Skip to main content
Flokkur

Fulltrúafundir

Fulltrúafundur 2009

Með Fulltrúafundir

Árið 2008 var tekið upp nýtt fyrirkomulag fyrir fulltrúafund skógræktarfélaganna, á þann hátt að í stað eins fundar í Reykjavík voru nokkrir fundir haldnir úti á landi. Voru haldnir fundir á Norðurlandi, Vesturlandi og Suðurlandi árið 2008 og var hringnum um landið lokað með fulltrúafundi á Austurlandi árið 2009.

Fulltrúafundur skógræktarfélaganna á Austurlandi var haldinn á Hótel Héraði á Egilsstöðum laugardaginn 21. mars. Fundurinn hófst með ávarpi Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands, þar sem hann fór stuttlega yfir helstu viðfangsefni félagins nú um stundir, sérstaklega atvinnuátak 2009-2011. Því næst flutti Eiríkur B. Björgvinsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, stutta tölu þar sem hann fjallaði um mikilvægi skóga og skógræktar á Héraði.  Að ávörpum loknum fluttu erindi þeir Hallgrímur Indriðason og Þröstur Eysteinsson, hjá Skógrækt ríkisins. Fjallaði erindi Hallgríms um stöðu skógrækt í skipulagsferlinu, helstu lög sem um þau mál gilda, almennt verklag og almenna stöðu skógræktar. Erindi Þrastar hét „Hvar á að pota niður blessuðum trjánum?“ og fór hann þar yfir viðhorf til skógræktar eins og þau koma fram í könnunum og opinberri umræðu í dagblöðunum, en viðhorf til skógræktar skiptir miklu máli upp á landval fyrir skógrækt. Að loknum hádegisverði kynntu skógræktarfélög starfsemi sína, en mættir voru fulltrúar frá fimm skógræktarfélögum. Rannveig Einarsdóttir og Elín Harðardóttir kynntu Skógræktarfélag Austur Skaftfellinga, Orri Hrafnkelsson fjallaði um Skógræktarfélag Austurlands, auk þess að stýra fundi, Ásmundur Ásmundsson kynnti Skógræktarfélag Reyðarfjarðar, Anna Sigrún Gunnlaugsdóttir fór yfir starfsemi Skógræktarfélags Djúpavogs og Finnbogi Jónsson kynnti Skógræktarfélag Fáskrúðsfjarðar. Spunnust nokkrar umræður í kjölfar þeirra.

Að kynningum loknum var haldið í skoðunarferð til Gróðrarstöðvarinnar Barra á Valgerðarstöðum.