, garðyrkjustjóri Kópavogs, flytja erindi sem nefnist Kópavogur með grænum augum.

Fundurinn verður haldinn í Kiwanishúsinu, Smiðjuvegi 13a, Kópavogi.

Kaffi og meðlæti í boði félagsins. Allir velkomnir.

Stjórn Skógræktarfélags Kópavogs

kort-kiwanis

Skógræktarfélag Kópavogs: Fræðslufundur

Með Fræðsla

Skógræktarfélag Kópavogs boðar til fræðslufundar þriðjudaginn 30. janúar, kl. 20:00. Á fundinum mun Þorbergur Hjalti Jónsson, sérfræðingur hjá Rannsóknastöð Skógræktar Mógilsá, fjalla um „markað fyrir iðnvið hér á landi, arðsemi skógræktar og hvað þurfi til að fjárfestar leggi í stórfellda skóggræðslu.“ Fundurinn verður haldinn í Kiwanishúsinu, Smiðjuvegi 13a, Kópavogi (sjá kort).

Kaffi og meðlæti í boði félagsins.

Stjórn Skógræktarfélags Kópavogs

kort-kiwanis

Námskeið: Grænni skógar

Með Fræðsla

Grænni skógar I er skógræktarnám ætlað fróðleiksfúsum skógarbændum og áhugasömum skógræktendum sem vilja auka þekkingu sína og ná betri árangri í skógrækt.

Grænni skógar I er alls 16 námskeið (2-3 námskeið á önn). Námskeiðaröðin stendur yfir í þrjú ár (6 annir). Námið er metið til eininga á framhaldsskólastigi og lýkur námskeiðaröðinni með sérstakri viðurkenningu frá Landbúnaðarháskólanum. Slík einingagjöf er háð því að nemendur hafi sótt 80% skyldunámskeiðanna og staðist námsmat.

Hvert námskeið tekur tvo daga og er kennt frá kl. 16:00 til 19:00 á föstudegi og frá kl. 09:00 til 16:00 á laugardegi. Námskeiðin byggjast upp á fræðsluerindum sem sérfræðingar á hverju sviði flytja. Reynt verður að fara í vettvangsferð í lok hvers námskeiðs og fá þannig meiri og betri tilfinningu fyrir því sem verið er að fjalla um hverju sinni. Einnig er verkleg kennsla á nokkrum námskeiðanna. Landbúnaðarháskóli Íslands sér um framkvæmd námsins en þeir aðilar sem koma að náminu auk skólans eru: Félög skógarbænda í viðkomandi landsfjórðungi, Skógræktin og Landgræðsla ríkisins.

Á námskeiðunum er fjallað um mörg af grunnatriðum skógræktar, m.a. val á trjátegundum, skógarhönnun og landnýtingaráætlanir, undirbúning lands fyrir skógrækt, framleiðslu og gróðursetningu skógarplantna, skógarumhirðu, skógarnytjar, sjúkdóma og skaða í skógi, skjólbelti, skógarhöggstækni og verndun fornminja og náttúru í skógrækt svo eitthvað sé nefnt. Þá hefur vikuferð til útlanda verið hluti af náminu þar sem þátttakendur kynnast því helsta sem nágrannaþjóðir okkar eru að gera í skógrækt.

Námskeiðaröð Grænni skóga I á Suður- og Vesturlandi hefst 28. apríl kl. 15:30. Kennt verður til skiptis í starfstöðvum Landbúnaðarháskólans á Reykjum í Ölfusi (Garðyrkjuskólanum) og á Hvanneyri. Farið í vettvangsferðir i skóglendi í nágrenninu.

Nánari upplýsingar hjá verkefnisstjóra Grænni skóga, Björgvini Eggertssyni á netfangið bjorgvin@lbhi.is eða í síma 843-5305.

Þátttökugjald er 49.000 kr. á önn (tvær annir á ári og samtals 6 annir). Innifalið er kennsla, kaffi, hádegismatur og námsgögn á rafrænu formi.

Hægt er að sækja um styrki fyrir námskeiðum hjá starfsmenntasjóðum.

Skráning er á heimasíðu Landbúnaðarháskóla Íslands www.lbhi.is.

Skráningarfrestur er til 15. apríl.

Hámarksfjöldi þátttakenda er 30.

Eina leiðin til að tryggja sér öruggt pláss er að skrá sig sem fyrst.