Skip to main content
Flokkur

Ýmislegt

Skrína – nýtt vefrit á sviði auðlinda-, landbúnaðar- og umhverfisvísinda

Með Ýmislegt

Skrína, nýtt vefrit á sviði auðlinda-, landbúnaðar- og umhverfisvísinda hefur nú hafið göngu sína. Fyrstu tvær greinarnar sem birtar eru í ritinu fjalla annars vegar um notkun á smárablöndum í landbúnaði og sveppasjúkdóma á Íslandi.

Skrína mun birta bæði ritrýndar, fræðilegar greinar og ritstýrðar greinar almenns eðlis, auk nýgræðinga, ritfregna og ritdóma. Tekið er við greinum til birtingar allt árið og verða þær birtar jafnóðum og þær eru tilbúnar. Auk þess er mögulegt að gefa út sérhefti tengd ráðstefnum og öðrum atburðum eftir atvikum; til dæmis er fyrirhugað að árlega verði gefið út sérhefti tengt vísindaþingi landbúnaðarins ― LANDSÝN ― ef nógu margar greinar berast.

Það er von þeirra er standa að Skrínu, að hún geti orðið öflugur vettvangur fræðilegrar og faglegrar umræðu og styrki rannsóknar- og þróunarstarf á auðlinda-, landbúnaðar- og umhverfisvísinda. Fagfólk innan þessa geira er hvatt til að nýta þennan nýja vettvang vel til að koma rannsóknaniðurstöðum og öðru fræðilegu efni á á framfæri. Nánari upplýsingar um frágang og skil handrita er að finna á vefsíðu Skrínu (www.skrina.is).

Skrína verður öllum opin, sem tryggir ekki aðeins aðgang fræðasamfélagsins að niðurstöðum rannsókna sem þar eru birtar, heldur og alls almennings. Er það í samræmi við hugmyndafræði sem nú ryður sér víða til rúms, að niðurstöður rannsókna sem unnar eru fyrir almannafé eigi að vera öllum aðgengilegar.

Skrína er gefin út af Hólaskóla, Landbúnaðarháskóla Íslands, Landgræðslu ríkisins, Matís, Matvælastofnun (Mast), Skógrækt ríkisins og Veiðimálastofnun. Ritstjórn er skipuð fulltrúum þessara stofnana en ritstjóri er Ása L. Aradóttir.

Fuglavernd: Garðfuglahelgi 24.-27. janúar

Með Ýmislegt

Árleg garðfuglahelgi Fuglaverndar verður dagana 24. – 27. janúar 2014. Framkvæmd athugunarinnar er einföld. Það eina sem þátttakandi þarf að gera er að fylgjast með garði í klukkutíma á tímabilinu og skrá hjá sér hvaða fuglar koma í garðinn og mesta fjölda af hverri tegund á meðan athugunin stendur yfir. Þeir sem gefa fuglum að staðaldri eru sérstaklega hvattir til þess að taka þátt. Fólki sem ekki hefur gefið fuglum áður er bent á að gott er að hefja undirbúning talningar nokkrum dögum fyrr með því að gefa daglega til að lokka að fugla. Misjafnt er hvaða fóður hentar hverri fuglategund og má finna upplýsingar um það á Garðfuglavefnum og í Garðfuglabæklingi Fuglaverndar sem má fá á skrifstofu félagsins. Frekari upplýsingar um garðfuglahelgina er að finna á heimasíðu Fuglaverndar – fuglavernd.is.

gardfuglahelgi

Stari og gráþröstur þræta um gult epli. Starinn er sigurviss (Mynd: Örn Óskarsson).

Farsímasöfnunarátak 6.-16. desember

Með Ýmislegt

Fyrirtækin Síminn, Pósturinn og Græn framtíð standa fyrir farsímasöfnunarátaki 6.-16. desember næstkomandi. Pósturinn sendir sérhannaða plastpoka inn á öll heimili í landinu sem viðtakendur eru hvattir til að nýta undir bilaða eða afgangs farsíma. Símunum er svo skilað til Símans, þaðan sem þeir rata í hendur Grænnar framtíðar, sem kemur þeim í verð með endurnýtingu og endurvinnslu. Fyrirtæki geta einnig safnað innan sinna raða. 

Allur ágóði af símum sem safnast á þessu tímabili mun renna til styrktar góðum málefnum og er Skógræktarfélag Íslands eitt þeirra. Fjögur góðgerðarfélög eru tilgreind á plastpokanum og munu þeir sem skila inn símum geta merkt við hvaða félag óskað er eftir að styrkja. Hin félögin sem eru gefin upp eru Samhjálp, Stígamót og Hjálparsími Rauða krossins 1717.

Hvetjum við að sjálfsögðu alla skógræktarfélaga og annað skógræktarfólk til að losa sig við gömlu símana, sem safna ryki í skúffum hér og þar og styðja við Skógræktarfélag Íslands í leiðinni! Myndband með kynningu á félaginu má skoða á YouTube (hér).

Stjórn Skógræktarfélags Íslands hefur ákveðið að þeir fjármunir sem safnast, munu renna til Yrkju – sjóðs æskunnar til ræktunar landsins, en það er eitt þeirra verkefna sem félagið hefur umsjón með.
Yrkjusjóður úthlutar trjáplöntum til grunnskólabarna til gróðursetningar. Forsaga sjóðsins er sú, að árið 1990 var gefin út bókin Yrkja í tilefni 60 ára afmælis Vigdísar Finnbogadóttur sem þá var forseti Íslands. Hagnaður af sölu bókarinnar, ásamt öðrum framlögum, var settur í sjóð sem Vigdís stofnaði árið 1992. „Markmið sjóðsins er að kosta trjáplöntun íslenskra skólabarna á grunnskólastigi á ári hverju“ stendur í skipulagsskrá hans. Með þessu er honum ætlað að kynna mikilvægi skógræktar og ræktunar almennt fyrir unga fólkinu í landinu og ala þannig upp ræktendur framtíðarinnar. Á hverju ári sækja rúmlega 100 skólar um land allt um og fá úthlutað trjáplöntum.

farsimasofnun

Rannsóknastyrkir í landgræðslu og skógrækt

Með Ýmislegt

Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson auglýsir rannsóknastyrki í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu.

Til úthlutunar verða um fjórar milljónir króna. Umsóknum skal skilað eigi síðar en 20. janúar 2014.

Umsókn ásamt fylgigögnum skal skila í einu pappírseintaki og á tölvutæku formi (á geisladiski sem rtf, pdf eða word skjal). Ófullgerðum umsóknum verður vísað frá.

Umsóknum skal skila til: Landgræðslusjóðs, Þórunnartúni 6, 105 Reykjavík. Skrifa skal skýrt á umslag: „Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson“.


Umsóknareyðublað (.doc)

Fuglavernd: Fuglar og landbúnaður

Með Ýmislegt

Á fræðslufundi félagins í næstu viku, fimmtudaginn 28. nóvember, mun Lilja Jóhannesdóttir segja frá rannsóknum sínum á fuglalífi á landbúnaðarsvæðum á Suðurlandi. Fjallað verður um áhrif landnýtingar, farið verður yfir þéttleikatölur og samfélög mismunandi búsvæða og einnig verða stofnstærðir algengustu tegunda skoðaðar.

Fræðslufundir Fuglaverndar eru haldnir í húsakynnum Arion banka í Borgartúni 19 og byrjar kl. 20:30. Gengið er inn um aðalinngang á austurhlið.

Ókeypis er fyrir félagsmenn Fuglaverndar en 500 kr. fyrir aðra.

Allir velkomnir.

Garðyrkjufélags Íslands: Ræktun harðgerðra rósa á Íslandi

Með Ýmislegt

Garðyrkjufélag Íslands efnir til fræðslufundar um ræktun harðgerðra rósa á Íslandi fimmtudaginn 21. nóvember, kl. 20:00-22:00 í nýjum húsakynnum félagsins að Síðumúla 1, fyrstu hæð (gengið inn frá Ármúla).

Verður meðal annars fjallað um harðgerði rósa, hvernig rósir er verið að rækta, rósir fyrir byrjendur, ræktunarkröfur, jarðveg, áburðargjöf og almenna umhirðu rósa.

Efnið er bæði fyrir byrjendur og lengra komna.

Aðgangseyrir er kr. 500 fyrir félagsmenn og kr. 1.000 fyrir utanfélagsmenn.

Allir velkomnir

Nánari upplýsingar á heimasíðu Garðyrkjufélags Íslands.

Jólabókin í ár?

Með Ýmislegt

Ný og glæsileg skógræktarbók Skógarauðlindin – ræktun, umhirða og nýting er komin út. Bókin hentar skógarbændum, ásamt öllum þeim sem áhuga hafa á skógrækt. Hún gefur skýrt og greinargott yfirlit yfir helstu atriði sem hyggja þarf að við ræktun skóga. Farið er yfir undirbúning og skipulagningu skógræktar og helstu framkvæmdaratriði í ræktun og umhirðu miðað við íslenskar aðstæður.

Bókin er gefin út af verkefninu Kraftmeiri skógi, í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands og Landssamtök skógareigenda. Nánari upplýsingar eru á heimasíðu Landbúnaðarháskólans.

 skogabok

Skrúður og Carlo Scarpa – hátíðardagskrá í Menningarmiðstöðinni Edinborg

Með Ýmislegt

Sunnudaginn 21. júlí n.k. verður boðið til hátíðardagskrár í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í tilefni af því að fyrr á þessu ári hlaut garðurinn Skrúður á Núpi við Dýrafjörð, alþjóðleg verðlaun sem kennd eru við ítalska arkitektinn Carlo Skarpa. Fimm fulltrúar úr valnefnd og stjórn Menningarsjóðs Benetton, sem verðlaunin veita, heimsækja landið og mun taka þátt í dagskránni og fræða ráðstefnugesti um sjóðinn, verðlaunin og arkitektinn Carlo Scarpa.

Dagskráin fer fram í Edinborgarhúsinu á Ísafirði sunnudaginn 21. júlí n.k. kl. 9:30-17:00.

Fyrir hádegi verður stutt kynning á sögu byggðar á Vestfjörðum og farið verður í gönguferð á sögustaði í miðbæ Ísafjarðar. Að loknu hádegisverðarhléi kl. 14:00 verða flutt erindi um arkitektinn Carlo Scarpa, sögu Skrúðs og sögu íslenskra garða, og sagt verður frá menningarsjóði Benetton og alþjóðlegu verðlaununum sem kennd eru við Carlo Scarpa.

Í lok dagskrár verður opnuð sýning sem gerð var um Skrúð og sett upp á Ítalíu við afhendingu verðlaunanna s.l. vor. Boðið verður upp á léttar veitingar og óformlegt spjall en dagskránni í Edinborgarhúsinu lýkur kl. 17:00.

Dagskrá í Menningarmiðstöðinni Edinborg

09:30  Ávarp – Brynjólfur Jónsson Framkvæmdasjóði Skrúðs 
Þróun vestfirskra byggða og bæja – kynning 
Elísabet Gunnarsdóttir arkitekt 
10:00  Skoðunarferð um Ísafjörð í fylgd heimamanna 
12:00  Hádegshlé – (Hádegisverður í Tjöruhúsinu í Neðstakaupstað fyrir þá sem þess óska) 
14:00 Ráðstefna um Skrúð, arkitektinn Carlo Scarpa og Alþjóðaverðlaun Carlo Scarpa 

Ávarp bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar Daníels Jakobssonar 
14:10  Erindi um Carlo Scarpa 

Domenico Luciani arkitekt og formaður Alþjóðaverðlauna Carlo Scarpa (Premio Internazionale Carlo Scarpa per il Giardino) 
14:50 Erindi um sögu íslenskra garða 
Einar E. Sæmundsen landslagsarkitekt 
15:10  Erindi um Skrúð 
Samson B. Harðarson landslagsarkitekt, lektor við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri 
15:30  Erindi um alþjóðlegu Carlo Scarpa verðlaunin og Menningarsjóð Benetton 

Patrizia Boschiero ritari Alþjóðaverðlauna Carlo Scarpa (Premio Internatzionale Carlo Scarpa per il Giardino) 
16:00  Léttar veitingar og óformlegt spjall 
17:00  Dagskránni í Edinborgarhúsinu lýkur

 skrudur
 

Fuglavernd: Fuglaskoðun í Vatnsmýri og Friðlandinu í Flóa

Með Ýmislegt

Laugardaginn 1. júní nk. býður Fuglavernd áhugasömum upp á tvær fuglaskoðanir, annars vegar í Vatnsmýrinni og í kringum Tjörnina og hins vegar í Friðlandinu í Flóa. Ókeypis er í báðar fuglaskoðanirnar og allir velkomnir. Mikilvægt er að vera vel skóaður, muna eftir sjónauka og jafnvel handbók um fugla.

Fuglaskoðunin í Vatnsmýrinni og í kringum Tjörnina er leidd af Aron Leví og hefst kl. 16:00 frá anddyri Norræna hússins. Hún stendur yfir í u.þ.b. 1 klst. og skoðað verður fuglalífið á Hústjörn, Vatnsmýrartjörn, Þorfinnstjörn, Suðurtjörn og Norðurtjörn. Fuglaskoðunin er haldin í samvinnu við Norræna húsið og er á vegum nýstofnaðs félagsskapar sem kallar sig Hollvini Tjarnarinnar. Markmið þeirra er að hlúa að lífríki Tjarnarinnar, m.a. með hreinsun og hreiðurgerð. Félagsskapurinn er opinn öllum og hægt er að skrá sig á fuglavernd@fuglavernd.is.

Friðlandið í Flóa er ein af skrautfjöðrum Fuglaverndar og þar mun Hjálmar A. Jónsson leiða skoðunina á laugardaginn. Mæting er við fuglaskoðunarskýlið við bílastæðið í Friðlandinu og hefst hún kl. 16:30. Nú á varptíma er tilvalinn tími til að skoða hina fjölbreyttu fánu votlendisfugla, en nærri 25 tegundir verpa að staðaldri í Friðlandinu. Einnig er áhugavert að sjá gróðurinn vakna til lífsins eftir vetrardvala.

Nánari upplýsingar á heimasíðu Fuglaverndar, www.fuglavernd.is.


fuglavernd-fuglaskodun-juni

(Mynd: Helgi Skúlason).