Skip to main content
Mánaðarlega Skjalasafn

maí 2013

Handverkssýning í Selinu

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Viðarvinir verða með handverkssýningu á tálguðum, renndum og útskornum munum í Selinu, bækistöðvum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Þallar við Kaldárselsveg, laugardaginn 18. maí, kl. 10:00-18:00. Gróðrarstöðin Þöll opnar aftur sama dag.

Allir velkomnir. Nánari upplýsingar í síma Skógræktarfélags Hafnarfjarðar, s. 555-6455.

Minningarlundur um Útey

Með Fréttir frá skógræktarfélögum

Á þjóðhátíðardegi Norðmanna, þann 17. maí næstkomandi, verður minningarathöfn í minningarlundi um fórnarlömbin á Útey og í Osló, en fyrstu trén í lundinn voru sett niður í júní í fyrra.

Lundurinn er staðsettur á jaðri friðaða svæðisins í Vatnsmýrinni. Í lundinum verða átta reynitré, sem tákna Norðurlöndin fimm ásamt sjálfsstjórnarhéruðunum þremur (Færeyjar, Álandseyjar og Grænland) og 77 birkitré – eitt fyrir hvern þann sem missti lífið í árásunum.

Hátíðardagskrá verður í Norræna húsinu fyrir athöfnina í lundinum og verður skrúðganga þaðan að reitnum. Athöfn þar hefst kl. 13:15. Dagskrá hennar er:
– Þorvaldur S. Þorvaldsson segir stuttlega frá tilurð lundarins.
– Kór frá Þrændalögum flytur lagið Til ungdommen, eftir Nordahl Grieg og Otto Mortensen.
– Dagur B. Eggertsson flytur ávarp, fyrir hönd Reykjavíkurborgar.
– Sendiherra Norðmanna, Dag Wernö Holter, flytur lokaorð.
Skrúðgangan heldur svo áfram í messu í Dómkirkjunni.

Minningarlundurinn er samstarfsverkefni Skógræktarfélags Reykjavíkur, Norræna félagsins, Háskóla Íslands, Reykjavíkurborgar og Norræna hússins.

Meistaravörn í skógfræði x 2

Með Ýmislegt

Föstudaginn 17. maí kl. 13.30-15.30 munu þær Else Møller og Lilja Magnúsdóttir verja meistararitgerðir sínar í skógfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands. Varnirnar verða í Borg í Ársal á Hvanneyri, Else frá 13.30-14.30 og Lilja frá 14.30-15.30. Boðið verður upp á kaffi í lok athafnar.

Ritgerð Else heitir Hraðrækt jólatrjáa á ökrum – Áhrif mismunandi ræktunaraðferða á lifun og vöxt jólatrjáa á fyrstu vaxtarstigum. Aðalleiðbeinandi er Bjarni Diðrik Sigurðsson og meðleiðbeinendur þeir Brynjar Skúlason, Björn B. Jónsson og Claus Jerram Christensen.
Ritgerð Lilju heitir Hagræn áhrif skógræktar – Árangur í atvinnuuppbyggingu á vegum landshlutaverkefna í skógrækt. Leiðbeinendur eru Daði Már Kristófersson og Bjarni Diðrik Sigurðsson.

Nánar má lesa um varnirnar á heimasíðu Landbúnaðarháskóla Íslands (hér).

Aðalfundur Skógræktarfélags Akraness

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur Skógræktarfélags Akraness verður haldinn miðvikudaginn 15. maí 2013 kl. 20:30 í Fjölbrautaskóla Vesturlands.

Dagskrá
1) Venjuleg aðalfundarstörf:
Fundargerð síðasta aðalfundar
Skýrsla formanns
Reikningar. Ákvörðun árgjalds 2013. 
Kosningar
2) Sumarstarfið. Gróðursetning, grisjun, stígagerð o.fl.
3) Lög félagsins. Lögin þarf að endurskoða. Á að skipa laganefnd?
4) Önnur mál.

Allir velkomnir.

Fuglavernd: Alþjóðlegi farfugladagurinn – fuglaskoðun á Álftanesi

Með Ýmislegt

Í tilefni af alþjóðlega farfugladeginum munu Fuglavernd vera með fuglaskoðun á Álftanesi sunnudaginn 12. maí. Allflestir farfuglarnar eru komnir og búist er við miklu fuglalífi. Ólafur Torfason fuglamerkingarmaður með meiru mun leiða hópinn en lagt verður af stað frá Kasthústjörn klukkan 13:00 stundvíslega.

Ljósmyndin er af margæs en nú er mikið af þeim á Álftanesi og eru þær hér fargestir vor og haust. Margæsin er minnsta gæsin hér á landi, aðeins lítið eitt stærri en stokkönd, með sótsvart höfuð, háls og bringu, grábrúnt bak og vængi. Okkar fargestir eru af undirtegund sem er ljósari á kviðinn og verpa á kanadísku Íshafseyjunum en hafa vetursetu á Írlandi. Aðalfæða þeirra er marhálmur, og draga þær nafn sitt af því, en þær sækja oft í tún á vorin og éta sjávarfitjung og grænþörunga.

Allir eru velkomnir en gaman er að taka sjónaukann með og klæða sig vel.

fuglavernd-fuglaskodun-mai

Mynd: Eyþór Ingi Sigurðsson.

Aðalfundur Skógræktarfélags Eyfirðinga 2013

Með Fundir og ráðstefnur

Aðalfundur Skógræktarfélags Eyfirðinga verður haldinn í húsnæði félagsins í Kjarnaskógi, laugardaginn 11. maí og hefst hann kl 14:00.

Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf. Að fundi loknum verður boðið upp á léttar veitingar og síðan mun Valgerður Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Norðurlandsskóga flytja erindi um fjölgun trjáa og runna með græðlingum.


Verið hjartanlega velkomin

Skógræktarfélag Eyfirðinga

Fræðslufundur Skógræktarfélags Mosfellsbæjar

Með Fundir og ráðstefnur

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar og Mosfellsbær efna til fræðslufundar um skógræktarmál þriðjudaginn 7. maí kl. 17:30. Fundurinn verður haldinn í sal við hlið Bókasafns Mosfellsbæjar í Kjarna, þar sem þjónustuver Mosfellsbæjar var áður til húsa.

Kristinn H. Þorsteinsson, garðyrkjufræðingur flytur erindi um ræktun og klippingar á berjarunnum. Berjarunnar, einkum rauðrifs og sólber hafa í gegnum tíðina notið vinsælda í garðrækt. Þó runnarnir séu auðræktaðir er ekki á vísan að róa með uppskeru, en margir þættir geta t.d. haft áhrif á blómgun, aldimyndun og annan þroska berjarunna þannig að uppskera reynist rýrari en vonir stóðu til.

Björn Traustason frá Skógræktarfélagi Mosfellsbæjar og í samstarfsnefnd skógræktarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu segir í stuttu máli frá vinnu við hönnun á Græna stígnum innan Græna trefilsins á höfuðborgarsvæðinu og hugmyndum sem komið hafa upp um legu stígsins í Mosfellsbæ.

Allir áhugasamir eru boðnir hjartanlega velkomnir. Heitt kaffi á könnunni í boði.

Skrúður á Núpi hlýtur alþjóðleg verðlaun

Með Ýmislegt

Skrúður á Núpi í Dýrafirði hlýtur ein virtustu verðlaun sem veitt eru á sviði menningarlandslags, garðlistar og landslagsarkitektúrs.

Verðlaunin eru nefnd í höfuðið á Carlo Scarpa, einum frægasta arkitekt Ítala á síðastliðinni öld og hefur samnefnd menningar- og rannsóknastofnun veg og vanda af vali þeirra staða sem verðlaunaðir eru hverju sinni, en Carlo Scarpa sjóðurinn hefur veitt verðlaunin undanfarinn aldarfjórðung. Verðlaunaafhendingin fer fram við hátíðlega athöfn í Treviso á Ítalíu þann 11. maí.

Síðastliðið haust kom hingað til lands tíu manna nefnd sérfræðinga á vegum menningar- og fræðsluseturs Carlo Scarpa sjóðsins og tók stjórn Framkvæmdasjóðs Skrúðs á móti sendinefndinni í Skrúði hinn 9. september sl.

Aðdragandi að komu sendinefndar Carlo Scarpa sjóðsins til Íslands var sá að sjóðurinn hafði samband við þrjá landslagsarkitekta hér á landi, Reyni Vilhjálmsson, Einar E. Sæmundsen og Þráinn Hauksson og skipulögðu þeir heimsókn nefndarmanna þar sem skoðaðir voru helstu garðar hér á landi.
Hinn 7. febrúar sl. barst stjórn framkvæmdasjóðsins tilkynning þess efnis að Skrúður hefði hlotið ofangreind verðlaun árið 2013.

Sama dag og verðlaunaafhendingin fer fram hefur menningarstofnun Carlo Scarpa skipulagt ráðstefnu þar sem aðallega verður fjallað um Ísland, jarðfræði, sögu, arkitektúr, skipulag og ekki síst um Vestfirði, Núpsskóla og Skrúð. Við verðlaunaafhendinguna verður einnig boðið upp á íslenska tónlist þar sem tónlistarmennirnir Hilmar Örn Hilmarsson og Steindór Andersen verða í aðalhlutverki.

Þá verður við sama tækifæri gefið út fræðirit, aðallega tileinkað Skrúði. Auk þess er búið að þýða dagbók stofnanda Skrúðs, séra Sigtryggs Guðlaugssonar, yfir á ítölsku. Einnig verður opnuð sýning með ýmsum myndum og munum er tengjast Skrúði og séra Sigtryggi og Hjaltlínu Guðjónsdóttur, konu hans. Á sýningunni verður einnig sýnd kvikmynd Gísla Gestssonar kvikmyndagerðarmanns um Skrúð, sem gerð var árið 2002 og sýnd var í sjónvarpi á sínum tíma, en texti myndarinnar hefur verið þýddur á ítölsku.

Hægt verður að fylgjast með ráðstefnunni og verðlaunaafhendingunni í beinni útsendingu á slóðinni : www.fbsr.it

skrudur