Skip to main content
Flokkur

Fréttir frá skógræktarfélögum

Sjálfboðaliðadagur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Hinn árlegi sjálfboðaliðadagur Skógræktarfélags Hafnarfjarðar verður haldinn laugardaginn 24. september kl. 10:00 – 12:00. Gróðursett verður í Vatnshlíðarlund til minningar um hjónin Hjálmar R. Bárðarson og Else S. Bárðarson. Mæting er í Vatnshlíð norðan við Hvaleyrarvatn. Verkfæri og plöntur á staðnum. Boðið verður upp á hressingu í Þöll að lokinni gróðursetningu.

Allir velkomnir, ungir sem aldnir. Nánari upplýsingar í síma: 555-6455, 894-1268 (Steinar) eða 849-6846 (Árni). 

Vegvísir: Akið Kaldárselsveginn til suðurs. Beygið til hægri Hvaleyrarvatnsveg. Þegar komið er upp á hæðina er beygt strax til hægri í átt að kartöflugörðunum sem þar eru og síðan til vinstri eftir akvegi sem liggur eftir Vatnshlíðinni endilangri. Þetta er botnlangi og þar er hægt að leggja.

Tré ársins 2016 útnefnt

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Tré ársins 2016 er alaskaösp við Hákot í Grjótaþorpi. Öspinni var bjargað á síðustu stundu fyrir þrjátíu árum en þá voru að hefjast byggingaframkvæmdir á nágrannalóð þar sem tréð varð að víkja. Ragnheiður Þorláksdóttir, íbúi og eigandi Hákots, fékk því framgengt að tréð fékk að lifa og var það fært á núverandi stað árið 1986, þar sem það hefur vaxið og dafnað síðan. Tréð er að öllum líkindum upphaflega gróðursett um 1960 og var orðið um 5 metra hátt þegar það var flutt með stórvirkum vinnuvélum. Tréð hefur ávallt vakið athygli og hefur verið gleðigjafi eigandans og umhverfisins frá upphafi. Útlitið er óvenjulegt af ösp að vera, en krónumikill vöxtur og öflug greinasetning einkennir það.

Alaskaösp er ein algengasta trjátegundin í Reykjavík og hefur því mikið um það að segja hve skjólsælt er orðið víða í borginni. Þá er vel þekkt að ösp er öflugur fangari aðskotaagna sem stafa af umferð. Aspirnar í borginni þjóna því íbúum hennar með margvíslegum hætti auk þess sem þær auka á fjölbreytni og setja mark sitt á borgarmyndina með áberandi hætti svo sem litskrúði og tónum og angan sumar, vetur, vor og haust.

Í tilefni útnefningarinnar er boðað til hátíðardagskrár. Dagskráin hefst kl. 15:00 miðvikudaginn 24. ágúst í Garðastræti 11 a (Hákoti). 

1. Tónlist – Lilja Valdimarsdóttir hornaleikari
2. Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands – ávarp
3. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur – hugleiðing
4. Afhending á viðurkenningarskjali. Ragnheiður Þorláksdóttir veitir móttöku
5. Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar – ávarp
6. Mæling á trénu
7. Veitingar í boði Arionbanka
8. Tónlistaratriði – Ragnheiður Gröndal og Guðmundur Pétursson

Dagskrárlok kl. 16:00

alt

Skógarleikar á Heiðmörk

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Annað árið í röð efnir Skógræktarfélag Reykjavíkur til Skógarleikanna í Heiðmörk. Nokkrir af færustu skógarhöggsmönnum Suður- og Vesturlands munu leiða saman hesta sína í hefðbundnum skógarhöggsgreinum, svo sem axarkasti, bolahöggi og afkvistun trjábola. Í leikslok fá gestir að spreyta sig í axarkastinu. Stjórnandi leikanna er skógfræðingurinn Gústaf Jarl og dómari er Björn Bjarndal.

Furulundur verður uppfullur af ævintýrum þennan dag. Gestir fá tækifæri til að spreyta sig í tálgun í ferskan við beint úr skóginum undir leiðsögn tálgunarmeistarans Valdórs Bóassonar. Eldsmiðurinn Einar Gunnar mun sýna listir sínar og hamra heitt járnið yfir logandi eldi. Borðtennisborð og ýmis skógarleiktæki eru einnig í lundinum.

Gestum er boðið í grillveislu þar sem grillað verður meðal annars yfir varðeldi skógarbrauð á priki og rjúkandi ketilkaffi verður einnig á boðstólum.

Allir hjartanlega velkomnir!
 

Hægt er að að fylgjast með á Facebook: Skógarleikarnir og á Snapchat: heidmork
 

Allar frekari upplýsingar veitir Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir í síma 690-9874.


skogarleikar1

Keppni í afkvistum á Skógarleikum 2015 (Mynd: RF).

skogarleikar2

Gestir spreyta sig á axarkasti á Skógarleikum 2015 (Mynd: RF).

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar – Listalundur

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar fagnar 70 ára afmæli í ár. Af því tilefni verður efnt til listviðburðar í Höfðaskógi nú í júní. Um 25 listamenn munu skapa verk í skóginum. Öll hafa verkin skírskotun til skógarins á einn eða annan hátt. Verkefnið hefur hlotið nafnið „Listalundur“. Formleg opnun er laugardaginn 25. júní kl. 17:00. Opnunarhátíðin fer fram í og við bækistöðvar félagsins og Þallar við Kaldárselsveg í Hafnarfirði. Boðið verður upp á tónlist, ljóðlist og léttar veitingar.

Afmælisblað félagsins, Þöll, kemur út bráðlega. Þar er nánari kynning á Listalundi og öllum þátttakendum. Kynningarbækling um Listalund má nálgast nú þegar í Þöll.

Nánari upplýsingar á heimasíðu félagsins – www.skoghf.is

Nýr varpfugl í Brynjudal

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Sjálfboðaliðar Skógræktarfélags Íslands eru þessa dagana að störfum í skógi félagsins í Brynjudal í Hvalfirði. Þegar unnið er í skóginum kemur iðulega eitthvað áhugavert í ljós. Nú nýverið fannst þetta myndarlega hreiður skógarsnípu með eggjum.

Vonast félagið auðvitað til þess að vel gangi til með varpið og fjórir hressir ungar komist á legg í skóginum.


snipa2

snipa1

Skógrækt og umhverfi á Akranesi

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Akraness stendur fyrir almennum fundi í Grundaskóla mánudaginn 7. mars kl. 20.

Dagskrá:
1) Jón Guðmundsson garðyrkjufræðingur flytur erindi. Hvaða plöntum má bæta inn í skógræktarsvæðin? Berjarunnar, ávaxtatré og fleiri tegundir auk þeirra sem þar eru núna.

2) Íris Reynisdóttir garðyrkjustjóri fjallar um stöðu skógræktar í bænum.
3) Verkefni Skógræktarfélags Akraness á árinu.
4) Umræður og fyrirspurnir.

Unnendur skógræktar, útivistar og fagurs umhverfis á Akranesi og nágrenni eru hvattir til að mæta og taka þátt í umræðum. Það er mikilvægt fyrir Skógræktarfélagið sem og bæjarfélagið að heyra raddir fólks sem hefur skoðanir á umhverfi sínu.

Allir hjartanlega velkomnir!

Landgræðsluskógasamningur um Múlastaði undirritaður

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Þriðjudaginn 23. febrúar sl. undirrituðu Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, og Þröstur Ólafsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur, samning um ræktun landgræðsluskóga á jörðinni Múlastöðum í Flókadal í Borgarfirði. Jörðina keypti Skógræktarfélag Reykjavíkur árið 2014.

Múlastaðir er alls um 650 hektarar að stærð og vel fallin til skógræktar. Stefnt er að því að gróðursetja að minnsta kosti 20.000 plöntur árlega. Markmiðið er að landið muni nýtast til framtíðar sem útivistarsvæði fyrir almenning.

 

mulastadir

Magnús Gunnarsson (t.v.), formaður Skógræktarfélags Íslands og Þröstur Ólafsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Mælistangar saknað!

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Leit er hafin að mælistöng í eigu Skógræktarfélags Íslands. Stöngin er útdraganleg og mælir að 15 m hæð, en grunnhólkur er gulur og um 1,8 m á hæð. Ef einhver kannast við að hafa fengið hana lánaða og gleymt að skila er viðkomandi vinsamlegast beðinn um að koma stönginni heim sem fyrst, hennar er sárt saknað hjá félaginu.

maelistong

Mælistöngin góða í notkun við mælingu á Tré ársins 2014.


Gleðileg jól!

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Íslands, landssamband skógræktarfélaganna, óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla.

Sérstakar kveðjur fá aðildarfélög og félagsmenn þeirra, einnig aðrir velunnarar, samstarfs- og styrktaraðilar.

gledilegjol

Jólaskógurinn í Brynjudal lokar að sinni

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Nú um helgina komu síðustu hópar þessa árs í heimsókn í Jólaskóginn í Brynjudal og nutu þess að finna sér jólatré í veðurblíðunni, en sérlega gott veður var um helgina (þó það sé reyndar alltaf gott veður inni í skóginum!).

Skógræktarfélag Íslands þakkar öllum þeim sem sóttu sér tré í Jólaskóginn í Brynjudal fyrir komuna og vonandi sjáum við sem flesta aftur að ári.
 

Svipmyndir frá heimsóknum ársins má sjá á Facebook-síðu félagsins.