Skip to main content
All Posts By

a8

Skógræktarfélag Bolungarvíkur

Með Skógræktarfélög

Skógræktarfélag Bolungarvíkur var stofnað árið 1963 og eru félagsmenn um 40. Formaður er Magnús I. Jónsson

Hafið samband:
Magnús Ingi Jónsson
Brúnalandi 7
415 Bolungarvík

Sími (GSM): 848-4442
Netfang: maggi_jons@hotmail.com

Reitir
Skógræktin í Bolungarvík

Fulltrúafundur 2009

Með Fulltrúafundir

Árið 2008 var tekið upp nýtt fyrirkomulag fyrir fulltrúafund skógræktarfélaganna, á þann hátt að í stað eins fundar í Reykjavík voru nokkrir fundir haldnir úti á landi. Voru haldnir fundir á Norðurlandi, Vesturlandi og Suðurlandi árið 2008 og var hringnum um landið lokað með fulltrúafundi á Austurlandi árið 2009.

Fulltrúafundur skógræktarfélaganna á Austurlandi var haldinn á Hótel Héraði á Egilsstöðum laugardaginn 21. mars. Fundurinn hófst með ávarpi Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, þar sem hann fór stuttlega yfir helstu viðfangsefni félagins nú um stundir, sérstaklega atvinnuátak 2009-2011. Því næst flutti Eiríkur B. Björgvinsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, stutta tölu þar sem hann fjallaði um mikilvægi skóga og skógræktar á Héraði.  Að ávörpum loknum fluttu erindi þeir Hallgrímur Indriðason og Þröstur Eysteinsson, hjá Skógrækt ríkisins. Fjallaði erindi Hallgríms um stöðu skógrækt í skipulagsferlinu, helstu lög sem um þau mál gilda, almennt verklag og almenna stöðu skógræktar. Erindi Þrastar hét „Hvar á að pota niður blessuðum trjánum?“ og fór hann þar yfir viðhorf til skógræktar eins og þau koma fram í könnunum og opinberri umræðu í dagblöðunum, en viðhorf til skógræktar skiptir miklu máli upp á landval fyrir skógrækt. Að loknum hádegisverði kynntu skógræktarfélög starfsemi sína, en mættir voru fulltrúar frá fimm skógræktarfélögum. Rannveig Einarsdóttir og Elín Harðardóttir kynntu Skógræktarfélag Austur Skaftfellinga, Orri Hrafnkelsson fjallaði um Skógræktarfélag Austurlands, auk þess að stýra fundi, Ásmundur Ásmundsson kynnti Skógræktarfélag Reyðarfjarðar, Anna Sigrún Gunnlaugsdóttir fór yfir starfsemi Skógræktarfélags Djúpavogs og Finnbogi Jónsson kynnti Skógræktarfélag Fáskrúðsfjarðar. Spunnust nokkrar umræður í kjölfar þeirra.

Að kynningum loknum var haldið í skoðunarferð til Gróðrarstöðvarinnar Barra á Valgerðarstöðum.

Skógræktarfélag A-Skaftfellinga

Með Skógræktarfélög

Skógræktarfélag A-Skaftfellinga var stofnað 14. apríl 1952, af fulltrúum úr fimm hreppum sýslunnar, fyrir tilstuðlan Ungmennasambandsins Úlfljóts. Félagsmenn eru um 60. Formaður er Björg Sigurjónsdóttir.

Hafið samband:
Björg Sigurjónsdóttir
Júllatúni 15
780 Höfn í Hornafirði

Netfang: 1bjorg@gmail.com

Reitir
Haukafell á Mýrum, Landgræðsluskógasvæði við Drápskletta á Höfn.

Í Haukafelli er tjaldsvæði, með vatnssalerni og útivaski. Merktar gönguleiðir með fræðsluskiltum.

Aðalfundur 2008

Með Aðalfundir

73. aðalfundur Skógræktarfélags Íslands var haldinn í Edinborgarhúsinu á Ísafirði dagana 15.-17. ágúst.

Skógræktarfélag Ísafjarðar var gestgjafi fundarins að þessu sinni. Fundinn sóttu á þriðja hundrað fulltrúar skógræktarfélaganna, alls staðar af landinu, og tókst fundurinn sérlega vel.

Fundurinn hófst föstudaginn 15. ágúst með ávarpi Magnúsar Gunnarssonar, formanns félagsins. Fyrst tók til máls Anna Kristín Ólafsdóttir, aðstoðarkona umhverfisráðherra, sem flutti fundinum kveðju Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra. Næst ávarpaði fundinn Magdalena Sigurðardóttir, formaður Skógræktarfélags Ísafjarðar og bauð fundargesti velkomna. Því næst tók til máls Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og fjallaði hann meðal annars um aðkomu Ísafjarðarbæjar að skógrækt í bæjarfélaginu. Seinastur tók til máls Jón Loftsson skógræktarstjóri.

Að ávörpum loknum tóku við hefðbundin aðalfundarstörf. Magnús Gunnarsson kynnti starfsskýrslu Skógræktarfélags Íslands og því næst fór Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri félagsins, yfir reikninga þess. Jón Loftsson fór svo yfir reikninga Landgræðslusjóðs.

Eftir hádegi héldu fundargestir til Sanda í Dýrafirði, þar sem afhjúpað var nýtt skilti í skóginum. Skógræktarfélag Dýrafjarðar hefur haft umsjón með ræktun að Söndum en Toyota á Íslandi hefur í hartnær tvo áratugi styrkt skógrækt þar. Í tilefni dagsins færði Magnús Kristinsson, stjórnarformaður Toyota, Skógræktarfélagi Dýrafjarðar að gjöf nestisborð fyrir skóginn og keðjusög, sem nýtast mun við grisjun skógarins er fram líður, og tók Sigrún Guðmundsdóttir, stjórnarmaður í Skógræktarfélagi Dýrafjarðar, við gjöfinni. Því næst tóku fundargestir þátt í hátíðargróðursetningu og settu niður um hundrað tré, af ýmsum tegundum berjatrjáa og runna. Munu því Sandar verða geysigott berjaland, er frá líður, en þar er nú þegar gott krækiberja- og bláberjaland, eins og fundargestir sannreyndu!

Að gróðursetningu lokinni var haldið til Víkingasetursins á Þingeyri, þar sem fundargestir fengu kaffi, heitt kakó og heimabakstur frá kvenfélaginu á staðnum. Formlegri dagskrá lauk svo með því að Elfar Logi Hannesson, frá Komedíuleikhúsinu, flutti brot úr sýningunni Gísli Súrsson, við góðar undirtektir viðstaddra.

Deginum lauk svo með nefndarstörfum eftir að komið var til Ísafjarðar.

Fundur á laugardaginn 16. ágúst hófst með áhugaverðum fræðsluerindum. Kevin Collins, frá Irish Forest Service fjallaði um tvö verkefni er hann hefur komið að, NeigbhourWood (Grenndarskógar) og Sculpture in Woodland (Styttur í skógi). Því næst fjallaði Þorvaldur Friðriksson útvarpsmaður um keltneskar rætur örnefna á Íslandi. Síðast en ekki síst sagði Jóna Símonía Bjarnadóttir sagnfræðingur frá Ísafirði og uppbyggingu bæjarins.

Eftir hádegisverð tók svo við skemmtileg skoðun á skógarsvæðum Skógræktarfélags Ísafjarðar í nágrenni bæjarins. Skoðaður var skógurinn í Stóruurð, þar sem Elfar Logi Hannesson flutti smá leikþátt í skóginum, við undirleik Guðmundar Þrastarsonar. Því næst var gengið yfir í Tunguskóg, þar sem boðið var upp á hressingu og harmonikkuleik Karls Jónatanssonar.

Á laugardagskvöldið var svo kvöldvaka í Edinborgarhúsinu. Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri og fyrrverandi formaður Skógræktarfélags Íslands, stýrði fjölbreyttri dagskrá með röggsemi og gamanmálum. Helga Kristbjörg Guðmundsdóttir tók tvö lög á harmonikku og Helga Margrét Marsellíusardóttir, Dagný Hermannsdóttir og Svanhildur Garðarsdóttir tóku nokkur lög, við undirleik Samúels Einarssonar. Einnig voru veittar tvær viðurkenningar fyrir störf í þágu skógræktar og fengu þær Guðrún Hafsteinsdóttir og Magdalena Sigurðardóttir. Einnig var þeim skógræktarfélögum, sem eiga tugaafmæli á árinu, færðar árnaðaróskir og eðalhlynur að gjöf.

Síðan var stiginn dans fram eftir nóttu og skemmtu allir sér vel.

Á sunnudeginum voru hefðbundin aðalfundarstörf um morguninn. Ein breyting var samþykkt á lögum Skógræktarfélagsins, þess eðlis að formaður er nú kosinn beinni kosningu á aðalfundi. Þrettán tillögur voru afgreiddar og kosin var ný stjórn. Þrír stjórnarmenn létu af störfum, Jónína Stefánsdóttir, Ólafía Jakobsdóttir og Þorvaldur S. Þorvaldsson. Í þeirra stað voru kosin Sigrún Stefánsdóttir, Skógræktarfélagi Eyfirðinga, Gísli Eiríksson, Skógræktarfélagi Ísafjarðar og Gunnlaugur Claessen, Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Varamenn voru kosnir Páll Ingþór Kristinsson, Skógræktarfélagi A-Húnvetninga, Rannveig Einarsdóttir, Skógræktarfélagi A-Skaftfellinga og Vilhjálmur Lúðvíksson, formaður Garðyrkjufélags Íslands.

Við þökkum Skógræktarfélagi Ísafjarðar og öðrum er komu að skipulagningu og þjónustu fyrir vel unnið starf.

Umfjöllun um fundinn í Skógræktarritinu 2. tbl. 2008 (.PDF)

2007 Ráðstefna um landslag, borgarskóga og útivist

Með Annað

Í apríl 2007 var haldin ráðstefna um landslag, borgarskóga og útivist, í tengslum við vinnufund Care For Us verkefnisins.

SÉRFRÆÐINGAR Í BORGARSKÓGRÆKT Í HEIMSÓKN – CARE FOR US VERKEFNIÐ

Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins Mógilsá er aðili að Norrænum skógræktarrannsóknavettvangi sem kallast SNS (SamNordisk Skogforsking), sem er fjármagnaður af Norrænu ráðherranefndinni. Eitt verkefna SNS kallaðist Care-For-Us og var ætlað að leiða saman vísindamenn og sérfræðinga á vettvangi borgar- og útivistarskógræktar á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum. Að Íslands hálfu tóku þeir Jón Geir Pétursson og Samson B. Harðarson, fyrir hönd Landbúnaðarháskóla Íslands, þátt í starfi verkefnisins frá árinu 2006.

Care For Us hópurinn hélt vinnufund í Reykjavík í apríl 2007. Í tengslum við hann var haldin fjölsótt ráðstefna um landslag, borgarskóga og útivist í sal Orkuveitu Reykjavíkur. Þar voru frummælendur tveir sérfræðingar hópsins, þeir Roland Gustavson prófessor við SLU í Svíþjóð og Anders Busse Nilsen lektor við Kaupmannahafnarháskóla.

Sérstaka athygli vakti erindi Rolands, en fjallaði um hvernig hanna má sérstakar útirannsóknastofur í skógum (landscape laboratory) þar sem hægt að rannsakar fjölþætta virkni þeirra, bæði gangvart útivist og lýðheilsu svo og tegundasamsetningu og fjölbreytileika. Hefur hann mikla reynslu útirannsóknastofum frá Alnarp í Svíþjóð. Verið er að athuga hvort koma megi upp slíkri aðstöðu hér á landi.

2006 Ráðstefna: Skógar í þágu lýðheilsu á Íslandi

Með Annað

Í tengslum við Fulltrúafund Skógræktarfélags Íslands var haldin ráðstefnan Skógar í þágu lýðheilsu á Íslandi laugardaginn 11. mars 2006 í Öskju, Náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands.

Ráðstefnan var á vegum Rannsóknastöðvar skógræktar á Mógilsá, Skógræktarfélags Íslands og Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra setti ráðstefnuna. Á ráðstefnunni voru eftirfarandi fyrirlestrar haldnir:

Stefnumörkun og skipulag
Gunnar Einarsson, varaformaður SSH, bæjarstjóri Garðabæjar: Skógrækt frá sjónarhóli bæjarstjóra
Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands: Skógræktarfélög og Grænir treflar

Lýðheilsa
Anna Björg Aradóttir, yfirhjúkrunarfræðingur hjá Landlæknisembættinu: Hafa skógar áhrif á heilsufar fólks?
Sigrún Gunnarsdóttir, varaformaður Félags um lýðheilsu og fulltrúi félagsins í Landsnefnd um lýðheilsu: Heilsa í skógi
Gígja Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri hreyfingar hjá Lýðheilsustöð: Skógrækt er heilsurækt – Hreyfing í fallegu umhverfi og fersku lofti
Ingólfur S. Sveinsson geðlæknir: Skógur til að rækta fólk

Þéttbýlisskógar og notkun þeirra
Sherry Curl mannfræðingur og Hrefna Jóhannesdóttir, skógfræðingur hjá Skógrækt ríkisins: Viðhorf og notkun Íslendinga á skógum
Ellý Katrín Guðmundsdóttir, sviðsstjóri Umhverfissviðs Reykjavíkur: Náttúra í borg
Herdís Friðriksdóttir skógfræðingur og Ólafur Erling Ólafsson skógarvörður hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur: Hvernig er Heiðmörk í stakk búin að þjóna lýðheilsu? Hverju er ábótavant?
Jón Geir Pétursson, skógfræðingur hjá Skógræktarfélagi Íslands og Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður Rannsóknastöðvar skógræktar á Mógilsá: Skógrækt og útivist. Straumar og stefnur í Evrópu
Desiree Jacobsson, verkefnisstjóri hjá sænsku skógarstjórninni (Skogstyrelsen): Skógar og endurhæfing. Reynsla Svía (Forests for Rehabilitation using the Greenstages Model)

Fundarstjórar voru Þuríður Yngvadóttir í stjórn Skógræktarfélags Íslands og Aðalsteinn Sigurgeirsson, varaformaður Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Aðalfundur 2007

Með Aðalfundir

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands árið 2007 var haldinn á Egilsstöðum dagana 17.-19. ágúst. Fundurinn var haldinn í Menntaskólanum á Egilsstöðum.

Fundurinn hófst að morgni föstudagsins 17. ágúst. Eftir hefðbundin aðalfundarstörf var ferð á vegum Skógræktarfélags Austurlands eftir hádegið. Byrjað var í nýrri starfsstöð Gróðrarstöðvarinnar Barra á Valgerðarstöðum, en þaðan var haldið í Hrafngerðisskóg. Því næst var farið að Víðivallagerði í Suðurdal í Fljótsdal. Deginum lauk svo með nefndarstörfum um kvöldið.

Laugardaginn 18. ágúst hófst dagskráin með fræðsluerindum um morguninn.Hallur Björgvinsson, Suðurlandsskógum, fjallaði um geymslu, meðhöndlun og flutning skógarplantna. Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður Rannsóknastöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá, fjallaði um möguleg áhrif loftslagsbreytinga á trjátegundir og tegundaval í skógrækt með tilliti til spáa um hlýnandi loftslag. Halldór Sverrisson, Landbúnaðarháskóla Íslands, fjallaði um trjákynbótaverkefnið Betri tré. Þorsteinn Tómasson, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, fjallaði um erfðaefni í skógrækt á Íslandi og aðferðir til að velja tré með gott erfðaefni til ræktunar. Eftir hádegið var svo skoðunarferð í Hallormsstaðaskóg, sem lauk í Trjásafninu á Hallormsstað með viðhafnarathöfn þar sem útnefnt var tré ársins 2007, sem er stór og stæðileg lindifura sem stendur í Trjásafninu. Um kvöldið var svo kvöldvaka í Menntaskólanum, með fjölbreyttri dagskrá. Meðal annars voru veittar fjórar viðurkenningar fyrir störf í þágu skógræktar. Þær fengu Guttormur V. Þormar, bóndi í Geitagerði á Fljótsdal og einn af fyrstu skógarbændum á Héraði, Orri Hrafnkelsson, formaður Skógræktarfélags Austurlands til fjöldamargra ára og bræðurnir Baldur og Bragi Jónssynir, en þeir hafa unnið alla sína starfsævi í skóginum á Hallormsstað.

Sunnudaginn 19. ágúst voru hefðbundin aðalfundastörf og lauk svo fundinum um hádegið.

Umfjöllun um fundinn í Skógræktarritinu 2. tbl. 2007 (.PDF)

Aðalfundur 2006

Með Aðalfundir

Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands árið 2006 var haldinn í Hafnarborg í Hafnarfirði, dagana 26.-27. ágúst 2006. Gestgjafar voru Skógræktarfélag Hafnarfjarðar, sem fagnaði 60 ára afmæli á árinu.