Skip to main content
Flokkur

Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarritið, 1. tbl. 2015, komið út

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Fyrsta tölublað Skógræktarritsins 2015 er komið út.

Að vanda er að finna í ritinu fjölda áhugaverðra greina um hinar ólíku hliðar skógræktar. Meðal annars er fjallað um tuttugu ára trjárækt í Deild í Fljótshlíð, nýtt birkiyrki – Kofoed að nafni, ræktun í lúpínubreiðum, þróun viðarnytja á Íslandi, Eldhraunsreitinn í Skaftáreldahrauni, vígslu minningarsteins um Jón Jósep Jóhannesson, frumkvöðul skógræktar á Skógum, notkun maríuskós í ræktun trjáa, lífbreytileika í samhengi skógræktar og einn af skógarfuglunum okkar – auðnutittling. Einnig er minnst Indriða Indriðasonar skógarvarðar.

Kápu ritsins prýðir verkið ,,Sumar“ eftir Kristínu Arngrímsdóttur.

Skógræktarritið (áður Ársrit Skógræktarfélags Íslands) er eina tímaritið um skógrækt á Íslandi og aðalvettvangur skrifa íslenskra skógfræðinga og annarra sem áhuga hafa á hinum ýmsu hliðum skógræktar. Efni ritsins er því mjög fjölbreytt og víðtækt og má þar nefna umfjöllun um tiltekna skóga, staði eða trjátegundir, hinar ýmsu hliðar ræktunar og ræktunarskilyrða, skipulag skógræktar, rannsóknir, ferðasögur, viðtöl, minningagreinar og margt fleira.

Skógræktarritið kemur út tvisvar á ári og er selt í áskrift og í lausasölu. Hægt er að gerast á áskrifandi með því að hafa samband við Skógræktarfélag Íslands í síma 551 8150 eða með því að senda póst á netfangið skog@skog.is.

skogrit2015-1

Stuðningsaðilar fyrir sjálfboðaliða óskast!

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Íslands hefur nú um nokkurra ára skeið verið með sjálfboðaliða á sumrin, sem hafa komið í tíu daga vinnubúðir. Reynslan af því er góð og því var ákveðið að ganga skrefinu lengra. Nú í ár verðum við með fimm sjálfboðaliða (á aldrinum 20-28 ára) frá Ítalíu, Frakklandi, Spáni, Austurríki og Póllandi og verða þeir hjá okkur í fimm mánuði, frá maí til ágúst. Koma þeir á vegum evrópsku sjálfboðaliðaþjónustunnar (European Volunteer Service, EVS). Munu þeir vinna að ýmsu fyrir skógræktarfélagið undir leiðsögn verkstjóra frá okkur. Auk reynslu af skógrækt er áhersla á að sjálfboðaliðarnir fái líka félagslega og menningarleg upplifun í gegnum dvöl sína hér, til að læra betur inn á landið. Til þess er miðað við að hver sjálfboðaliði hafi „mentor“ (stuðningsaðila), til að hjálpa til við að kynna þeim íslenskt samfélag og vera ákveðið öryggisnet þegar verið er að fóta sig í ókunnu landi.

Við óskum nú eftir aðilum sem eru tilbúnir til að vera svona stuðningsaðilar, enda mikið af hressu og skemmtilegu fólki innan skógræktarhreyfingarinnar! Þetta er upplagt tækifæri til að hitta og eiga samskipti við hresst ungt fólk með áhuga á skógrækt. Það er að miklu leyti undir hverjum og einum komið hversu mikill tími er settur í þetta, en lágmark að hitta sjálfboðaliðann á um 2-3 vikna fresti (ca. sjö sinnum) á þessum fimm mánaða tímabili. Nánari upplýsingar um „mentoring“ má lesa hér (pdf).

Ef þið hafið áhuga, endilega hafa samband sem fyrst, á skog@skog.is eða í síma 551-8150.


alt

Gleðilegt nýtt ár!

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Íslands óskar landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs!

Þökkum skógræktarfélögum um land allt – og öðrum vinum, samstarfs- og styrktaraðilum – fyrir ánægjulega samvinnu á liðnu ári.

gledilegtnyttar

Í skóginum í Brynjudal.

Gleðileg jól!

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Íslands, landssamband skógræktarfélaganna, óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla.

Sérstakar kveðjur fá aðildarfélög og félagsmenn þeirra, einnig aðrir velunnarar, samstarfs- og styrktaraðilar.


gledilegjol

Í jólaskóginum í Brynjudal.

Jólatrjáasala skógræktarfélaga síðustu daga fyrir jól

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Það eru nokkur skógræktarfélög sem eru með sölu á jólatrjám nú síðustu daga fyrir jól.

 • Skógræktarfélag Austur-Húnvetninga er með jólatrjáasölu á Gunnfríðarstöðum helgina 20.-21. desember kl. 11-15.
 • Skógræktarfélag Austurlands er með jólatrjáasölu í Eyjólfsstaðaskógi helgina 20.-21. desember kl. 12-16.
 • Skógræktarfélag Árnesinga er með jólatrjáasölu á Snæfoksstöðum í Grímsnesi helgina 20.-21. desember og á Þorláksmessu, kl. 11-16.
 • Skógræktarfélag Borgarfjarðar og Björgunarsveitin Heiðar eru með jólatrjáasölu í Grafarkoti í Stafholtstungum laugardaginn 20. desember kl. 12-16.
 • Skógræktarfélag Eyfirðinga er með jólatrjáasölu í Laugalandsskógi á Þelamörk, dagana 20.-21. desember kl. 11-15.
 • Skógræktarfélag Eyrarsveitar er með jólatrjáasölu í Brekkuskógi við Grundarfjörð dagana 19.-23. desember, kl. 13-18.
 • Skógræktarfélag Hafnarfjarðar er með jólatrjáa- og skreytingasölu í Selinu, bækistöðvum félagsins og Þallar, við Kaldárselsveg í Hafnarfirði. Opið virka daga kl. 10-18 og helgina 20.-21. desember kl. 10-18
 • Skógræktarfélag Mosfellsbæjar er með jólatrjáasölu í Hamrahlíð við Vesturlandsveg. Opið um helgar kl. 10-16, en kl. 12-16 virka daga til 23. desember.
 • Skógræktarfélagið Mörk er með jólatrjáasölu í Stóra-Hvammi, Fossi á Síðu laugardaginn 20. desember kl. 13-15.
 • Skógræktarfélag Reykjavíkur er með jólatrjáasölu á Jólamarkaðinum á Elliðavatni, helgina 20.-21. desember kl. 11-16. Jólaskógurinn á Hólmsheiði verður sömu daga, kl. 11-16.
 • Skógræktarfélag Stykkishólms er með jólatrjáasölu í Vatnsdal 20.-21. desember kl. 12-15.
 • Fossá í Hvalfirði – Skógræktarfélög Kópavogs, Mosfellsbæjar, Kjalarness og Kjósarhrepps eru með jólatrjáasölu á Fossá í Hvalfirði helgina 20.-21. desember kl. 10:30-15:00.

Nánari upplýsingar á jólatrjáavef skógræktarfélaganna á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands – www.skog.is/jolatre.

Jólatrjáasala skógræktarfélaga helgina 13.-14. desember

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Það eru mörg skógræktarfélög sem selja jólatré nú um helgina.

Skógræktarfélag Árnesinga er með jólatrjáasölu á Snæfoksstöðum í Grímsnesi, báða dagana kl. 11-16.

Skógræktarfélag Borgarfjarðar og Björgunarsveitin Heiðar eru með jólatrjáasölu í Grafarkoti í Stafholtstungum, kl. 12-16 báða dagana. Sunnudaginn 14. desember er Skógræktarfélag Borgarfjarðar með jólatrjáasölu í Reykholti í Reykholtsdal, kl. 12-16.

Skógræktarfélag Dýrafjarðar og Skógræktarfélag Ísafjarðar eru með jólatrjáasölur laugardaginn 13. desember, að Söndum í Dýrafirði og reit ofan Bræðratungu, kl. 13-15.


Skógræktarfélag Eyfirðinga er með jólatrjáasölu í Laugalandsskógi á Þelamörk, báða dagana kl. 11-15.


Skógræktarfélag Garðabæjar er með jólatrjáasölu í Smalaholti laugardaginn 13. desember, kl. 12-16.


Skógræktarfélag Hafnarfjarðar er með jólatrjáa- og skreytingasölu í Selinu, bækistöðvum félagsins og Þallar, við Kaldárselsveg í Hafnarfirði. Opið báða dagana kl. 10-18.


Skógræktarfélag Mosfellsbæjar er með jólatrjáasölu í Hamrahlíð við Vesturlandsveg. Opið um helgar kl. 10-16, en kl. 12-16 virka daga til 23. desember.


Skógræktarfélag Rangæinga er með jólatrjáasölu á Bolholti á Rangárvöllum sunnudaginn 14. desember, kl. 13-16.


Skógræktarfélag Reykjavíkur er með jólatrjáasölu á Jólamarkaðinum á Elliðavatni, opið báða dagana kl. 11-16. Jólaskógurinn á Hólmsheiði verður opinn báða dagana, kl. 11-16.


Skógræktarfélag Skagfirðinga er með jólatrjáasölu í Hólaskógi og skógarreit við Varmahlíð sunnudaginn 14. desember kl. 12-16.


Skógræktarfélag Skilmannahrepps er með jólatrjáasölu í Álfholtsskógi, báða dagana. Opnað um hádegisbil.


Fossá í Hvalfirði – Skógræktarfélög Kópavogs, Mosfellsbæjar, Kjalarness og Kjósarhrepps eru með jólatrjáasölu á Fossá í Hvalfirði báða dagana kl. 10:30-15:00.

Nánari upplýsingar á jólatrjáavef skógræktarfélaganna á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands – www.skog.is/jolatre. 

Nýtt í Brynjudalsskógi

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Sífellt er verið að vinna í að bæta aðstöðu í jólaskóginum í Brynjudal. Nú í nóvember var sett upp skilti með helstu upplýsingum um skóginn, þær jólatrjáategundir sem þar er að finna og yfirlitsmynd yfir þá aðstöðu sem þar er, svo sem stígakerfi og skógarhýsi. Var gerð skiltisins styrkt af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Einnig var nú í nóvember reist fánastöng þar. Er hún úr sitkagreni og gerð af Skógræktarfélagi Reykjavíkur.

brynjudalur-nytt1

Skiltið komið á sinn stað.

brynjudalur-nytt2

Fáni Skógræktarfélags Íslands blaktir við hún á nýju fánastönginni.

Jólamarkaðurinn Elliðavatni

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Jólamarkaðurinn vinsæli við Elliðavatn opnar laugardaginn 29. nóvember og verður opinn allar helgar fram að jólum frá klukkan 11-16. Mikið úrval af íslensku handverki og hönnun.

Dagskráin hefst við hátíðlega athöfn þar sem Skólakór Norðlingaskóla ætlar að gleðja markaðsfólk og gesti með söng sínum kl.11.30 á hlaðinu og jólaljósin á trénu verða tendruð, en tréð í ár er skreytt af Gerði Jónsdóttur.

Á Hlaðinu verða til sölu nýhöggvin íslensk jólatré og þar að auki mikið úrval af tröpputrjánum vinsælu og eldiviður. Í Gamla salnum, Hlöðunni og í litlu Jólahúsunum á torginu verður fjölbreyttur hópur handverksfólks sem kynnir vörur sínar og selur. Kaffistofan verður niðri í Elliðavatnsbænum þar sem fjölskyldan getur fengið sér hressingu í anda jólanna, átt notalega stund, og hlustað á rithöfunda lesa og tónlistarfólk flytja falleg lög.

Rjóðrið er trjálundur rétt við Elliðavatnsbæinn þar sem hægt er að setjast á bekki kringum logandi varðeld. Barnastundin verður þar klukkan 14 og þá kemur barnabókahöfundur og les upp fyrir börnin. Jólasveinar koma í heimsókn á markaðinn, og kíkja líka á börnin í rjóðrinu eftir upplesturinn. Þeir syngja og tralla frá 13.30-15.30.

Hægt verður að fylgjast nánar með dagskrá jólamarkaðarins á fésbókarsíðu markaðarins þegar nær dregur. Einnig verða upplýsingar um verð og fleira tengt jólatrjáasölu og jólamarkaðnum á heimasíðu Skógræktarfélags Reykjavíkur.

jolamarkadur

Jóla- og tækifæriskort Skógræktarfélags Íslands árið 2014

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Jóla- og tækifæriskort Skógræktarfélags Íslands árið 2014 er komið út. Kortið prýðir mynd eftir Kristínu Arngrímsdóttur og prýðir sú mynd einnig forsíðu 2. heftis Skógræktarritsins 2014.

Sérstök hvatning er á kortinu, þar sem kemur fram að fyrir hvert selt kort gróðursetur félagið eitt tré. Ekkert er prentað inn í kortin, þannig að þau nýtast áfram eftir jól sem afmæliskort, boðsmiðar eða hvað sem fólki dettur í hug.

Kortin eru seld 10 saman í pakka með umslögum á kr. 2.000.

Hægt er að nálgast kortin á skrifstofu Skógræktarfélags Íslands, í Þórunnartúni 6, 2. hæð (næsti inngangur við antikbúðina). Einnig eru til nokkrar gerðir af eldri kortum (sjá hér), á kr. 1.000.

Þá er einnig hægt að panta kortin í síma 551-8150 eða með tölvupósti til skog (hjá) skog.is og fá þau póstsend en þá bætist við póstburðargjald.

tkort2014-max