Skip to main content
Flokkur

Fréttir frá skógræktarfélögum

Borgartréð í Reykjavík 2014

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Borgartréð 2014 er garðahlynur við Sturluhallir, Laufásvegi 49-51, þar sem Íslenska auglýsingastofan er til húsa. Tréð verður formlega útnefnt við hátíðlega athöfn föstudaginn 21. nóvember. Útnefningin er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Hlynurinn við Sturluhallir var gróðursettur árið 1922 og er 10,2 m.á hæð og 2,02 m í ummál þar sem bolurinn er sverastur, þetta er einhver krónumesti hlynur á landinu. Króna garðahlynsins er yfirleitt regnhlífalöguð hér á landi.
Hlynurinn hefur mikið gildi í ræktun í görðum og opnum svæðum. Viður hans er ljós og meðal annars notaður í parket, húsgögn og hljóðfærasmíð, eins og fiðlur, enda leiðir hann hljóð óvenju vel. Síróp er gert úr vökva hlynsins og er það töluverður iðnaður í Norður-Ameríku.

Börkurinn er grár og sléttur en verður hrufóttur með árunum og þykir mikið augnayndi. Blöðin eru handsepótt og frekar stór og með gulan haustlit. Blóm eru gulgræn í hangandi klösum og vinsæl meðal býflugna. Aldinið er tvær hnotur með samvöxnum vængjum sem minna á þyrluspaða þegar þær svífa til jarðar, í miklum vindi geta fræin ferðast nokkur hundruð metra frá móðurtrénu. Hlynur þolir mengun, salt og vind þegar hann eldist en er viðkvæmur í uppeldi.

Hvergi á landinu er garðahlynurinn jafn algengur og í Reykjavík og verður hann meira áberandi í borgarlandslaginu með hverju árinu sem líður. Flestir stóru hlynir borgarinnar eru rétt að slíta barnsskónum ef miðað er við þann 500 ára aldur sem hann nær.

Borgarstjóri Reykjavíkur, Dagur B. Eggertsson, mun útnefna tréð og tendra ljósin á trénu. Valgeir Guðjónsson flytur lag sitt Tré. Dr. Sturla Friðriksson, eigandi trésins, segir einnig nokkur orð við þetta tilefni, en Sturla ólst upp á Laufásvegi 49 og lék sér mikið í garðinum þar sem tréð stendur.


Opin dagskráin hefst kl. 17 í garði Laufásvegar 49-51.

borgartre

Athugasemd frá Skógræktarfélagi Íslands við ályktun Skógræktarfélags Reykjavíkur, vegna Teigsskógar

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum þann 15. október sl. ályktun er varðar samþykkt stjórnar Skógræktarfélags Íslands og skógræktarfélaga á Vestfjörðum um Teigsskóg. Því miður er í ályktun Skógræktarfélags Reykjavíkur hallað réttu máli. Ekki skal hér farið í efnislegar deilur við stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur um Teigsskóg en nauðsynlegt er að leiðrétta rangfærslur sem fram koma í ályktuninni.
Fullyrt er í ályktun Skógræktarfélags Reykjavíkur að undirtektir skógræktarmanna við framkominni tillögu á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands hafi verið dræmar. Hið rétta er að miklar umræður spunnust á fundinum um tillöguna og voru fundarmenn ekki á eitt sáttir um hana eins og hún var fram sett. Þótti tillagan nokkuð beinskeytt, auk þess sem fundarmönnum fannst ekki nægjanlega skýrt að skógræktarfélögin á Vestfjörðum stæðu að baki ályktuninni. Tillagan var hins vegar borin fram af stjórn Skógræktarfélags Íslands vegna óska frá aðildarfélögum Skógræktarfélags Íslands á sunnanverðum Vestfjörðum.

Niðurstaða skógræktarnefndar á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands var sú að leggja til að vísa tillögunni til stjórnar S.Í. og var það samþykkt á aðalfundinum. Það er því rangt eins og fram kemur í ályktun Skógræktarfélags Reykjavíkur að endanleg tillaga, sem fékk umfjöllun og afgreiðslu í stjórn Skógræktarfélags Íslands, sé í andstöðu við vilja aðalfundar. Þorri fundarmanna var hins vegar þeirrar skoðunar að nauðsynlegt væri að umorða tillöguna, sem síðar var gert, og hún afgreidd af stjórn Skógræktarfélags Íslands með öllum greiddum atkvæðum, eins og áður er getið.

Í meðförum stjórnar Skógræktarfélags Íslands var ályktuninni verulega breitt frá upphaflegri tillögu og að endingu stóðu sjö skógræktarfélög á Vestfjörðum og Skógræktarfélag Íslands að ályktuninni sem samþykkt var á stjórnarfundi Skógræktarfélags Íslands þann 1. október sl.

Ályktunin er því í fullu samræmi við óskir skógræktarfélaganna og neðangreind fullyrðing Skógræktarfélags Reykjavíkur því fullkomlega röng, en þar segir:
Ályktun stjórnar félagsins ( S.Í) er ekki í samræmi við vilja kjörinna fulltrúa skógræktarfélaga í landinu eins og hann birtist á fundi aðalfundar Skógræktarfélags Íslands.

Skógræktarfélag Íslands eru landssamtök 61 skógræktarfélags víðs vegar um land og stjórn Skógræktarfélags Íslands leggur sig fram um að hlusta á þau málefni sem heitast brenna á félagsmönnum og geta orðið skógræktarfélögum og viðkomandi samfélagi til framdráttar. Öflugt starf sjálfboðaliða í skógræktarhreyfingunni er afar mikilvægt, en ekki sjálfgefið. Skógræktarfélag Íslands virðir mismunandi skoðanir og ályktanir einstakra félaga innan vébanda þess. Í því tilviki sem hér er rakið hlustaði stjórn Skógræktarfélag Íslands á raddir skógræktarmanna og fólksins sem býr við erfið samgönguskilyrði á Vestfjörðum og mat það svo að hagsmunir íbúa á svæðinu væru mikilvægari en að lítill hluti, 1% kjarrlendis í Þorskafirði og Teigsskógi, þyrfti að víkja fyrir betri samgöngum á svæðinu.

Ályktun Skógræktarfélags Íslands og skógræktarfélaga á Vestfjörðum um Teigsskóg

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Íslands telur, ásamt skógræktarfélögum á Vestfjörðum, að ekki sé ástæða til að leggjast gegn vegagerð um Teigsskóg í Þorskafirði. Í umræðu um ráðgerðan veg hefur því m.a. verið haldið fram að nauðsynlegt sé að varðveita Teigsskóg. Telja verður að þetta séu haldlaus rök, notuð sem yfirvarp. Örlítið brot af Teigsskógi og skóglendi að vestanverðu í Þorskafirði fer undir veg samkvæmt nýjustu tillögu Vegagerðarinnar, innan við 1% af heildarflatarmáli skógarins. Skaðinn er því óverulegur. Við fyrirhugaðar framkvæmdir verður jafnmikill birkiskógur ræktaður innan héraðs til mótvægis við skerðingu í Teigsskógi. Birkiskóglendi á sunnanverðum Vestfjarðakjálkanum minnkar því ekki við gerð vegarins.

Á Vestfjörðum er að finna marga fallega birkiskóga. Nýr vegur um Teigsskóg mun greiða almenningi leið að Teigsskógi til að njóta hans og annarra fallegra náttúrufyrirbæra við utanverðan Þorskafjörð. Félögin benda á að engir hafa varðveitt betur sinn upprunalega birkiskóg en Barðstrendingar. Kjarr er mjög víða í sýslunni og nánast ómögulegt að leggja vegi án þess að að fara um kjarrlendi. Undanfarin tvö ár hefur Vegagerðin unnið að löngu tímabærum vegabótum vestar í sýslunni og hefur þurft að ryðja þar alls um 5 hektara birkiskógar. Til samanburðar er talið að varanleg röskun í Teigsskógi og Þorskafirði verði samtals 6,1 ha, verði farin sú veglína sem Vegagerð ríkisins kynnti nýlega.

Samkvæmt gildandi lögum er Vegagerðinni skylt að rækta nýjan birkiskóg á jafnstóru svæði og því sem skert er. Náttúrulegir birkiskógar í héraðinu eru jafnframt í mikilli útbreiðslu og vexti um þessar mundir.

Engin sérstök náttúrufræðileg rök hníga því til þess að fáeinir hektarar af birki í Teigsskógi skuli vera sá farartálmi nauðsynlegum vegabótum sem raun ber vitni. Óhóflegar og illa rökstuddar verndarkröfur mega ekki hindra að lagðir verði nútímalegir vegir um sýsluna. Með því væri að óþörfu gengið gegn búsetugæðum íbúa sem hafa verið í fararbroddi við að rækta og vernda náttúrulegt skóglendi.

Skógræktarfélag Bolungarvíkur
Skógræktarfélag Ísafjarðar
Skógræktarfélag Dýrafjarðar
Skógræktarfélag Bíldudals
Skógræktarfélag Tálknafjarðar
Skógræktarfélag Patreksfjarðar
Skógræktarfélag Strandasýslu
Skógræktarfélag Íslands

Nánari upplýsingar veita Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, s. 665-8910 og Brynjólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Íslands, s. 820-2113.

Tré ársins 2014

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Íslands, í samstarfi við Arion banka, útnefnir evrópulerki (Larix decidua) við Arnarholt í Stafholtstungum Tré ársins 2014, við hátíðlega athöfn sunnudaginn 14. september kl. 14.

Boðið verður upp á fjölbreytta og skemmtilega dagskrá. Allir velkomnir.

Skógræktarfélag Íslands útnefnir árlega Tré ársins. Er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land.


trearsins

(Mynd: Laufey B. Hannesdóttir)

Starfsmenn bandaríska sendiráðsins gróðursetja í Brynjudal

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Þann 29. ágúst kom hópur frá bandaríska sendiráðinu í heimsókn í skóg Skógræktarfélags Íslands í Brynjudal í Hvalfirði. Var tilgangur ferðarinnar að láta gott af sér leiða og styðja við Skógræktarfélagið með gróðursetningu. Setti hópurinn niður 400 plöntur að þessu sinni. Heimsóknin heppnaðist mjög vel og er fullur hugur til að endurtaka viðburðinn síðar.

Myndir frá heimsókninni má skoða á Facebook-síðu félagsins (hér).

Skógræktarferð til Noregs: nokkur sæti laus

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Skógræktarfélag Íslands hefur um áraraðir staðið fyrir fræðsluferðum á erlenda grund og verður nú í haust farið til Noregs, til Sogn- og Fjarðafylkis. Ferðin er skipulögð í samráði við skógræktarfélagið á staðnum. Flogið verður til Bergen þann 30. ágúst og heim aftur þann 5. september.

Ýmislegt áhugavert tengt náttúru og sögu verður skoðað, meðal annars nyrsti beykiskógur Noregs, stafkirkjan í Stavanger, jólatrjáaræktun og fræframleiðsla.

Nánar má fræðast um ferðina á heimasíðu Skógræktarfélag Íslands – www.skog.is.

Skráning í ferðina er hjá Trex að Hesthálsi 10, 110 Reykjavík, í síma 587-6000 eða á netfangið info@trex.is.

ingvaraberge-granskog 1

(Mynd: Ingvar Åberge).

ingvaraberge-kvamsoy 039

(Mynd: Ingvar Åberge).

Gróðursetning hjá Skógræktarfélagi Borgarfjarðar

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Laugardaginn 14. júní verður gróðursetningardagur Skógræktarfélags Borgarfjarðar í Reykholti. Mæting er við Höskuldargerði kl. 13 og er fólk vinsamlegast beðið um að hafa með sér gróðursetningarverkfæri (geyspur/stafi). Sett verður niður sitkagreni, blágreni, rússalerki og evrópulerki.

Að gróðursetningu lokinni verður boðið upp á grill.

Allir velkomnir – margar hendur vinna létt verk!