Skip to main content
Flokkur

Ýmislegt

Meistaravörn í skógfræði x 2

Með Ýmislegt

Föstudaginn 17. maí kl. 13.30-15.30 munu þær Else Møller og Lilja Magnúsdóttir verja meistararitgerðir sínar í skógfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Varnirnar verða í Borg í Ársal á Hvanneyri, Else frá 13.30-14.30 og Lilja frá 14.30-15.30. Boðið verður upp á kaffi í lok athafnar.

Ritgerð Else heitir Hraðrækt jólatrjáa á ökrum – Áhrif mismunandi ræktunaraðferða á lifun og vöxt jólatrjáa á fyrstu vaxtarstigum. Aðalleiðbeinandi er Bjarni Diðrik Sigurðsson og meðleiðbeinendur þeir Brynjar Skúlason, Björn B. Jónsson og Claus Jerram Christensen.
Ritgerð Lilju heitir Hagræn áhrif skógræktar – Árangur í atvinnuuppbyggingu á vegum landshlutaverkefna í skógrækt. Leiðbeinendur eru Daði Már Kristófersson og Bjarni Diðrik Sigurðsson.

Nánar má lesa um varnirnar á heimasíðu Landbúnaðarháskóla Íslands (hér).

Fuglavernd: Alþjóðlegi farfugladagurinn – fuglaskoðun á Álftanesi

Með Ýmislegt

Í tilefni af alþjóðlega farfugladeginum munu Fuglavernd vera með fuglaskoðun á Álftanesi sunnudaginn 12. maí. Allflestir farfuglarnar eru komnir og búist er við miklu fuglalífi. Ólafur Torfason fuglamerkingarmaður með meiru mun leiða hópinn en lagt verður af stað frá Kasthústjörn klukkan 13:00 stundvíslega.

Ljósmyndin er af margæs en nú er mikið af þeim á Álftanesi og eru þær hér fargestir vor og haust. Margæsin er minnsta gæsin hér á landi, aðeins lítið eitt stærri en stokkönd, með sótsvart höfuð, háls og bringu, grábrúnt bak og vængi. Okkar fargestir eru af undirtegund sem er ljósari á kviðinn og verpa á kanadísku Íshafseyjunum en hafa vetursetu á Írlandi. Aðalfæða þeirra er marhálmur, og draga þær nafn sitt af því, en þær sækja oft í tún á vorin og éta sjávarfitjung og grænþörunga.

Allir eru velkomnir en gaman er að taka sjónaukann með og klæða sig vel.

fuglavernd-fuglaskodun-mai

Mynd: Eyþór Ingi Sigurðsson.

Skrúður á Núpi hlýtur alþjóðleg verðlaun

Með Ýmislegt

Skrúður á Núpi í Dýrafirði hlýtur ein virtustu verðlaun sem veitt eru á sviði menningarlandslags, garðlistar og landslagsarkitektúrs.

Verðlaunin eru nefnd í höfuðið á Carlo Scarpa, einum frægasta arkitekt Ítala á síðastliðinni öld og hefur samnefnd menningar- og rannsóknastofnun veg og vanda af vali þeirra staða sem verðlaunaðir eru hverju sinni, en Carlo Scarpa sjóðurinn hefur veitt verðlaunin undanfarinn aldarfjórðung. Verðlaunaafhendingin fer fram við hátíðlega athöfn í Treviso á Ítalíu þann 11. maí.

Síðastliðið haust kom hingað til lands tíu manna nefnd sérfræðinga á vegum menningar- og fræðsluseturs Carlo Scarpa sjóðsins og tók stjórn Framkvæmdasjóðs Skrúðs á móti sendinefndinni í Skrúði hinn 9. september sl.

Aðdragandi að komu sendinefndar Carlo Scarpa sjóðsins til Íslands var sá að sjóðurinn hafði samband við þrjá landslagsarkitekta hér á landi, Reyni Vilhjálmsson, Einar E. Sæmundsen og Þráinn Hauksson og skipulögðu þeir heimsókn nefndarmanna þar sem skoðaðir voru helstu garðar hér á landi.
Hinn 7. febrúar sl. barst stjórn framkvæmdasjóðsins tilkynning þess efnis að Skrúður hefði hlotið ofangreind verðlaun árið 2013.

Sama dag og verðlaunaafhendingin fer fram hefur menningarstofnun Carlo Scarpa skipulagt ráðstefnu þar sem aðallega verður fjallað um Ísland, jarðfræði, sögu, arkitektúr, skipulag og ekki síst um Vestfirði, Núpsskóla og Skrúð. Við verðlaunaafhendinguna verður einnig boðið upp á íslenska tónlist þar sem tónlistarmennirnir Hilmar Örn Hilmarsson og Steindór Andersen verða í aðalhlutverki.

Þá verður við sama tækifæri gefið út fræðirit, aðallega tileinkað Skrúði. Auk þess er búið að þýða dagbók stofnanda Skrúðs, séra Sigtryggs Guðlaugssonar, yfir á ítölsku. Einnig verður opnuð sýning með ýmsum myndum og munum er tengjast Skrúði og séra Sigtryggi og Hjaltlínu Guðjónsdóttur, konu hans. Á sýningunni verður einnig sýnd kvikmynd Gísla Gestssonar kvikmyndagerðarmanns um Skrúð, sem gerð var árið 2002 og sýnd var í sjónvarpi á sínum tíma, en texti myndarinnar hefur verið þýddur á ítölsku.

Hægt verður að fylgjast með ráðstefnunni og verðlaunaafhendingunni í beinni útsendingu á slóðinni : www.fbsr.it

skrudur

Sumardagurinn fyrsti á Reykjum

Með Ýmislegt

Sumardaginn fyrsta er opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi, Landbúnaðarháskóla Íslands. Skólinn er opinn frá kl. 10 til 18. Sumarið er komið í garðskálanum og hægt er að heimsækja hitabeltið í bananahúsinu og pottaplöntusafninu. Verkefni nemenda í skrúðgarðyrkju verða til sýnis í verknámshúsi. Kaffiveitingar og markaðstorg með garðyrkjuafurðir. Ýmiss konar afþreying er í boði fyrir börnin, andlitsmálun, ratleikur og fleira óvænt og skemmtilegt. Kl. 14:00-15:15 verður hátíðardagskrá (sjá hér að neðan) þar sem afhent verða garðyrkjuverðlaun Landbúnaðarháskóla Íslands og Umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar.

Hátíðardagskrá
14:00 – 14:10 Setning – Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ
14:10 – 14:45 Garðyrkjuverðlaunin 2013 – Mennta– og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir
14:45 – 14:50 Tónlistaratriði
14:50 – 15:10 Umhverfisverðlaun Hveragerðis – Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson
15:10 – 15:15 Tónlistaratriði

Aprílskógar 2013

Með Ýmislegt

Nú þegar sólin hækkar á lofti eru Aprílskógar að skjóta rótum, en Aprílskógar eru söfnunarverkefni Græns Apríl fyrir skógrækt. Safnað er fyrir tveimur verkefnum í ár, annars vegar stuðningi við Bændaskóga á Austurlandi, en þar þarf að grisja lerkiskóginn. Grisjun á hvern ha kostar 150 þúsund krónur. Hins vegar er safnað fyrir plöntun nýrra trjáa í Skorradal, þar sem stefnt er á að rísi með tíð og tíma Aprílskógur ú r birki og reynitrjám. Nánar má lesa um Grænan apríl á heimasíðu verkefnisins (hér).

Meginþemað sem unnið er eftir í tengslum við DAG JARÐAR, er birting loftslagsbreytinganna. Ein þeirra er aukinn koltvísýringur í andrúmsloftinu. Lauf á trjám bindur koltvísýringinn, svo og ræturnar í moldinni, en um það verður einmitt fjallað í einum af fyrirlestrunum sem verða á DEGI JARÐAR í Háskólabíói þann 21. apríl n.k. Nánari upplýsingar og miðasala á viðburðinn í Háskólabíó eru á síðunni midi.is (hér).

Garðyrkjuverðlaunin 2013 – tilnefningar óskast

Með Ýmislegt

Garðyrkjuverðlaunin verða afhent í áttunda sinn á opnu húsi Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum sumardaginn fyrsta þann 25. apríl nk. við hátíðlega athöfn. Með verðlaunaveitingunni vill Landbúnaðarháskóli Íslands heiðra þá sem staðið hafa sig vel í að vinna að framgangi garðyrkjunnar á ýmsum sviðum hennar. Sú hefð hefur skapast að afhenda verðlaun í þremur flokkum en fleiri en einn geta fengið verðlaun í hverjum flokki, það er í höndum dómnefndar í hvert skipti að ákveða það. Dómnefndina að þessu sinni skipa eftirtaldir starfsmenn skólans: Björgvin Eggertsson, verkefnisstjóri Grænni skóga, Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður Starfs- og endurmenntunardeildar og Guðrún Þórðardóttir, bókasafnsfræðingur.

Það er metnaður skólans að sem flestir komi að því að velja þá aðila sem við viljum heiðra hverju sinni. Er óskað eftir tilnefningum frá öllum þeim sem láta sig málið skipta í þessa þrjá flokka. Hverri tilnefningu þarf að fylgja örstutt röksemdafærsla fyrir því af hverju viðkomandi á verðlaun skilið.


Verðlaunaflokkarnir eru eftirfarandi:
1) Heiðursverðlaun garðyrkjunnar. Hér er óskað eftir tilnefningum um einstaklinga sem skarað hafa fram úr á sviði garðyrkjunnar að mati stéttarinnar og skólans.
2) Verknámsstaður ársins. Hér er óskað eftir að tilnefndur verði verknámsstaður ársins 2013, staður sem hefur staðið sig sérlega vel við að leiðbeina nemendum skólans í verknámi.
3) Hvatningarverðlaun garðyrkjunnar. Hér er óskað eftir að tilnefndir verði aðilar sem eru að vinna að athyglisverðum og framsæknum nýjungum í greininni og eiga skilið að fá hvatningu til að halda áfram á sömu braut.

Tilnefningar þurfa að berast skólanum í síðasta lagi mánudaginn 15. apríl 2013 á netfangið bjorgvin@lbhi.is.

Ný Rit Mógilsár

Með Ýmislegt

Út eru komin tvö ný hefti af Riti Mógilsár. Í fyrra heftinu (hér) eru 16 greinar skrifaðar um efni fyrirlestra af Fagráðstefnu skógræktar 2012. Skipuleggjendur ráðstefnunnar voru Norðurlandsskógar, Skógrækt ríkisins, Landbúnaðarháskóli Íslands, Skógræktarfélag Íslands, Landssamtök skógareigenda og Skógfræðingafélag Íslands. Þema ráðstefnunnar að þessu sinni var Tegundir, kvæmi og klónar í íslenskri skógrækt en að venju voru einnig erindi almenn eðlis. Seinna heftið er eftir þá Arnór Snorrason og Björn Traustason. Ritið nefnist Úttekt á kolefnisbindingu skógræktar á svæðum í eigu Landsvirkjunar (hér) og segir frá skógarúttekt sem gerð var á þremur skóglendum í eigu Landsvirkjunar. Þar var kolefnisbinding trjágróðurs í jarðvegi og sópi (sinu) áætluð, og út frá því var hægt að áætla heildarbindingu koldíoxíðs (CO2) í skóglendum Landsvirkjunar árið 2011.

Ritin er ókeypis á rafrænu formi á vef Skógræktarinnar (hér) en þeir sem vilja prentað eintak geta haft samband við ritstjórn (edda@skogur.is) og fá þá sent eintak á kostnaðarverði.

Andlát: Baldur Helgason

Með Ýmislegt

Baldur Helgason, fyrrverandi stjórnarmaður í stjórn Skógræktarfélags Íslands, er látinn.
Baldur var kosinn í stjórn Skógræktarfélags Íslands árið 1986 og var gjaldkeri félagsins til 1996. Eftir að stjórnarsetu lauk var hann áfram skoðunarmaður reikninga félagsins fram til ársins 2000. Einnig lagði hann félaginu lið á ýmsa vegu og má þar helst til telja samningagerð vegna Landgræðsluskóga. Auk starfa sinna fyrir Skógræktarfélag Íslands var Baldur virkur meðlimur í Skógræktarfélagi Kópavogs, en þar var hann formaður í á annan áratug.

Skógræktarfélag Íslands sendir fjölskyldu og vinum Baldurs sínar innilegustu samúðarkveðjur, með þökk fyrir áratuga langt og gott samstarf.

Útför Baldurs verður gerð frá Kópavogskirkju fimmtudaginn 21. desember, kl. 13:00.

Fuglavernd: Garðfuglahelgin er nú um helgina

Með Ýmislegt

Árleg garðfuglahelgi Fuglaverndar verður dagana 25.-28. janúar 2013. Framkvæmd athugunarinnar er einföld. Það eina sem þátttakandi þarf að gera er að fylgjast með garði í klukkutíma á föstudag, laugardag, sunnudag eða mánudag, skrá hjá sér hvaða fuglar koma í garðinn og mesta fjölda af hverri tegund á meðan athugunin stendur yfir. Upplýsingar um framkvæmdina, almennt um garðfugla og fóðrun þeirra er hægt að finna á vefsíðu Fuglaverndar, www.fuglavernd.is.

fuglavernd-gardfuglatalning

Skógarþröstur, stari og gráþröstur (Mynd: Örn Óskarsson).