Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

maí 2011

Nýr samningur Skógræktarfélags Íslands við Arion banka

Með Skógræktarverkefni

Skógræktarfélag Íslands hefur nú gert samstarfssamning við Arion banka um verkefnið Opinn skóg og útgáfu og kynningu á skógræktarsvæðum á Íslandi. Samninginn undirrituðu Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka fimmtudaginn 19. maí.

Markmið samningsins er styrkja skógræktarstarf á Íslandi og miðla og kynna almenningi alhliða upplýsingar um tré og skóg.

Nú þegar hafa ellefu svæði verið opnuð undir hatti Opinna skóga og það tólfta verður opnað í sumar að Fossá í Hvalfirði. Með samkomulaginu verður tryggð endurnýjun og viðhald eldri svæða Opinna skóga og unnið að því að opna ný svæði og gera þau að fyrirmyndar útivistar- og áningarstöðum. Auk þess mun Arion banki styðja ýmis konar fræðslustarf Skógræktarfélagsins.

Meðal þeirra hluta sem verður unnið að í Opnum skógum er uppbygging fyrirmyndar útivistaraðstöðu, svo sem skógarstíga, bekkja, merkinga og leiðbeininga, bílastæða o.fl. 

undirskrift-arion

Höskuldur H. Ólafsson bankastjóri Arion banka og Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, takast í hendur að lokinni undirskrift.

Veistu um merkileg tré í Reykjavík?

Með Ýmislegt

Merk tré í Reykjavík, menningarsaga reykvískra trjáa, er vinnuheiti lokaritgerðar Bjarkar Þorleifsdóttur í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands.

Er hún að leita að gömlum trjám, sérstökum og sjaldgæfum tegundum, trjám sem eru stór, bein, kræklótt og síðast en ekki síst trjám sem hafa sögulegt gildi og hafa sérstaka merkingu fyrir íbúa í nágrenni. Þetta geta t.d. verið leiktré, tré sem var plantað fyrir nýfædd börn, plantað af þekktum einstaklingum eða tré sem setja mikinn svip á götumynd eða umhverfi sitt og þar fram eftir götunum.

Búið er að stofna Facebook-síðu utan um verkefnið undir nafninu „Merk tré í Reykjavík“ og vonast Björk til að þangað safnist upplýsingar sem koma að gagni við rannsóknina.Einnig er hægt að senda henni línu á bth79@hi.is.

Skeljungur nýr styrktaraðili að Opnum skógi

Með Skógræktarverkefni

Skógræktarfélag Íslands hefur nú gert samning við Skeljung um stuðning við verkefnið Opinn skóg. Undirrituðu Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Einar Örn Ólafsson, forstjóri Skeljungs, undir samninginn þriðjudaginn 17. maí.

Samstarfssamningurinn lýtur að víðtækum stuðningi við skógrækt vegna uppbyggingar á skógræktarsvæðum víðsvegar um land.  Markmið samningsins er að auka aðgengi og kynningu á skóglendum með markvissum hætti. Nú þegar hafa ellefu svæði verið opnuð undir hatti Opinna skóga og það tólfta verður opnað í sumar að Fossá í Hvalfirði.

Með samkomulaginu verður tryggð endurnýjun og viðhald eldri svæða Opinna skóga og unnið að því að opna ný svæði og gera þau að fyrirmyndar útivistar- og áningarstöðum. Meðal annars verður unnið að uppbyggingu ýmissa innviða, svo sem borða, bekkja, göngustíga, bílastæða o.fl., uppsetningu merkinga og upplýsingaskilta og almennrar umhirðu, svo sem grisjun.

samningurskeljungur

Einar Örn Ólafsson, forstjóri Skeljungs, og Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, við undirskrift samningsins (Mynd: RF).

opinnskogur-yfirlit

 

Sýning í Selinu og Þöll vaknar úr dvala

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Eldri borgarar í Hafnarfirði verða með sýningu á tálguðum og útskornum munum úr m.a. íslenskum viði í Selinu, bækistöðvum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Þallar, við Kaldárselsveg, laugardaginn 14. maí milli kl. 10.00 – 18.00.

Nánari upplýsingar eru veittar í síma Skógræktarfélags Hafnarfjarðar: 555-6455.

Gróðrarstöðin Þöll við Kaldárselsveg opnar aftur eftir vetrardvala þennan sama dag.

tholl
Selið að haustlagi (Mynd: RF).

Vormarkaður á Elliðavatni

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Reykjavíkur heldur Vormarkað á Elliðavatni í annað sinn dagana 13.-15. maí næstkomandi. Föstudaginn 13. maí verður opið kl. 15-18, en kl. 10-18 laugardag og sunnudag.

Félag trérennismiða verður með stóra sölusýningu í Gamla salnum og rekur auk þess kaffistofu á staðnum. Þá verða þeir með sýnikennslu á Hlaðinu eins og í fyrra.

Á laugardag verður hestaleiga fyrirtækisins Íslenski hesturinn, þar sem teymt er undir börnum í gerði við bæinn kl. 11-13. Þá verður kynning á stafgöngu á vegum ÍSÍ eftir hádegi og síðdegis verður síðan Vorblót að Vatni á vegum Ásatrúarmanna, sem bjóða öllum að fagna gróandanum með sér.

Fuglavernd og Ferðafélag Íslands verða með kynningu á starfseminni og bjóða fólki í fræðslugöngur á meðan á Vormarkaðnum stendur. Á föstudag verður kennsla í fluguhnýtingum. Á laugardag býðst fólki að kasta flugu með leiðsögn og á sunnudeginum verður síðan kastkeppni á túninu neðan við bæinn.

Gámaþjónustan býður öllum upp á ókeypis moltu í garðinn -og ekki má gleyma Skógræktarfélaginu sem hefur til sölu eldivið, bolvið og kurl og einnig munu skógarmenn sýna nýjustu vélarnar að störfum á laugardeginum.

Fyrsti Öskjuhlíðardagurinn

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Fyrsti Öskjuhlíðardagurinn var haldinn hátíðlegur í blíðskaparveðri síðast liðinn laugardag. Tilefni hans var undirritun samkomulags um stofnun starfshóps sem móta á samstarf Reykjavíkurborgar, Háskólans í Reykjavík og Skógræktarfélags íslands um útivistarsvæðið í Öskjuhlíð með það að markmiði að styrkja svæðið sem náttúruperlu, útivistar- og kennslusvæði.
 
Formleg dagskrá hófst með því Jón Gnarr borgarstjóri setti hátíðina kl. 11 í Sólinni, aðalbyggingu Háskólans í Reykjavík. Því næst undirrituðu Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, Jón Gnarr borgarstjóri og Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, undir samkomulagið. Að því loknu tók hver viðburðurinn af öðrum við, en mörg hundruð manns mættu á hátíðina og skemmtu sér vel, enda veður eins og best varð á kosið.

Við Háskólann í Reykjavík sýnd Jón Gnarr borgarstjóri gestum hvernig ætti að búa til moltu, en hann hefur gert það á sínu heimili í áraraðir og Kristinn Þorsteinsson veitti ráðgjöf og fræðslu um fræsáning og vorverkin í garðinum. Nemendur HR og Listaháskólans sýndu gagnvirk listaverk, sem vöktu mikla lukku meðal yngri kynslóðarinnar.

Rúmlega 60 manns tóku þátt í rathlaupsleik Vals og Heklu og mátti finna börn og fullorðna um alla Öskjuhlíð að reyna að fara uppgefnar brautir á sem skemmstum tíma.

Tvær fjölskyldugöngur voru farnar um Öskjuhlíðina undir leiðsögn Stefáns Pálssonar sagnfræðings, Yngva Þórs Loftssonar landslagsarkitekts og Steinar Björgvinssonar skógfræðings. Gönguferðunum lauk við stríðsminjar í hlíðinni, þar sem ljóðalestur tók við. Í fyrri göngunni voru það ljóðskáldin Gerður Kristný og Þórarinn Eldjárn sem fóru með ljóð, en í þeirri seinni Vilborg Dagbjartsdóttir og Sigurður Pálsson.

Sjá mátti skógarmenn  grisja í skóginum og einnig var stór sög á svæðinu til að saga efniviðinn sem til féll í planka.

Í Nauthólsvíkinni bauð Hjálparsveit skáta í Kópavogi upp á siglingu með bátum sveitarinnar um Fossvoginn og nýttu fjöldi barna og fullorðinna tækifærið. Auk þess fóru nokkrir í sjóbað í Nauthólsvíkinni.

Opið hús var í Opið hús var í Barnaskóla Hjallastefnunnar þar sem nemendur sýndu gestum uppáhaldsstaðina sína í Öskjuhlíðinni.

Fjölbreytt tónlist var einnig í boði. HR-bandið hitaði upp fyrir hátíðina í byrjun dags, um hádegisbil tók Ragnar Bjarnason lagið ásamt Þorgeiri Ástvaldssyni og í lok hátíðarinnar tróð Gleðisveit lýðveldisins upp.

Myndasyrpu frá hátíðinni má sjá á fésbókarsíðu Skógræktarfélags Íslands (hér).

oskjuhlid-undirskrift

Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, Jón Gnarr borgarstjóri og Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, skrifuðu undir samkomulag um samstarf (Mynd: RF).

oskjuhlidardagur

Boðið var upp á tvær skógargöngur með leiðsögn um Öskjuhlíðina (Mynd: RF).

Samstarfssamningur Toyota á Íslandi og Skógræktarfélags Íslands

Með Skógræktarverkefni

Toyota á Íslandi hf. og Skógræktarfélag Íslands hafa gert með sér samstarfssamning og var hann undirritaður af Úlfari Steindórssyni, forstjóra Toyota og Magnúsi Gunnarssyni, formanni Skógræktarfélags Íslands, fimmtudaginn 5. maí síðast liðinn. Hefur samningurinn að markmiði að efla ákveðin skógræktarsvæði, með aukið útivistargildi og jákvæð umhverfisáhrif að leiðarljósi. Er þetta framhald á fyrra samstarfi, en Toyota hefur frá árinu 1990 verið einn helsti stuðningsaðili Skógræktarfélags Íslands.

Samkvæmt samningnum mun Toyota leggja til fjármagn til margvíslegrar uppbyggingar á svæðunum, s.s. gróðursetningar, grisjunar og umhirðu, stígagerðar, merkinga o.fl., en Skógræktarfélag Íslands og viðkomandi aðildarfélög munu sjá um verklegar framkvæmdir. Auk þess mun Toyota lána Skógræktarfélagi Íslands bifreiðar til afnota á helsta athafnatíma  félagsins.

Toyota-skógarnir sem um ræðir eru sex talsins um land allt og eru þeir á Ingunnarstöðum í Brynjudal, í Esjuhlíðum, í Kjarnaskógi, í Reyðarfirði, á Söndum í Dýrafirði og í Varmalandi í Borgarfirði.

samningurtoyota

Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota, takast í hendur að undirskrift samnings lokinni (Mynd: Brynjólfur Jónsson).

Öskjuhlíðardagurinn á laugardaginn

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Öskjuhlíðardagurinn verður haldinn í fyrsta sinn laugardaginn 7. maí. Tilefni þess er að þá verður undirritað samkomulag um stofnun starfshóps sem ætlað er að móta samstarf Reykjavíkurborgar, Háskólans í Reykjavík og Skógræktarfélags Íslands um útivistarsvæðið í Öskjuhlíð með það að markmiði að styrkja svæðið sem náttúruperlu, útivistar- og kennslusvæði. Starfshópnum er ætlað að móta tillögur um verkefni með eftirfarandi markmið að leiðarljósi:

  • Skógur: Að auka fjölbreytni í skógrækt og bæta umhirðu skógarsvæðisins.
  • Fræðsla: Að efla fræðslu og þekkingu almennings á náttúru og sögu Öskjuhlíðar, meðal annars í gegnum fjölbreytt skólastarf í Öskjuhlíð.
  • Rannsóknir: Að efla fjölbreyttar rannsóknir á svæðinu, þar á meðal notkun þess.
  • Útivist: Að efla lýðheilsu með því að bæta aðstöðu í Öskjuhlíð til fjölbreyttrar útivistar og hreyfingar.
  • Skipulag: Að skoða mögulegar breytingar á skipulagi svæðisins með tilliti til dvalarsvæða, stígatenginga o.s.frv.

Dagskrá:
Taktu þátt í ratleik í Öskjuhlíðinni, farðu í siglingu í Nauthólsvík, kynnstu Öskjuhlíðinni í skemmtilegum gönguferðum með leiðsögn, hlustaðu á Ragga Bjarna og Gleðisveit lýðveldisins, lærðu allt um vorverkin í  garðinum, að búa til moltu og farðu í sjósund í Nauthólsvík. Sjáðu stóra skógarsög að  verki, heimsæktu börnin í Barnaskóla Hjallastefnunnar og hlýddu á bestu ljóðskáld þjóðarinnar í skóginum í Öskjuhlíð.

Dagskrá og kort (pdf)


Rathlaup Heklu og Vals:
Rathlaupsfélagið Hekla og Knattspyrnufélagið Valur standa fyrir rathlaupi í Öskjuhlíðinni. Boðið verður upp á tvær hefðbundnar rathlaupsbrautir, langa og miðlungslanga. Brautirnar eru útbúnar stafrænum tímatökubúnaði frá SPORTident og geta þátttakendur valið að fara eina eða báðar brautirnar. Þá verður boðið upp á braut fyrir börn og fjölskyldur. Brautin er stutt og lögð þannig að auðvelt er að fara með barnavagna um hana.

Létt leið (pdf)

Miðlungs leið (pdf)

Löng leið (pdf)

Opið hús skógræktarfélaganna: „Þú leysir úr álögum sofandi fræ“

Með Fræðsla

Þriðja Opna hús ársins 2011 verður miðvikudagskvöldið 4. maí og hefst kl. 20:00, í fundarsal á jarðhæð Arion-banka, Borgartúni 19. Gengið er inn um aðaldyr að austanverðu og er salurinn svo á vinstri hönd.

Kristinn H. Þorsteinsson garðyrkjufræðingur flytur erindi, sem hann nefnir „Þú leysir úr álögum sofandi fræ“.  Það er vor í lofti, ilmur gróandans leikur að vitunum og skógarmenn undirbúa vorverkin. Í erindi sínu ætlar Kristinn meðal annars að  fjalla um það helsta sem snýr að fræsöfnun, geymslu fræja, sáningu, græðlingarækt og uppeldi.

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.