Skip to main content
Flokkur

Ýmislegt

Stefnumörkun um skógrækt afhent ráðherra

Með Ýmislegt

Starfshópur undir formennsku Jóns Loftssonar skógræktarstjóra hefur unnið að gerð stefnumótunar í skógrækt og hefur nú skipað tillögum sínum til Svandísar Svavarsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra. Nefndin, sem var skipuð árið 2006, hefur unnið greinargerð með stefnumarkandi tillögum um áherslur í skógræktarstarfinu sem hún kynnti ráðherra þann 9. janúar.

Í nefndinni sátu fulltrúar Landshlutaverkefna í skógrækt, Landssamtaka skógareigenda og Skógræktarfélags Íslands. Jafnframt voru drög að greinargerð nefndarinnar send í almenna kynningu árið 2010 og bárust þá fjölmargar ábendingar og athugasemdir sem voru til leiðsagnar við endanlega gerð greinargerðarinnar.

Í greinargerðinni er fjallað um ýmsa þætti skógræktar og hvernig skógræktaraðilar hyggjast móta og skipuleggja starf sitt. Nánari upplýsingar eru á heimasíðu Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins (hér).

Umsókn í Minningarsjóð Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson

Með Ýmislegt

Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson auglýsir rannsóknastyrki í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu.
Til úthlutunar verða samtals 4,5 milljónir króna. Styrkirnir eru lausir til umsóknar frá og með 1. desember 2012 og umsóknum skal skilað eigi síðar en 10. janúar 2013.

Umsókn ásamt fylgigögnum skal skila í einu pappírseintaki og á tölvutæku formi (á geisladiski sem rtf, pdf eða word skjal). Ófullgerðum umsóknum verður vísað frá. Umsóknareyðublöð má finna á heimasíðum Skógræktarfélags Íslands (hér),  Landgræðslu ríkisins (land.is) og Skógræktar ríkisins (skogur.is). 

Umsóknum skal skila til: Landgræðslusjóðs, Skúlatúni 6, 105 Reykjavík. Skrifa skal skýrt á umslag: „Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson“.

Dagur íslenskrar náttúru

Með Ýmislegt

Dagur íslenskrar náttúru verður haldinn hátíðlegur í annað sinn sunnudaginn 16. september nk. Á deginum afhendir umhverfisráðherra fjölmiðlaverðlaun fyrir góða umfjöllun um umhverfismál og einnig verður Náttúruverndarviðurkenning Sigríðar í Brattholti veitt einstaklingi sem skarað hefur fram úr við vernd náttúrunnar.

Umhverfisráðuneytið hefur opnað sérstaka slóð á heimasíðu ráðuneytisins þar sem er að finna frekari upplýsingar og þar geta allir þeir sem efna til viðburða skráð þá. Frekari upplýsingar um daginn er að finna á slóðinni: http://www.umhverfisraduneyti.is/.

Er skógræktarfólk hvatt til að láta sitt ekki eftir liggja og efna til skemmtilegra skógarviðburða í tilefni dagsins.

Minningarlundur um Útey á Íslandi

Með Ýmislegt

Fyrstu trén í minningarlundi um fórnarlömbin á Útey og í Osló í fyrrasumar voru gróðursett í gær við Norræna húsið.

Lundurinn er staðsettur á jaðri friðaða svæðisins í Vatnsmýrinni. Alls verða gróðursett átta reynitré í hring, sem tákna Norðurlöndin fimm ásamt sjálfsstjórnarhéruðunum þremur (Færeyjar, Álandseyjar og Grænland).  Inni í hringnum verða bekkir og minningarsteinn, með áletrun. Í kringum hringinn verður 77 birkitrjám plantað – einu fyrir hvern þann sem missti lífið í árásunum.

Það voru feðginin Siri Marie Seim Sønstelie og Erik H. Sønstelie, sem settu niður fyrstu tvö birkitrén, en þau eru komin til Íslands til að kynna bók sína „Ég er á lífi, pabbi“, en Siri Marie var í Útey þegar árásin var gerð. Minningarlundurinn verður svo formlega vígður á Menningarnótt í sumar.

Minningarlundurinn er samstarfsverkefni Skógræktarfélags Reykjavíkur, Norræna félagsins, Háskóla Íslands og Norræna hússins.

 

Myndir frá gróðursetningu eru á Fésbókarsíðu Skógræktarfélags Íslands (hér).

Bók um 100 ára sögu Lystigarðsins á Akureyri

Með Ýmislegt

Væntanleg er bók um sögu Lystigarðsins í 100 ár (1912-2012). Mjög ítarlega er farið í upphafið, hvernig garðurinn varð til og þá miklu sjálfboðavinnu sem konur fyrst og fremst unnu allt til ársins 1953 þegar Akureyrarbær yfirtekur rekstur garðsins. Í bókinni er mikið af myndum frá öllum tímabilum.

Bókin er rituð af Ástu Camillu Gylfadóttir landslagsarkitekt. Meðhöfundur er Björgvin Steindórsson forstöðumaður Lystigarðsins.

lystigardur

Hátíðardagskrá á Reykjum í Ölfusi sumardaginn fyrsta

Með Ýmislegt

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum – Starfsstöð Landbúnaðarháskóla Íslands – á sumardaginn fyrsta, 19. apríl, kl. 10-18. Hægt er að heimsækja hitabeltið í bananahúsinu og pottaplöntusafnið, ýmsar veitingar, grænmeti, blóm og trjáplöntur verða til sölu og fara á sýningu í skólastjórabústaðnum.

Eftir hádegið er hátíðardagskrá þar sem afhent verða Garðyrkjuverðlaun LbhÍ, Umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar og Umhverfisverðlaun Ölfuss.

Nánar má lesa um dagskrána á heimasíðu LbhÍ (hér).

Ljóða – og ritgerðasamkeppni Yrkjusjóðs

Með Ýmislegt

Verðlaun voru veitt í ljóða- og ritgerðasamkeppni Yrkjusjóðs í Norræna húsinu föstudaginn 17. febrúar.
 
Í tilefni af Alþjóðlegu ári skóga 2011 og 20 ára formlegu afmæli Yrkjusjóðs árið 2012 ákvað sjóðurinn að efna til ljóða- og ritgerðasamkeppni meðal grunnskólabarna síðasta haust. Þema samkeppninnar var ,,Þetta gerir skógurinn fyrir mig“. Er það tilbrigði við meginstef Alþjóðlegs árs skóga ,,Þetta gerir skógurinn fyrir þig“.

Rúmlega 300 ljóð og rúmlega 80 ritgerðir bárust í keppnina, frá grunnskólabörnum um land allt. Verðlaun voru veitt fyrir ritgerð og ljóð í tveimur flokkum, fyrir miðstig (5.-7. bekk) og efsta stig (8.-10. bekk). Auk viðurkenningarskjals fengu verðlaunahafar 25.000 króna verðlaun til glaðnings sínum bekk.

Sigurður Pálsson, skáld og formaður Yrkjusjóðs, afhenti verðlaunin en hann sat í dómnefndinni ásamt Laufeyju Sigvaldadóttur kennara og Sölva Birni Sigurðssyni rithöfundi.

Verðlaunahafar eru:
Miðstig (5.-7. bekkur)
Ljóð : Áslaug Erla Haraldsdóttir, Grandaskóla
Ritgerð: Andrea Dís Steinarsdóttir, Klébergsskóla

Efsta stig (8.-10. bekkur)
Ljóð: Hafþór Gísli Hafþórsson, Norðlingaskóla
Ritgerð: Halldór Smári Arnarsson, Landakotsskóla

yrkjuverdlaun

Verðlaunahafar í Ljóða- og ritgerðasamkeppni Yrkjusjóðs. F.v. Halldór Smári Arnarsson, Áslaug Erla Haraldsdóttir og Hafþór Gísli Hafþórsson. Fjórði verðlaunahafinn, Andrea Dís Steinarsdóttir, var stödd erlendis (Mynd: RF).

Fuglavernd: Fuglar og lúpína – dýralíf í uppgræddu landi

Með Ýmislegt

Brynja Davíðsdóttir gerði samanburðarrannsókn á þéttleika fugla og tegundasamsetningu á óuppgræddu og nýuppgræddu landi og í lúpínubreiðum sumarið 2011.Í ljós kom mikil aukning í dýralífi á uppgræddu landi miðað við óuppgrætt land, en einnig munur milli mólendis og lúpínubreiða bæði hvað varðar magn og samsetningu smádýrahópa og fuglategunda.

Brynja mun segja frá rannsókninni á fræðslufundi Fuglaverndar þriðjudaginn 14.febrúar n.k. en fundurinn verður í haldinn í húsakynnum Arion banka í Borgartúni 19 og byrjar klukkan 20:30.  Gengið er inn um aðal inngang hússins á austurhlið hússins. 

Aðgangur er ókeypis fyrir félaga í Fuglavernd en aðgangseyrir er 500 krónur fyrir aðra.

fuglavernd-lupinufuglar

Mynd: Brynja Davíðsdóttir