Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

apríl 2013

Garðyrkjuverðlaunin 2013 – tilnefningar óskast

Með Ýmislegt

Garðyrkjuverðlaunin verða afhent í áttunda sinn á opnu húsi Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum sumardaginn fyrsta þann 25. apríl nk. við hátíðlega athöfn. Með verðlaunaveitingunni vill Landbúnaðarháskóli Íslands heiðra þá sem staðið hafa sig vel í að vinna að framgangi garðyrkjunnar á ýmsum sviðum hennar. Sú hefð hefur skapast að afhenda verðlaun í þremur flokkum en fleiri en einn geta fengið verðlaun í hverjum flokki, það er í höndum dómnefndar í hvert skipti að ákveða það. Dómnefndina að þessu sinni skipa eftirtaldir starfsmenn skólans: Björgvin Eggertsson, verkefnisstjóri Grænni skóga, Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður Starfs- og endurmenntunardeildar og Guðrún Þórðardóttir, bókasafnsfræðingur.

Það er metnaður skólans að sem flestir komi að því að velja þá aðila sem við viljum heiðra hverju sinni. Er óskað eftir tilnefningum frá öllum þeim sem láta sig málið skipta í þessa þrjá flokka. Hverri tilnefningu þarf að fylgja örstutt röksemdafærsla fyrir því af hverju viðkomandi á verðlaun skilið.


Verðlaunaflokkarnir eru eftirfarandi:
1) Heiðursverðlaun garðyrkjunnar. Hér er óskað eftir tilnefningum um einstaklinga sem skarað hafa fram úr á sviði garðyrkjunnar að mati stéttarinnar og skólans.
2) Verknámsstaður ársins. Hér er óskað eftir að tilnefndur verði verknámsstaður ársins 2013, staður sem hefur staðið sig sérlega vel við að leiðbeina nemendum skólans í verknámi.
3) Hvatningarverðlaun garðyrkjunnar. Hér er óskað eftir að tilnefndir verði aðilar sem eru að vinna að athyglisverðum og framsæknum nýjungum í greininni og eiga skilið að fá hvatningu til að halda áfram á sömu braut.

Tilnefningar þurfa að berast skólanum í síðasta lagi mánudaginn 15. apríl 2013 á netfangið bjorgvin@lbhi.is.

Fulltrúafundur 2013

Með Fulltrúafundir

Fulltrúafundur Skógræktarfélags Íslands 2013 var haldinn í Hestamiðstöð Íshesta við Kaldárselsveg í Hafnarfirði laugardaginn 6. apríl. Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, setti fundinn, en því næst flutti Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, stutt ávarp. Að því loknu komu fulltrúar þeirra félaga sem mætt voru hver á fætur öðrum upp í pontu og sögðu frá því helsta sem viðkomandi félag er að fást við. Eins og gefur að skilja er það nokkuð misjafnt eftir aðstæðum á hverjum stað og stærð skógræktarfélaga.

Að loknum hádegisverði voru svo þrjú áhugaverð erindi flutt. Gísli Eiríksson, formaður Skógræktarfélags Ísafjarðar, fjallaði um Landgræðsluskóga, en hann er formaður nefndar sem fer með málefni þeirra. Fór hann sérstaklega yfir úttekt er gerð var á Landgræðsluskógum og athugun með útboð á grisjun í skógunum. Því næst tók til máls Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri þjóðskóga hjá Skógrækt ríkisins og sagði frá nýafstaðinni vinnu að stefnumótun um skógrækt, helstu þætti hennar og næstu skref í þeim málum. Einnig kom hann inn á grisjunarþörf í skógum á Íslandi. Í síðasta erindinu fjallaði Hulda Guðmundsdóttir, skógarbóndi á Fitjum, um gróðurelda og fór yfir ýmsa þætti er lúta að hættumati á gróðureldum, sem og tryggingamál því tengt. Spunnust miklar umræður um öll erindin.

Fundinum lauk svo formlega með gönguferð um Höfðaskóg undir leiðsögn Jónatans Garðarssonar, formanns Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, en hann var einnig fundarstjóri á fundinum. Gönguferðinni lauk svo aftur í Hestamiðstöðinni, þar sem hressing beið þátttakenda og eins og verða vill þegar skógræktarfólk kemur saman urðu þar áfram miklar umræður um hin ýmsu málefni skógræktar.

Fulltrúafundur skógræktarfélaganna 2013

Með Fundir og ráðstefnur

Fulltrúafundur skógræktarfélaganna árið 2013 verður haldinn í Hestamiðstöð Íshesta í Hafnarfirði laugardaginn 6. apríl. Fulltrúafundur er haldinn árlega og á honum er farið yfir tiltekin málefni og starfsemi aðildarfélaganna með fulltrúum frá þeim. Einnig er boðið upp á áhugaverð fræðsluerindi um hin ýmsu málefni er lúta að skógrækt.

Nánari upplýsingar um fundinn má finna hér á heimasíðunni.

X