Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

nóvember 2016

Jóla – og tækifæriskort Skógræktarfélags Íslands árið 2016

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Jóla – og tækifæriskort Skógræktarfélags Íslands árið 2016 er væntanlegt í lok vikunnar. Kortið prýðir mynd eftir listamanninn Wu Shan Zhuan og prýðir sú mynd einnig forsíðu 2. heftis Skógræktarritsins 2016.

Ekkert er prentað inn í kortin, þannig að þau nýtast áfram eftir jól sem afmæliskort, boðskort eða hvað sem fólki dettur í hug.

Kortin eru seld 10 saman í pakka með umslögum á kr. 2.000.

Hægt er að nálgast kortin á skrifstofu Skógræktarfélags Íslands, í Þórunnartúni 6, 2. hæð (inngangur við antikbúðina). Einnig eru til nokkrar gerðir af eldri kortum (sjá hér), á kr. 1.000 fyrir 10 stykki.

Hægt er að panta kortin í síma 551-8150 eða með tölvupósti til skog@skog.is og fá þau póstsend, en þá bætist við póstburðargjald.

tkort2016


Fræðsluerindi: Skógar og skógfræði í Rússlandi

Með Fræðsla

Mánudaginn 28. nóvember kl. 16:00 flytur dr. Páll Sigurðsson, skógfræðingur hjá Landbúnaðarháskóla Íslands, mjög áhugavert erindi um náttúrufar, skóga og lífið í NV-Rússlandi. Páll bjó í Rússlandi í níu ár, þar sem hann lauk BS og MS gráðum í skógfræði og doktorsgráðu í skógræktartækni. Síðan starfaði hann við skógfræðideild Háskólans í Arkangelsk, áður en hann flutti ásamt fjölskyldu sinni heim til Íslands. Páll er því hafsjór af fróðleik og það verður einstaklega gaman að kynnast náttúru og skógarmenningu NV-Rússlands betur í gegnum hann.

Fræðsluerindið er haldið í Ársal, 3. hæð, Ásgarði (aðalbyggingu), Landbúnaðarháskóla Íslands, Hvanneyri

Aðgangur ókeypis

Allir velkomnir!

Fræðsluerindið er í boði Skógræktarfélagsins Dafnars á Hvanneyri

Skógræktarfélag Íslands óskar eftir verkstjóra/umsjónarmanni

Með Skógargöngur

Skógræktarfélag Íslands óskar eftir verkstjóra/umsjónarmanni með sjálfboðaliðum 15. apríl til 10. október 2017.

 

Síðastliðin tvö ár hefur Skógræktarfélag Íslands leitt European Volunteering Service (EVS) verkefni í gegnum Erasmus+ samstarfið. Á vegum þess komu hingað til lands fimm manna hópar sjálfboðaliða er dvöldu á landinu frá byrjun maí fram til loka september. Unnu þau að hinu og þessu er tengist skógrækt og uppbyggingu útivistarskóga landsins, þar á meðal gróðursetningu, stígagerð og viðhaldi og mannvirkjagerð í skógi (bekkir, tröppur, brýr, girðingar). Með sjálfboðaliðunum var verkstjóri sem sá um utanumhald, vann með og leiðbeindi þeim.  Næsta ár er ætlunin að fjölga sjálfboðaliðunum og fá tíu sjálfboðaliða, sem kallar á annan verkstjóra. 

 

Auglýsum við því hér með eftir áhugasömum einstaklingi sem langar að takast á við afar fjölbreytta og lærdómsríka skógarvinnu.


Starfslýsing:

– Leiða hóp sjálfboðaliða í þeirra daglega starfi og sýna gott fordæmi í vinnunni sjálfri
– Vera sjálfboðaliðunum innan handar þegar þess er þörf
– Skipulagning á vinnu, í samstarfi við hinn verkstjórann

Helstu verkefni:
– Gróðursetning
– Stígagerð
– Stígaviðhald
– Létt grisjun
– Skógarmannvirkjagerð (bekkir, brýr, tröppur)

Starfsvettvangur:
– Hátt hlutfall vinnunnar er unnið á  SV-horninu og því nauðsynlegt að verkstjóri sé staðsettur þar.

– Vinnuferðir, 1-2 vikur í senn, sem geta verið hvar sem er á landinu.

Starfstími:
Starfstími er 15. apríl til 10. október. Sjálfboðaliðarnir koma til landsins í byrjun maí og eru hér til loka september. Gert er ráð fyrir vinnu verkstjóra fyrir mætingu þeirra, til undirbúnings, og eftir brotthvarf, til frágangs. Miðað er við tímabilið 15. apríl til 10. október, en dagsetning getur verið umsemjanleg


Verkstjórinn þarf að hafa kunnáttu á eftirfarandi sviðum:

Skógrækt og skógfræði: 

–  Þekkja tegundir og þeirra kröfur 
– Hvernig ber að standa að gróðursetningu  


Verkleg vinna:
– Hafa lágmarks reynslu af notkun handverkfæra

– Reynsla af notkun keðjusagar mjög nytsamleg
– Geta keyrt bifreið, stundum í ögn krefjandi aðstæðum

Félagshæfni:

– Færni í mannlegum samskiptum
– Þolinmæði
– Skipulagshæfileikar

– Leiðtogahæfileikar

– Hafa gaman af samveru og samvinnu

– Fljót/ur að læra og tileinka sér nýjar aðferðir

Reynsla er verðmæt en mikilvægast er þó ríkur áhugi og vilji til þess að læra það sem þarf til að geta unnið verkin vel. 

Nánari upplýsingar um verkefnið

Sjálfboðaliðarnir koma frá sendingarsamtökum frá fimm löndum: Austurríki, Póllandi, Ítalíu, Tékklandi og Spáni. Þau eru á aldursbilinu 20-30 ára, hafa gífurlegan áhuga á Íslandi og oft einhverja menntun sem tengist viðfangsefninu. Reynslan sýnir að þau eru lærdómsfús, skemmtileg og dugleg. Kynjahlutfallið verður jafnt í hópunum.  Einstaklingar eru valdir gaumgæfilega svo hópurinn passi og vinni vel saman.

 

Umsókn

Umsóknum um starfið, með helstu upplýsingum um umsækjanda, skal skila til Skógræktarfélag Íslands, Þórunnartúni 6, 105 Reykjavík, netfang: skog@skog.is„>skog@skog.is, fyrir 30. janúar næst komandi.

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 551-1850 eða á netfanginu skog@skog.is„>skog@skog.is. Hafið samband í síma 551-8150 eða gegnum tölvupóst skog@skog.is„>skog@skog.is.

Starfið er kjörið tækifæri til þess að tileinka sér verkstjórn (sem nýtist víðast hvar), kynnast landinu okkar og skógum sem þar vaxa, en ekki síst að kynnast skemmtilegu fólki frá öðrum löndum.

Með þekkingu ræktum við skóg – Fagráðstefna skógræktar 2017

Með Fundir og ráðstefnur

Fagráðstefna skógræktar 2017, sem jafnframt er 50 ára afmælisráðstefna Rannsóknastöðvar skógræktar á Mógilsá, verður haldin dagana 23.-24.mars 2017 í Hörpu. Þema ráðstefnunnar er Með þekkingu ræktum við skóg og verða erindin fyrri daginn helguð því. Seinni daginn verða flutt ýmis erindi um skógrækt í sinni fjölbreyttustu mynd og nú auglýsir undirbúningsnefndin eftir erindum og veggspjöldum fyrir þann hluta ráðstefnunnar. Áhugasamir sendi tillögur á netfangið johanna@skogur.is merkt Fagráðstefna 2017 fyrir 15. desember 2016. Þar komi fram titill (má vera til bráðabirgða) og eins hvort óskað sé eftir því að halda erindi eða kynna efnið á veggspjaldi.

Nánari upplýsingar um dagskrá og skráningu koma síðar.

Undirbúningsnefndina skipa: Edda Sigurdís Oddsdóttir, Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, Bjarni D. Sigurðsson prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, Einar Gunnarsson, Skógræktarfélagi Íslands, Hrönn Guðmundsdóttir, Landssamtökum skógareigenda og Lárus Heiðarsson, Skógfræðingafélagi Íslands.

Opið fyrir styrkumsóknir: Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson

Með Ýmislegt

Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson auglýsir rannsóknastyrki í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. Til úthlutunar verða 4,2 milljónir króna. Umsóknum skal skilað eigi síðar en 10. janúar 2017. H

jálmar R. Bárðarson, f.v. siglingamálastjóri, ánafnaði Landgræðslusjóði 30% af eigum sínum, en hann lést 7. apríl 2009. Óskaði hann eftir því að fénu yrði varið til landgræðsluskógræktar, „þar sem áður var lítt gróið bersvæði, ef til vill þar sem gróðursett lúpína hefur gert landsvæði vænlegt til skógræktar“, eins og segir í erfðaskránni.

Ákveðið var að verja hluta arfsins til stofnunar sjóðs, sem starfa mun í 10 ár, með það markmið að styrkja rannsóknir í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. Landgræðsla ríkisins, sem erfði Hjálmar til jafns við Landgræðslusjóð, lagði sjóðnum einnig til fé. Er sjóðnum ætlað að heiðra minningu Hjálmars og konu hans Else Sörensen Bárðarson, sem andaðist 28. maí 2008.

Styrkþegar geta verið einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki og opinberir aðilar.

Umsóknareyðublað, ásamt reglum um úthlutun styrkja og skipulagsskrá sjóðsins má nálgast hér.

Fræðslufundur: Áhrif eldgosa og ösku á gróðurfar

Með Fræðsla

Þriðjudaginn 8. nóvember kl. 19:30 flytur Hreinn Óskarsson, skógfræðingur hjá Skógræktinni og Hekluskógum, mjög áhugavert erindi um Áhrif eldgosa og ösku á gróðurfar þar sem hann lýsir m.a. hæfileikum birkisins til vaxtar þó það lendi í öskufalli, í máli og myndum. Einnig hvernig hægt er að hefta öskufok með skógi, en það er einmitt eitt af markmiðum með ræktun Hekluskóga, en fyrst þarf að glíma við að koma skóginum upp í vissa hæð og þéttleika.

Fræðslufundurinn er haldinn í sal Garðyrkjufélags Íslands að Síðumúla 1 (gengið inn á jarðhæð frá Ármúla).

Aðgangseyrir er krónur 750,-

Allir velkomnir!

Fræðslufundurinn er samstarfsverkefni Garðyrkjufélags Íslands, Skógræktarfélags Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar.

Myndasýning úr frönsku Ölpunum

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Garðabæjar býður til myndakvölds um ferð skógræktarfélaganna um frönsku Alpana dagana 13. – 20. september 2016.

Myndakvöldið verður haldið mánudaginn 7. nóvember í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli við Kirkjulund og hefst kl. 20:00.

Sigurður Þórðarson mun segja frá ferðinni í máli og myndum. Ferðin var skipulögð af

Skógræktarfélagi Íslands í samvinnu við ferðaskrifstofuna Trex.

Allir velkomnir!

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar: afmæliskaffi

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar er stofnað 25. október 1946 og fagnar því sjötíu ára afmæli í ár. Af því tilefni er félögum og velunnurum boðið til kaffisamsætis í Hafnarborg laugardaginn 5. nóvember kl. 15:00 – 17:00.

„Þó nokkrir Hafnfirðingar voru meðal stofnfélaga Skógræktarfélags Íslands þegar félagið var stofnað alþingishátíðarárið 1930. Enn fleiri bættust í hópinn á næstu árum enda fór áhugi á skógrækt vaxandi í bænum. Skógræktarfélag Íslands starfaði á þessum tíma sem samnefnari fyrir héraðsfélögin og um leið sem héraðsfélag fyrir skógræktarfólk í Reykjavík og Hafnarfirði. Þetta skipulag var þungt í vöfum og því var ákveðið haustið 1946 að breyta til og stofna sérstök héraðsfélög í Hafnarfirði og Reykjavík. Skógræktarfélag Íslands starfaði eftirleiðis sem sambandsfélag allra skógræktarfélaga í landinu. Þessi breyting átti sér stað með formlegum hætti þann 24. október 1946 og daginn eftir, 25. október, síðasta dag sumars, komu hafnfirskir skógræktarmenn saman til fundar og stofnuðu Skógræktarfélag Hafnarfjarðar“ (Lúðvík Geirsson, 1996, Græðum hraun og grýtta mela).

Námskeið í kransagerð úr náttúrulegum efniviði

Með Fræðsla

Skógræktarfélag Reykjavíkur stendur fyrir námskeiði í kransagerð úr náttúrulegum efniviði laugardaginn 5. nóvember kl. 10:00-15:30. Námskeiðið fer fram að Elliðavatni.

Sýnikennsla verður í gerð kransa (haust-, jóla-, köngla-, greni- og greinakransa) með náttúrulegt efni úr íslenskri náttúru og íslenskum skógum. Þátttakendur fá einnig tækifæri til að binda sína eigin kransa.

Skógræktarfélagið mun útvega greinar af furu, birki og víði, en þátttakendur mega gjarnan taka með náttúrulegt skreytingarefni, t.d. greinar, köngla, mosa, hálmkransa og þess háttar. Ef vel viðrar og tími gefst til verður farin stutt gönguferð til efnisleitar í skóginum. Gott að taka með sér vinnuhanska, greinaklippur, skæri, vírklippur, og körfu. Hægt verður að kaupa hálmkransa og annað skreytingarefni á staðnum.

Kennari: Kristján Ingi Jónsson blómaskreytir
Verð: 7.500 kr. Innifalið í verði er kaffi og meðlæti og súpa í hádegismat.
Hámarksfjöldi: 20 manns.

Skráning (fyrir 3. nóvember) og nánari upplýsingar hjá: Else Möller, else.akur@gmail.com, s. 867-0527 Sævar Hreiðarsson, Skógræktarfélagi Reykjavíkur, saevar@heidmork.is, s. 893-2655.

skrvk-skreytinganamskeid