Skip to main content
All Posts By

a8

Ný trjátegund á Vopnafirði

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Það var lengi trú manna að ekki væri hægt að rækta tré á Vopnafirði en undanfarin 50 ára hafa sýnt að sú trú manna stenst ekki. Þar þrífast margar tegundir og hæstu tré eru trúlega komin vel yfir 10 m á hæð. Sífellt bætast við tegundir sem þrífast hér. Við góð vaxtaskilyrði og svolitla auka umönnun er jafn vel hægt að rækta tegundir eins og eik, álm, ask og eplatré.

Nýlega bættist svo ný og einkar áhugaverð tegund við, sem ekki hefur sést áður og virðist mjög sjaldgæf á Íslandi. Tréð fannst skammt utan við þorpið nálagt tóftunum af bænum Hlíðarenda í norðanverðum Tangasporði. Tréð er sérstak afbrigði af ösp (Populus) allt að 5 m á hæð með mjög sérstaka ávexti. Það sem einkennir þessa ávexti eru skærir litir og einkennileg form. Ávextirnir virðast bætast við hvenær sem er á árinu. Ákveðið hefur verið að gefa trénu nafnið: Snuddu-tré (Populus gummata).

Áhugavert verður að fylgast með þroska trésins á komandi árum. – Fjölgar ávöxtum? Koma nýjir litir? Hverfa ávextirnir? Og síðast en ekki síst – á tréð eftir að fjölga sér á landsvísu?


snuddutre

Arboret í Esjuhlíðum

Með Fundir og ráðstefnur

Nú er í undirbúningi að stofna arboret, trjásafn með sjálfstæða starfsemi á sviði ræktunar, rannsókna, fræðslu og útivistar á um 20 ha svæði í hlíðum Esju. Að þessu verkefni standa Trjáræktarklúbburinn í samstarfi við Skógræktina og Skógræktarfélag Reykjavíkur.

Kynningarfundur verður haldinn um verkefnið fimmtudaginn 28. júní í Öskju, húsi Háskóla Íslands og hefst hann kl. 13:30. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra mun setja fundinn. Aðalfyrirlesarar fundarins eru frá tveim af merkustu arboretum í heimi, William Friedman, forstöðumaður Arnold Arboretum í Boston og Wilfried Emmerechts, skógarvörður konungseigna í Belgíu og einn af umsjónarmönnum landfræðilega arboretsins í Tervuren, skammt frá Brussel. Einnig mun Axel Kristinsson, formaður nefndar um arboret, kynna hugmyndina um arboret í Esjuhlíðum, Einar Sveinbjörnsson fjallar um veðurfar á svæðinu, Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri fjallar um trjásöfn Skógræktarinnar og Pamela Diggle, prófessor í vistfræði og þróunarlíffræði við Connecticut háskóla (og eiginkona Friedmans) mun fjalla um blómstrandi runna frá Alaska. Fundarstjóri er Pétur Halldórsson.

Trjáræktarklúbburinn var stofnaður árið 2004 sem vettvangur áhugafólks um trjárækt og fjölgun trjátegunda á Íslandi en hann hefur haft uppbyggingu arborets á stefnu sinni frá upphafi. Mörg trjásöfn er að finna á Íslandi, eins og í Fossvogsdal, Hallormsstað eða Mógilsá, þar sem sjá má fjölda tegunda merktra trjáa en hingað til hefur vantað eiginlegt arboret eins og finna má í flestum löndum heims. Arboret eru meira eða minna sjálfstæðar stofnanir með eigin starfsemi, grasagarðar sem sérhæfa sig í trjákenndum plöntum. Arboretið í Esjuhlíðum á að verða meginsafn Íslands á þessu sviði.

Nánar um aðalfyrirlesara
arboretum-friedman (Ned) Friedman er forstöðumaður Arnold Arboretum í Boston en hann er jafnframt prófessor í þróunarlíffræði við Harvard háskóla og þekktur fyrir að breyta hugmyndum okkar um elstu þróun blómplantna. Hann hefur unnið ötullega að því að auka tengsl Arnold við almenning og hefur nýlega hrint af stað verkefni sem á að fjölga mjög tegundum frá Asíu í safninu en þar á meðal eru margar sem eru í útrýmingarhættu. Fyrirlestur hans nefnist „Plöntur í hönnuðum heimi“ (Plants in a Designed World: The Civic and Scholarly Importance of an Arboretum in the Twenty-First Century).

Hvað er arboret nákvæmlega? Grasagarður? Almenningsgarður? Verndarsvæði tegunda sem er ógnað? Safn lifandi hluta? Staður sem hjálpar til við að skilgreina sambandið milli fólks og annarra lífvera? Kjarni félagslegs og efnahagslegs réttlætis? Friedman mun ræða margvísleg staðbundin og alþjóðleg hlutverk arboreta með því að beina sjónum að Arnold arboretinu við Harvard háskóla sem er einstakt sambland af rannsóknarstofnun og vinsælum almenningsagarði og hluti af „smaragðshálsfestinni“ sem umlykur Boston. Fjölbreytni plantna stafar nú mikil ógn af umhverfisbreytingum af mannavöldum sem hefur knúið Arnold Arboretum til að hefja átak í vernd þeirra. Um leið er Arnold menningarstofnun sem er opin öllum endurgjaldslaust en er nú að endurhugsa félagslegt og efnahagslegt mikilvægi sitt í Boston. William Friedman mun ræða alþjóðleg og staðbundin verkefni þessa (að hans mati!) frábærasta safns trjáplatna í heimi og velta fyrir sér óendanlegum möguleikum þess að búa til íslenskt arboret sem komandi kynslóðir geta notið og lært af.

arboretum-emmerechtsWilfried Emmerechts er skógarvörður konungseigna í Belgíu og einn af umsjónarmönnum landfræðilega arboretsins í Tervuren, skammt frá Brussel, sem frægt er fyrir að endurskapa umhverfi margra mismunandi svæða víðsvegar um heim. Emmerechts mun tala um endurnýjun skógartrjásafna í Vestur-Evrópu (Revival of Forest Arboreta in Western Europe).

Þegar skógartré frá Ameríku og Asíu urðu vel kunn í Evrópu við lok 19. aldar vöktu þau áhuga skógræktarfólks sem vildu bæta við hið takmarkaða framboð innfæddra tegunda. Skógræktarstofnanir settu upp tilraunastöðvar um alla Evrópu og gróðursettu fjölda framandi tegunda til að finna þær sem gætu aðlagast og orðið nýtilegar á hverjum stað. Í þeim löndum Norður-Evrópu sem höfðu litla skógarþekju (eins og Írlandi, Skotlandi og Danmörku) urðu aðfluttar tegundir áberandi í skógrækt en lítt notaðar á meginlandinu. Margar tilraunir héldust þó við sem skógartrjásöfn sem nutu afar mismunandi athygli og áhuga almennings eða yfirvalda. Á síðari árum hefur áhugi á þessum trjásöfnum vaxið á ný ekki síst vegna þess að hinar aðfluttu tegundir sem í þeim finnast gætu leikið mikilvægt hlutverk í aðlögun að yfirvofandi loftslagsbreytingum. Í fyrirlestri sínum mun Emmerechts ræða endurnýjun þessara skógartrjásafna og jafnframt fara í leiðangur um forvitnilega staði í Benelux löndunum, Frakklandi og Þýskalandi.

arboretum-plan-min

Hugmynd að skipulagi svæðisins

 

Gagnlegir tenglar:

Síða Trjáræktarklúbbsins um arboretið:

https://trjaklubbur.is/about/arboret-i-esjuhlidum/

Vefur Arnold Arboretum:

https://www.arboretum.harvard.edu

Líf í lundi laugardaginn 23. júní

Með Ýmislegt

Líf í lundi er útivistar- og fjölskyldudagur í skógum landsins, sem skógaraðilar á Íslandi standa sameiginlega að. Markmið hans er að fá almenning til að heimsækja skóga landsins og stunda hreyfingu, njóta samveru og upplifa skóga og náttúru landsins. Boðið verður upp á fjölmarga viðburði í skógum landsins um land allt á laugardeginum 23. júní. Að deginum standa Skógræktarfélag Íslands og aðildarfélög þess, Skógræktin og Landssamtök skógareigenda, í samvinnu við aðrar stofnanir og félagasamtök, auk þess sem Arion banki styður almennt við verkefnið.

Nánari upplýsingar um viðburði verður hægt að finna á Skógargátt-vefsíðunni – https://www.skogargatt.is/ og á Facebook-síðu Líf í lundi – https://www.facebook.com/lifilundi/, auk þess sem einstakir viðburðahaldarar verða með kynningu á sínum miðlum.

 

Viðburðir:

Ferðafélag Íslands: Skógarganga í Ferðafélagsreitnum í Heiðmörk kl. 10:30. Gönguferð og F.Í. ratleikurinn.

Garðyrkjufélag Íslands og Grasagarður Reykjavíkur: Fræðsluganga í Kálfamóa við Keldur kl. 13. Jóhann Pálsson segir frá gróðri og gróðurframvindu á svæðinu.

Skógræktarfélag Akraness: Skógardagur í Slögu. Tálgun, bakstur yfir eldi, axarkast og fleira.

Skógræktarfélag Austur-Húnvetninga: Skógardagur að Gunnfríðarstöðum kl. 14. Fræðsla, skógarganga, ketilkaffi og fleira.

Skógræktarfélag Austurlands, Skógræktin, Félag skógarbænda á Austurlandi og fleiri: Skógardagurinn mikli 2018 í Mörkinni, Hallormsstað kl. 12-16. Söngur, þrautir, tónlist, skógarhöggskeppni, skemmtiskokk, grill og fleira.

Skógræktarfélag Bíldudals: Skógardagur í Seljaskógi kl. 13. Skógarganga, listaverkagerð og skógarhressing.

Skógræktarfélag Borgarfjarðar, Skógræktin og Félag skógarbænda á Vesturlandi: Skógardagur í Selskógi í Skorradal kl. 13-16. Skógarganga, tálgun, leikir, ketilkaffi og fleira.

Skógræktarfélag Djúpavogs: Samvera í Hálsaskógi kl. 19. Leikir, skógarskoðun, kaffi og lummur.

Skógræktarfélag Eyfirðinga, Skógræktin, Félag skógarbænda á Norðurlandi, Sólskógar og Akureyrarbær: Skógardagur Norðurlands kl. 14-17. Skógarganga, skúlptúragerð með keðjusög, flautugerð, tálgun, leikir, skógarkaffi og með því.

Skógræktarfélag Garðabæjar og Skógræktarfélag Íslands: Fullveldisgróðursetning í Sandahlíð kl. 14-16. Hægt að mæta hvenær sem er og prófa að gróðursetja.

Skógræktarfélag Grindavíkur: Skógardagur í Selskógi kl. 10-12. Fróðleikur, tálgað í tré og brauð á teini.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar og Íshestar: Fjölskyldudagur í Höfðaskógi kl. 14-17. Skógarganga, ratleikur og hressing, yngri kynslóðin fær að prófa að fara á hestbak.

Skógræktarfélag Kópavogs: Gróðursetning aldingarðs í Guðmundarlundi kl. 16. Fræðsla um ræktun aldintrjáa og berjarunna, grill og gleði.

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar: Skógardagur í Meltúnsreit kl. 11-13. Ketilbjölluæfingar, axarkast, leikir, eldað yfir eldi og fleira.

Skógræktarfélag Reykjavíkur og Ásatrúarfélagið: Skógarblót í Öskjuhlíð kl. 21. Auk blóts gefst gestum tækifæri til að kíkja á hof Ásatrúarfélagsins, sem er í byggingu.

Skógræktarfélag Skilmannahrepps: Skógarganga í Álfholtsskógi kl. 13-15. Fræðsla, kaffi og með því.

Skógræktarfélag Suður-Þingeyinga: Skógardagur í Fossselsskógi kl. 13. Fræðsla og þrautir fyrir börnin.

Skógræktarfélagið Landbót: Skógardagur í skógarlundi í Vopnafirði, utan og ofan við Lónin. Ratleikur, skógarfræðsla og fleira.

Skógræktarfélagið Skógfell: Ganga að Háabjalla kl. 13. Gengið frá leikskólanum. Grillað brauð og útivera.


Brunavarnir í gróðri: Kynning

Með Ýmislegt

Starfshópur um brunavarnir í gróðri heldur blaðamannafund fimmtudaginn 24. maí kl. 14 í húsakynnum Skógræktarfélags Reykjavíkur að Elliðavatni. Þar verður formlega kynntur nýr bæklingur um brunavarnir í gróðri ásamt veggspjöldum og nýrri vefsíðu, grodureldar.is.

Gróðurbrunar á Íslandi hafa hingað til einskorðast að mestu við sinubruna, en með aukinni skógrækt um land allt og vaxandi útbreiðslu íslenska birkisins er hættan á skógarbrunum og kjarreldum nýr veruleiki sem takast þarf á við.

Stórir skógarbrunar, eins og fréttist af frá útlöndum, verða ekki á Íslandi enda engin skilyrði fyrir slíkt hérlendis. Þó hefur hætta á gróðureldum margfaldast á undanförnum áratugum í takt við hlýnandi veðurfar og aukna áherslu á landvernd og skógrækt. Kröfur um auknar varnir og viðbúnað hafa ekki haldist í hendur við þessar breytingar. Víða getur skapast mikil hætta vegna gróðurelda og við því þarf að bregðast. Mörg þessara svæða eru vinsæl útivistar- og sumarhúsasvæði og þar eru mikil verðmæti fólgin í bæði skógi og mannvirkjum.

Skráningar á gróðureldum undanfarinna ára sýna að langflestir gróðureldar kvikna af mannavöldum og flestir af völdum íkveikju. Helstu orsakirnar eru íkveikja, atvinnustarfsemi og frístundaiðkun fólks en einnig kemur fyrir að kvikni í gróðri vegna eldinga.

Til að bregðast við þessari vá var settur saman stýrihópur um mótun vinnureglna um brunavarnir í skógi og öðrum gróðri. Síðustu misseri hefur hópurinn greint vandann og leitað leiða til úrbóta. Samin hefur verið greinagerð með niðurstöðum og tillögum stýrihópsins um forvarnir og rétt viðbrögð við gróðureldum. Auk stýrihópsins unnu sjálfstæðir vinnuhópar að mótun afmarkaðra þátta brunavarna í gróðri.

Afrakstur þessarar vinnu birtist í nýjum bæklingi sem kynntur verður að Elliðavatni á fimmtudag. Í honum er að finna leiðbeiningar sem gagnast m.a. eigendum skóga og sumarhúsa. Einnig hefur verið útbúið veggspjald með helstu aðalatriðum um þessi efni sem gott er að festa upp á góðum stað til að vekja athygli á réttum vörnum og viðbúnaði við gróðureldum.

Á fimmtudaginn verður jafnframt opnuð formlega ný vefsíða á slóðinni www.grodureldar.is. Á síðunni verður efni bæklingsins birt á aðgengilegan hátt ásamt veggspjaldinu. Auk þess verður þar ítarefni sem nota má til að gera áætlanir um brunavarnir í gróðri, hvort sem er fyrir skóg eða önnur gróðursvæði svo sem sumarhúsalönd.

Í stýrihópnum sátu fulltrúar frá Skógræktinni, Skógræktarfélagi Íslands (fulltrúi skógræktarfélaganna), Landssamtökum skógareigenda, Mannvirkjastofnun, Félagi slökkviliðsstjóra/Brunavörnum Árnessýslu, Landssambandi sumarhúsaeigenda og Verkfræðistofunni Verkís (viðauki 10). Fulltrúi Skógræktarinnar leiddi stýrihópinn. Hönnun bæklings og veggspjalds var í höndum Forstofunnar, en Verkís sá um ritun greinargerðar á grundvelli framlagðra upplýsinga.

 

Dagskrá:

14:00 – Gestir boðnir velkomnir             
Björn Bjarndal Jónsson, formaður vinnuhópsins

14:10 – Ný vefsíða, www.grodureldar.is
Pétur Pétursson, formaður Félags slökkviliðsstjóra og slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu

14:20 – Samræmd framsetning upplýsinga í brunavörnum                                                    
Björn Traustason, sérfræðingur Mógilsá

14:30 – Brunavarnir í gróðri við sumarhús
Dóra Hjálmarsdóttir, sérfræðingur Verkís

14:40 – Almenn ávörp

Lok klukkan 15:00


Leiðarlýsing að Elliðavatni: https://ja.is/skograektarfelag-reykjavikur-ellidavatni

Skógræktarfélag Kópavogs: Fræðslufundur – ávaxtatré

Með Fræðsla

Skógræktarfélag Kópavogs stendur fyrir fræðslufundi mánudaginn 7. maí. Ólafur Njálsson, garðyrkjubóndi í Nátthaga, mun miðla ýmsu um þrif ávaxtatrjáa og segja frá varðveisluverkefni sem hann fékk styrk til árið 2017 frá Uppbyggingarsjóði Suðurlands, en þegar eru skráð tæplega 400 yrki af perum, eplum, plómum og kirsi í verkefnið.

Fundurinn er haldinn í Kiwanishúsinu, Smiðjuvegi 13a og hefst kl. 20:00.

Kaffi og meðlæti í boði félagsins.

Allir velkomnir!

Aðalfundur Skógræktarfélagsins Merkur 2018

Með Fundir og ráðstefnur
Aðalfundur Skógræktarfélagsins Merkur 2018 verður haldinn á Icelandair Hótel Klaustur laugardaginn 28. apríl og  hefst kl. 13:30.

Dagskrá:
Venjuleg aðalfundarstörf
Önnur mál

Valgerður Erlingsdóttir skógfræðingur flytur fræðsluerindi um klippingu trjáa  og runna.

Kaffiveitingar í boði félagsins. Allir áhugasamir hjartanlega velkomnir.

Stjórn Skógræktarfélagsins Merkur, Kirkjubæjarklaustri.